Kýpur missir heilan áratug

Rússnesk fyrirtæki og auðmenn eiga um 24 milljarða evra á reikningum í bönkum á Kýpur, en það nemur um 4 þúsund milljörðum íslenskra króna. Ljóst er að stór hluti þessa fjármagns mun glatast eftir samning stjórnvalda á Kýpur og Evrópusambandsins um björgunarpakka til landsins. Stjórnvöld í Rússlandi fylgjast náið með framvindu mála og sagði Dmitry Mevedev, forsætisráðherra, að athuga yrði hvaða áhrif þetta hefði á alþjóðafjármálakerfið og á hagsmuni Rússlands. Þá segir fyrrum seðlabankastjóri Kýpur að lífskjör hafi færst aftur um áratug á síðustu vikum.

Í morgun náðist samkomulag eftir 12 tíma viðræður og var niðurstaðan að skera bankastarfsemi Kýpur gríðarlega niður. Meðal annars á að loka Laika Bank, en það er næststærsti banki landsins, og færa inn í Bank of Cyprus (Trapeza Kyprou), sem er stærsti bankinn. Mun sá síðarnefndi fá aðstoð frá Evrópusambandinu til að halda lágmarks eiginfjárhlutfalli.

Gríðarlegt tap innistæðueigenda

Ljóst er að innistæðueigendur í Laika-bankanum munu tapa gífurlegum fjárhæðum, en allar innistæður umfram 100 þúsund evrur verða ekki tryggðar. Meðal þeirra sem munu tapa stórum upphæðum eru rússneskir auðmenn og fyrirtæki, en mörg þeirra geyma mikið magn peninga í bönkum landsins.

Þegar innistæðurnar hafa verið færðar milli bankanna verður Laiki skipt upp í „góða“ og „slæma“ banka og öll verðmæti flutt úr Laiki yfir í Bank of Cyprus. Með samningnum er Kýpur orðið fimmta evruríkið til að fá aðstoð frá Evrópusambandinu, en áður höfðu Grikkland, Írland, Portúgal og Spánn þegið aðstoð.

Beðið viðbragða Rússa

Ráðamenn í Rússlandi höfðu áður lýst yfir áhyggjum af ástandinu á Kýpur, en þeir brugðust reiðir við þegar fyrstu drögin að lögum um að leggja 10% skatt á allar innistæður yfir 100 þúsund evrum. Slík áform voru að lokum sett út af borðinu þegar kýpverska þingið hafnaði þeim.

Þrátt fyrir þá afstöðu sína og að hafa kallað skattinn stuld á sínum tíma, þá virðast rússneskir valdamenn leggja blessun sína yfir núverandi samning og hafa meðal annars rætt um að slaka á kröfum um endurgreiðslu á 2,5 milljarða evru láni sem þau veittu Kýpur og er til gjalddaga á næsta ári.

Það dylst samt engum að Rússar eru ekki sáttir með hvernig mál fóru á eyjunni og fjármálaráðherra Kýpur sagði í viðtali við AFP-fréttaveituna að viðbrögð Rússa yrðu væntanlega „mjög flókin“ þar sem vinaþjóðin yrði bæði sár og telji sig hafa verið blekkta. Enn er beðið eftir formlegum viðbrögðum Rússa, en ráðamenn í Evrópusambandinu hafa sagt að fylgst verði náið með þeim.

Heill áratugur í burtu

Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schaeuble, sagði í fréttaviðtali að niðurstaðan væri „sanngjörn fyrir alla aðila sem kæmu að borðinu“ og að hún myndi hjálpa til við að koma Kýpur aftur af stað í átt að varanlegum vexti.

Fyrrum seðlabankastjóri Kýpur, Afxentis Afxentious, var aftur á móti ekki jafn bjartsýnn í útvarpsviðtali í dag og sagði að lífskjör hefðu fallið gríðarlega og þótt efnahagurinn myndi taka við sér á 2 til 3 árum, þá væru allavega 10 ár í að lífskjör yrðu þau sömu og þau hefðu verið.

Nikos Anastasiades, forseti Kýpur, var aftur á móti nokkuð ánægður með niðurstöðu samninganna og sendi út tíst á vefnum þar sem hann þakkaði almenningi á Kýpur fyrir stuðninginn og sagði að hann hefði gefið sér kraft til að ná bestu mögulegu útkomunni fyrir Kýpur.

Stjórnvöld á Kýpur og Evrópusambandið sömdu um neyðarpakka í morgun, …
Stjórnvöld á Kýpur og Evrópusambandið sömdu um neyðarpakka í morgun, en honum fylgja þó nokkrar kvaðir, svo sem um að setja næststærsta banka landsins í þrot. AFP
Mikið hefur legið á Nikos Anastasiades, forseta Kýpur, en hann …
Mikið hefur legið á Nikos Anastasiades, forseta Kýpur, en hann segir að samningurinn sé það besta sem Kýpur gat gert. AFP
Á síðustu vikum hafa mótmæli verið tíð á eyjunni, en …
Á síðustu vikum hafa mótmæli verið tíð á eyjunni, en takmörk hafa verið sett á úttekir peninga og bankar hafa verið lokaðir í 10 daga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK