Ekki hægt að neita um frekari boranir

Drekasvæðið.
Drekasvæðið. mbl.is/KG

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnumála- og nýsköpunarráðherra, sagði í Speglinum í gær að þrátt fyrir sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu væri ekki í hendi að leyfi fyrir frekari vinnslu og borunum fengist. Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, segir í samtali við mbl.is að ef fyrirtækin uppfylli öll skilyrði varðandi umhverfis- og öryggismál eigi ekkert að koma í veg fyrir borunarleyfi, svo framarlega sem olía finnist.

„Þetta er leitar- og rannsóknarþáttur með öllum fyrirvörum af okkar hálfu varðandi umhverfis- og öryggismálin á þessu svæði. Þetta jafngildir ekki ákvörðun um að leyfa boranir eða vinnslu þarna,“ sagði Steingrímur í Speglinum í gær. Taldi hann að ef olía fyndist þyrfti að taka ákvörðun um það í framtíðinni hvort leyfa ætti boranirnar og það væri miklu stærri ákvörðun en rannsóknarleyfin. Hvert og eitt skref færi í umhverfismat og ákvörðunin lægi langt inni í framtíðinni.

Guðni segir að miklir fyrirvarar séu gerðir svo vinnsla verði leyfð. Þar á meðal að öll skilyrði séu uppfyllt. „Það er ekki búið að leyfa áframhaldandi boranir á svæðinu fyrr en sýnt hefur verið fram á að umhverfismálin séu í lagi. Um það eru miklir fyrirvarar í leyfunum.“

Hann telur aftur á móti að ekki sé hægt að neita fyrirtækjum sem fengið hafa rannsóknar- og vinnsluleyfi um frekari boranir ef olía finnist og þau uppfylli öll skilyrði um umhverfis- og öryggismál. Segir hann að huglægt mat sem ekki hafi málefnalegar ástæður gætu hugsanlega skapað skaðabótaskyldu á hendur ríkinu.

Kostnaður sem fylgir því að leggja í frekari rannsóknir og tilraunir á svæðinu mun hlaupa á tugum milljarða og því vekja orð Steingríms nokkra furðu á þessum tímapunkti. Ólíklegt er að nokkurt fyrirtæki muni setja slíka fjármuni í rannsóknir þegar ekki er víst að arðsemi verði af verkefninu, jafnvel þótt olía finnist.

Gunnlaugur Jónsson, annar eiganda Kolvetna ehf., sem er á bakvið eina af umsóknunum um sérleyfi, segir í samtali við mbl.is að ekki sé hægt að taka réttinn af mönnum núna til að vinna olíu sem hugsanlega finnist. „Stóra hugmyndin með sérleyfinu er að menn hljóta heimild til að vinna olíuna. Það er forsenda þess að farið sé í þetta stig að menn hafi vinnsluleyfi.

Hann segir þó eðlilegt að gerðar séu kröfur um umhverfisþætti áður en að borunum kemur, en að það sé „ekki hægt sem pólitísk ákvörðun héðan af að taka af fyrirtækjum réttinn til að vinna olíuna sem þau kunna að finna.“

Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri.
Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK