Rafmagn fyrir 300 milljónir manns

Hægt væri að nýta jarðvarma til að framleiða rafmagn fyrir …
Hægt væri að nýta jarðvarma til að framleiða rafmagn fyrir 300 milljónir í Indónesíu og í Afríkudalnum. mbl.is/RAX

Það eru 40 lönd í heiminum með jarðhita til að mæta stærstum hluta orkuþarfar sinnar. Til dæmis í Suður-Ameríku, Afríku og Indónesíu. Þetta er meðal þess sem Sri Mulyani Indrawati, framkvæmdastjóri hjá Alþjóðabankanum, sagði á íslensku jarðvarmaráðstefnunni í Hörpu í dag.

Sagði hún að í sínu heimalandi, Indónesíu, væri gert ráð fyrir að hægt væri að virkja jarðhita til að framleiða um 14 gígavött sem þýddi rafmagn fyrir um 150 milljónir manna. Að sama skapi væri hægt að ná öðrum 14 gígavöttum með jarðhitavirkjunum í Afríkudalnum og virkja þannig rafmagn fyrir annan eins fjölda manns, sem í dag býr oft ekki við þessa grunnþörf.

Í dag eru að hennar sögn aðeins um 11 gígavött virkjuð með jarðvarma, þannig að enn er mikið eftir að nýta. Sagði Indrawati að jarðvarminn hefði ekki náð meiri vinsældum síðustu áratugi vegna sömu ástæðna og aðrir endurnýjanlegir orkugjafar. Helsta ástæðan væri hár stofnkostnaður og það fældi oft einkafjárfesta frá verkefnunum. Þess vegna væri nauðsynlegt að hvetja opinbera aðila til að horfa í meira mæli til þessa geira.

Er illa við fjármálaráðherra

Sú staðreynd að horfa yrði til opinberra aðila og að þeir hefðu hingað til ekki svarað kallinu almennt væri ástæða þess að henni væri almennt illa við fjármálaráðherra ríkja í heiminum. Skoraði hún á Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að halda áfram að þrýsta á fjármálaráðherra um allan heim varðandi nauðsyn þess að setja fjármuni í jarðhitaverkefni.

Hún sagði að flest lönd sem hefðu mikla möguleika í þessum geira, til dæmis Síle, Eþíópía og Indónesía, þyrftu alþjóðlega aðstoð vegna uppbyggingarinnar, svo sem til fjármögnunar á rannsóknum og leitar að jarðvarmalindum.

Þetta er meðal ástæðna fyrir því að hún kynnti stofnun sjóðs á vegum Alþjóðabankans með um 500 milljónir Bandaríkjadollara til að standa að uppbyggingu á fjölda jarðhitaverkefna á heimsvísu. Sagði hún að þetta myndi bæði hjálpa til við rannsóknir og leit að jarðhitalindum, sem og auðvelda stækkun á núverandi virkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK