Ísland er fast í fyrsta gír en gæti farið í fimmta

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Rósa Braga

Það er annað hvort hægt að vera áfram föst í fyrsta gír eða setja í fimmta gír og auka fjárfestingar, koma atvinnulífinu af stað og gera hagvöxtinn sjálfbæran. Þetta sagði Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, á morgunfundi bankans þar sem ný hagvaxtaspá bankans var kynnt.

Hagvaxtarspá bankans hrapar

Meðal þess sem kom fram í spánni var mikil lækkun hagvaxtar á komandi árum. Í fyrra var gert ráð fyrir tæplega 4% hagvexti, en greiningardeildin spáir því nú að hann verði aðeins um 1,5%. Þá er aðeins gert ráð fyrir 1,9% hagvexti á næsta ári í staðin fyrir 3,5% hagvöxt.

Ásdís sagði að lítill hagvöxtur núna skýrðist af óvissu og óöryggi í skjóli haftanna og lítilli fjárfestingu. Áframhald á því myndi leiða til víxlhækkana launa og verðlags þar sem Seðlabankinn fetar þröngt fótstig milli veiks raunhagkerfis og vöru- og eignaverðbólgu.

Auknar fjárfestingar forsenda hagvaxtaraukningar

Það sem er forsendan til að brjótast út úr þessum vítahring að mati Ásdísar er að rofa fari til í fjárfestingu og hún nái sér á strik. Benti hún meðal annars á að afskriftir fjármagnsstofnsins í dag næmu um 10% á ári, en fjárfestingar síðustu ára hefðu ekki dugað til að mæta þeim.

Þá færu áhrif sértækra aðgera fyrir heimilin dvínandi, meðal annars útgreiðslu viðbótarlífeyrissparnaðs og vaxtaniðurgreiðslna. Þetta hefðu verið áhrifavaldar í hagvexti sem byggði á einkaneyslu, en nú mætti jafnvel sjá fyrir samdrátt á fyrsta ársfjórðungi í einkaneyslu.

Störf enn 13 þúsundum færri en fyrir hrun

Nokkrir af jákvæðum punktum í efnahagslífinu þessa dagana eru að verðbólga er nokkuð lág og atvinnuleysi hefur farið minnkandi. Ásdís sagði að þrátt fyrir betri atvinnuleysistölur þyrfti að skoða málið í breiðara samhengi og skoða fjölgun og fækkun starfa. Frá hruni og til byrjun árs 2010 hefði störfum hér á landi fækkað um 16.300, en frá þeim tíma hefði störfum aðeins fjölgað aftur um 2900. Þarna væri því vöntun upp á rúmlega 13 þúsund störf.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir