Byrjaði 12 ára og er í dag ríkastur allra

Carlos Slim hefur síðustu fjögur ár verið auðugasti maður heims …
Carlos Slim hefur síðustu fjögur ár verið auðugasti maður heims og er þar meðal annars á undan Bill Gates.

Hann hóf fjárfestingaferil sinn þegar hann var aðeins 12 ára með að kaupa hlutabréf í þjóðarbanka lands síns. Síðan þá hefur hann ávaxtað pund sitt gífurlega og á stóran hluta í einu stærsta símafyrirtæki heims. Þá er hann hluthafi í New York Times og mörgum öðrum alþjóðlegum fyrirtækjum. Hann notast þó ekki við tölvu og hefur aldrei lært á slíkt tæki, þó að hann sjáist með Blackberry síma.

Maðurinn sem um ræðir er mexíkóski auðjöfurinn Carlos Slim, en hann hefur verið ríkasti einstaklingur heims síðustu 4 árin samkvæmt auðmannalista Forbes og skákar þar þekktum nöfnum eins og Bill Gates og Warren Buffett.

Strangt peningauppeldi

Slim er fæddur í Mexíkó árið 1940 af líbönskum innflytjendum. Faðir hans hafði komið til Mexíkó þegar hann var 14 ára og byggt upp fyrirtæki sem átti bæði verslanir og fasteignir í Mexíkóborg. Slim segir að hann búi enn að þeirri fræðslu sem faðir hans kenndi honum ungur, en hann lét börnin halda vel utan um öll útgjöld og innkomu frá unga aldri. Með þessu segir Slim að hann hafi lært að fara vel með peninga.

Nýtti sér skuldakreppuna

Stóra stökkið fyrir Slim kom þó ekki fyrr en á níunda áratugnum, þegar Mexíkó gekk í gegnum skuldakreppu. Hann hafði áratugina á undan fjárfest víða með félaginu sínu Carso, en þegar hlutabréf hrundu í verði greip hann tækifærið og keypti upp hlutabréf í tóbaks- kopar- og námuiðnaði. Þá gerðist hann stórtækur í veitinga- og smásölugeiranum.

Með þessu móti hagnaðist hann mjög vel og í byrjun tíunda áratugarins keypti hann stóran hlut í ríkissímafélaginu Telmex og Grupo Condumex, raflínu og ljósleiðaraframleiðenda. Þar með hófst nýr kafli í ferli þessa stórtæka viðskiptamanns, en í dag er Telmex eitt af fjórum stærstu farskiptafélögum heims með yfir 250 milljón notendur. Á þeim 22 árum sem hann hefur átt í félaginu hefur það fjárfest fyrir tæplega 3900 milljarða í fjarskiptainnviðum Mexíkó og fyrir aðra 650 milljarða í öðrum löndum rómönsku Ameríku.

Á þrjú fótboltalið

Á síðustu árum hefur Slim dregið sig úr stjórnum nokkurra fyrirtækjanna, en hann er þó enn í fullu fjöri og hefur ekki gefið í skyn að hann ætli sér að draga sig úr daglegum rekstri. Hann er mikill íþróttaaðdáandi, en meðal annars hafa fyrirtæki hans keypt tvö knattspyrnulið í Mexíkó og eitt á Spáni. Þá er hann annálaður áhugamaður um hafnabolta og styður hið bandaríska New York Yankees.

Þá hefur Slim á verið ötull talsmaður fyrir baráttu gegn fáttækt í rómönsku Ameríku, látið töluvert fé af hendi rakna til góðgerðamála tengdum menntamálum og rannsóknum til að auka uppskeru bænda.

Sagður stuðla að einokun

Hann hefur þó ekki siglt alveg gagnrýnislaust gegnum þessa mikla auðsöfnun og segja margir hann vera einokunarsinna sem í krafti stærðar sinnar á mexíkóskum fjarskiptamarkaði, þar sem Telmex er með um 70% hlutdeild, haldi verðinu miklu hærra uppi en í flestum öðrum nágrannalöndum. Jafnvel hefur verið bent á að fjarskiptaverð í Mexíkó séu með þeim hæstu í öllum heiminum.

Auður Slim er í dag metinn á um 73 milljarða Bandaríkjadollara, eða 9.490 milljarða króna. Það nemur um 550% af landsframleiðslu Íslands. Ef hann er skoðaður í samhengi við efnahag landa í rómönsku Ameríku, þá er auður hans meiri en landsframleiðsla 13 af 21 ríki. Aðeins, Brasilía, Mexíkó, Argentína, Kólumbía, Venesúela, Síle og Perú væru fyrir ofan hann, meðan Ekvador, Dóminíska lýðveldið og Gvatemala væru fyrir neðan hann.

Þrátt fyrir gífurlegan auð sinn er hann þó sagður lifa nokkuð látlausu lífi og býr í húsi með aðeins sex svefnherbergjum, sem þykir töluvert lítið sé miðað við aðra sem eru í efstu sætum auðmannalista Forbes. Hann er þó mikill listsafnari og er hús hans sagt skreytt dýrum málverkum og styttum. Þá opnaði hann listasafnið Museo Soumaya í Mexíkóborg árið 1994 til að hýsa einkasafnið sitt á stað þar sem almenningur gæti séð það.

Carlos Slim ásamt bandaríska Bill Gates, eiganda Microsoft hugbúnarframleiðands. Þeir …
Carlos Slim ásamt bandaríska Bill Gates, eiganda Microsoft hugbúnarframleiðands. Þeir eru tveir ríkustu menn heims í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK