„Aðalatriðið“ að launahækkanir hjúkrunarfræðinga nái ekki yfir alla

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri mbl.is/Ómar Óskarsson

Ef almennar launahækkanir á vinnumarkaði verða í samræmi við þær sem gerðar voru við hjúkrunarfræðinga á Landsspítalanum þá er ljóst að slíkt gæti leitt til aukinnar verðbólgu og myndi því kalla á herta peningastefnu Seðlabankans í formi vaxtahækkana.

Þetta kom fram í máli Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun, en hann sat þar fyrir svörum ásamt Þórarinni G. Péturssyni, aðalhagfræðingi Seðlabankans.

Már sagði að „aðalatriðið“ væri að tryggja að slíkar launahækkanir myndu ekki ná yfir alla á vinnumarkaði og benti á það eigi að geta orðið hlutfallslegar launabreytingar hjá ákveðnum hópum á vinnumarkaði án þess að allir aðrir fylgji í kjölfarið. „Það er mikilvægt að svo verði einnig núna,“ að sögn Más. Undirbúningur hagsmunaaðila á vinnumarkaði vegna kjarasamninga er þegar hafinn en þeir renna út í lok nóvember næstkomandi.

Aðspurður sagði Már að gengisþróun krónunnar, sem hefur styrkst nokkuð síðustu daga, muni ráða úrslitum um vaxtaákvarðanir Seðlabankans til skemmri tíma. „Það sem mun ráða vaxtastiginu næstu mánuði er gengi krónunnar, gengi krónunnar og gengi krónunnar.“

Launahækkanir sem skila ekki kjarabótum

Þórarinn tók undir áhyggjur Seðlabankastjóra vegna launaþróunar á vinnumarkaði. Hann benti á að launahækkanir sem væru ítrekað umfram framleiðniaukningu í hagkerfinu skili engum raunverulegum kjarabótum til launþega. Þórarinn gerði hins vegar greinarmun á atvinnugreinum á borð við þær sem væru í útflutningi, sem hefðu vissulega borð fyrir báru til að hækka laun, og annars vegar launahækkana í innlenda geiranum, meðal annars hjá þjónustufyrirtækjum, sem „sem gæti með engu móti staðið undir“ miklum launahækkunum.

Már sagði ennfremur að það væri „alltof snemmt að gera að því skóna að verðtryggingin væri á einhvern hátt ólögleg.“ Hann taldi mjög ólíklegt að hægt væri að færa fyrir því rök að um væri að ræða sambærilegt tilfelli og með gengistryggðu lánin, en þar hafi legið fyrir skýr íslenskur lagatexti um að lánin væru ólögleg.

Már vakti athygli á því að það álit sem hafi borist frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, um að mögulega hafi verið staðið að framkvæmd verðtryggðra lána á Íslandi með ólögmætum hætti, sé „ekki einhver dómsniðurstaða.“ Það sé því „mjög óljóst hvort það hafi einhver áhrif.“

Viðskiptalíkan ÍLS gengur ekki upp

Aðþrengd staða Íbúðalánasjóðs kom einnig til umræðu á fundi nefndarinnar. Að mati seðlabankastjóra er ljóst að viðskiptalíkan sjóðsins „gengur augljóslega ekki upp“ í núverandi efnahagsumhverfi – og því sé spurning hvort hann eigi starfa áfram til frambúðar með óbreyttum hætti. Þrátt fyrir að sjóðurinn sé langt undir þeim eiginfjármörkum sem reglur kveða á um þá telur Már að það sé hugsanlega tilgangslaust að leggja honum til meira eigið fé þegar haft er í huga að sjálft viðskiptalíkanið gengur ekki upp.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK