Hlemmur næsta heita uppbyggingarsvæðið

Laugavegur 105 þar sem nýja hótelið er til húsa. Það …
Laugavegur 105 þar sem nýja hótelið er til húsa. Það verður opnað seinna í vor.

Samblanda af hóteli, farfuglaheimili og veitingastað með bar. Þannig hljómar lýsingin á nýjasta gististað bæjarins sem mun opna á Laugavegi 105 seint í apríl á þessu ári og hefur fengið nafnið The Downtown. Hugmyndin er að blanda saman mismunandi þjóðfélagshópum og skapa þannig nýjan og áhugaverðan gististað á stað í miðborginni sem virðist vera á nokkurri siglingu upp á við síðustu misserin.

Hótelinu verður stýrt af Bandaríkjamanninum Michael Matynka, sem hefur verið viðloðandi rekstur farfuglaheimila hérlendis síðustu 9 árin. Í samtali við mbl.is segir hann frá framtíðarsýn sinni á austurhluta miðbæjarins, hugmyndinni með nýja gististaðnum og ástæðu þess að hann kom til Íslands á sínum tíma.

Fyrir nokkrum árum komu fram hugmyndir um að breyta húsinu í farfuglaheimili, en töluvert ósætti var meðal nágranna og annarra íbúa hússins varðandi þá framvindu. Þá varð einnig bið á fjármögnun, sem endaði með því að Auðun Már Guðmundsson, fjárfestir í London, festi kaup á húsinu með öðrum erlendum fjárfestum. Seint á síðasta ári var svo Matynka ráðinn til þess að sjá um að koma hótelinu í gagnið og sjá um reksturinn.

„Þetta er hótel, farfuglaheimili og veitingastaður,“ segir Matynka, en það verða 17 lúxusherbergi og 250 rúm fyrir farfugla í húsinu. Seint í apríl er gert ráð fyrir opnun, en Matynka segir að það geti færst fram eða til baka um nokkra daga eftir því hvernig leyfismál og framkvæmdir ganga.

Næsta heita uppbyggingarsvæðið

Spurður um nágrenni Hlemms sem uppbyggingarstaðar fyrir hótel segir Matynka að hann telji svæðið verða næsta heita uppbyggingareitinn í Reykjavík. „Þessi endi bæjarins hefur að miklu leyti verið skilinn eftir, en nú er að færast líf hingað,“ segir hann.

Rætt hefur verið um að færa strætóstöðina á Hlemmi í burtu, en hingað til hefur ekki verið endanlega ákveðið hvernig slíkum málum verður háttað. Matynka segist aftur á móti spá því að hún fari fyrr en seinna og það muni hjálpa til við að gera hverfið ákjósanlegri stað fyrir verslun, þjónustu og ferðamenn.

„Fólk er venjulega vestar í bænum og margir hálfpartinn gefa upp von þegar þeir færa sig hingað austar í miðbænum. Ég og eigendurnir teljum aftur á móti að með því að byggja stórt hótel og seinna meir með endanlegri tilfærslu á strætóstöðinni, þá muni  nágrennið njóta mikils ávinnings,“ segir Matynka.

Hann telur að nágrenni Hlemms verði næsta stóra uppbyggingarhverfi miðbæjarins og að miklar breytingar muni eiga sér þar stað á næstu árum. „Ég tel að þetta sé næsta stóra hverfið eftir að höfnin fyllist út. Við erum spennt yfir því að vera að flytja okkur austar í  miðbænum og við erum stolt yfir því að verða hugsanlega akkeri í þeirri tilfærslu.“

Húsið fær að njóta sín

Þá liggur hann ekki á aðdáun sinni á húsinu sem hýsir hótelið. Hann segir að það hafi eiginlega verið falið í kringum Hlemm-reitinn síðustu ár. „Húsið er ein af uppáhaldsbyggingunum mínum í Reykjavík, en hún er sú eina í art-deco stílnum sem við eigum hér í Reykjavík.“

Töluverðar umræður spunnust upp fyrir nokkrum árum þegar fyrstu hugmyndir komu fram varðandi að breyta húsinu í farfuglaheimili. Nágrannar voru meðal annars ósáttir með fyrirkomulagið og kvörtuðu opinberlega. Matynka segir að hann hafi ekki heyrt af neinum óánægjuröddum eftir að hann kom til starfa og viti ekki til þess að óvildar gæti í garð framkvæmdanna. 

Hótelið tekur ekki upp allt pláss í húsinu, en Matynka segir að með tíð og tíma verði örugglega horft til þess að stækka hótelhlutann og þá sé ekki slæmt að eiga inni möguleika að kaupa það pláss sem sé nú í eigu annarra einstaklinga.

Öllu blandað saman

Hugmyndin um að blanda saman farfuglum og þeim sem leita í lúxusaðstöðu á sama hóteli er nokkuð ný, Matynka er þó viss um að þetta verði vinsælt enda blandi þetta ferðamönnum betur saman sem jafnan gefi ánægjulegri upplifun. „Það getur hljómað nokkuð furðulega að deila herbergi með öðrum ferðamönnum, en samt hafa aðgang að mörgum af þægindum þess að vera á hóteli. Með þessu erum við að reyna að lyfta hugmyndinni um farfuglaheimili upp um eitt þrep.“

Margir ferðamenn koma hingað til lands með það að markmiði að spara mikið á gistingu og hafa þannig aukið ráðstöfunarfé til að sjá og gera meira hérlendis að sögn Matynka. Þá sé einnig mikil aukning í lúxusferðum hingað til lands, þar sem fólk eyði í kampavín í jöklaferðum. Það sé því trú þeirra sem standi á bak við nýja hótelið að horfa upp á við í þessu samhengi, en þeir vilji einnig blanda þessum tveimur hópum saman, þar sem móttaka og þjónusta verði sameiginleg, auk þess sem sömu ferðir verði í boði fyrir báða hópa. 

„Það er engin ástæða fyrir því að viðskiptamaðurinn eigi ekki að eiga samskipti við aðra þjóðfélagshópa í heimsókn sinni til landsins. Að blanda fólki er mjög mikilvægt og þess vegna verður einnig bar á jarðhæðinni sem er opinn bæði gestum og öðrum vegfarendum þannig að ferðamenn geti kynnst Íslendingum“ segir Matynka.

Frá flandri yfir í hótelrekstur

Matynka, sem er Bandaríkjamaður frá Ohio, kom sjálfur til Íslands árið 2004 án miða til baka. Hann hafði heyrt af Íslandi frá Íslendingum sem hann hitti á ferðalögum sínum og ákveð að koma hingað til að leita að vinnu. Hann byrjaði að vinna á farfuglaheimili og hefur síðan verið viðloðandi greinina, meðal annars með því að koma að opnun og rekstri Kex hostel. 

Þann tæplega áratug sem hann hefur búið hér hefur hann orðið vitni að mikilli sprengingu í ferðaþjónustu. „Þetta er iðnaður sem hefur blómstrað mjög hratt síðustu árin og ég er svo sannarlega stoltur að hafa tekið þátt í síðustu árin. Ólíklegt er að mörg lönd hefðu getað byggt upp iðnað svo hratt og vel sem Íslendingar náðu að gera, en það er að mörgu leyti velvild þjóðarinnar að þakka.“ 

Matynka segir þá þróun hafa verið ánægjulega, en telur ólíklegt að þessi hraða uppbygging sé áhyggjuefni. Hann ber til dæmis Ísland saman við Spán sem hann segir að að hafi orðið fyrir öðrum áhrifum, meðal annars vegna stærðar iðnaðarins og gríðarlegs landflæmis sem hefur verið lagt undir iðnaðinn. Þá hafi viss verndarstefna átt sér stað hér sem hafi haft jákvæð áhrif á ferðamannastaði. „Mun Ísland verða fórnarlamb eigin velgengni. Ég tel að svarið sé nei,“ segir hann.

250 rúm verða fyrir farfugla á hótelinu.
250 rúm verða fyrir farfugla á hótelinu.
Hótelherbergi á The Downtown
Hótelherbergi á The Downtown
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK