WOW skoðar Asíu- og Ameríkuflug

WOW air
WOW air mbl.is

WOW air stefnir á að vera komið með flugrekstrarleyfi á seinni hluta þessa árs, en það hefur í för með sér að félagið mun sjá sjálft um allan rekstur flugvélanna og ráða til sín eigin flugmenn. Þá er félagið að skoða möguleika á að hefja flug til Bandaríkjanna og Asíu.

Í síðustu viku var tilkynnt um ráðningu Björns Inga Knútssonar sem framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs WOW air, en hann hefur setið í stjórn félagsins frá upphafi og hefur áralanga reynslu af flugmálum. Áður hafði Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri félagsins gefið það út að stefnt væri að því sækja um flugrekstrarleyfi. Mbl.is spurði Björn Inga um framtíðaráformin og hvaða þýðingu flugrekstrarleyfi hefði.

Opnar möguleika á flugi til Asíu og Bandaríkjanna

Þegar Björn er spurður um það hvort WOW sé enn að horfa til flugrekstrarleyfis segir hann hann svo vera. „Já, við lítum á það sem lykilatriði fyrir áframhaldandi vöxt WOW air að fljúga undir eigin flaggi. Það gefur okkur mun meiri stjórn á „slottum“, öllum rekstrinum sem  er þá ekki háður öðrum flugrekstraraðila og ekki síst opnar það möguleika á flugi til Bandaríkjanna og Asíu.“

Hann segir að umsókn um flugrekstrarleyfi geti tekið allt að 5 til 9 mánuði, en það fari í gegnum flókið ferli hjá Flugmálastjórn Íslands. „Viðamiklir samningar eru gerðir  við hina ýmsu aðila eins og flugvélaleigusamningar sem og ýmsir flugvélaviðhaldssamningar.  Einnig þurfa  handbækur  flugfélagsins fyrir flugrekstrinum að hljóta samþykki Flugmálastjórnar Íslands“ segir Björn. Hann gerir þó ráð fyrir að WOW muni fara að sjá um eigin rekstur seinni part ársins, en sótt verður um leyfið á næstu vikum.

Frekari stækkun í skoðun

Mikið af starfsfólki sem færi að vinna fyrir WOW er nú þegar í vinnu fyrir samstarfsaðilana. Það yrðu því ekki miklar breytingar á starfsmannafjölda í beinu framhaldi af nýju leyfi. Hann gerir ráð fyrir að næsta sumar verði flugmenn félagsins orðnir 40 og flugliðar um 100. Með frekari stækkun gætu svo enn fleiri störf skapast.

Til að geta flogið til Bandaríkjanna er gerð krafa um flugrekstrarleyfi. Björn segir það vera eina af ástæðum þess að farið er í þetta ferli, en það muni einnig bjóða upp á frekari þenslu fyrirtækisins. „Stöðugt er verið að horfa til nýrra áfangastaða og litið mörg ár fram í tímann hvað það varðar. Enginn áfangastaður er okkur óviðkomandi. Til að mega fljúga til Bandaríkjanna og Asíu þarf félag sitt eigið flugrekstrarleyfi. Þetta er skref í stækkun WOW air“ segir Björn.

Björn Ingi Knútsson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW air.
Björn Ingi Knútsson, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs WOW air.
Efnisorð: flug WOW air
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK