Fagnar viðsnúningi ráðherra

Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Centerhotels segir að ríkissjóður verði af miklum …
Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Centerhotels segir að ríkissjóður verði af miklum tekjum vegna ólöglegra hótela.

„Ég fagna þessum viðsnúningi ráðherra og vona að það verði hægt að fresta virðisaukahækkuninni meðan málið verður skoðað betur,“ segir Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Centerhotels, en hann hefur komið mikið að málefnum gistiþjónustunnar vegna hækkunar virðisaukaskatt á greinina.

Katrín til í að skoða breytingu á skattinum

Eyjafréttir sögðu frá því fyrir helgi að Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra, hefði greint frá því að hún væri mótfallin hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu úr 7% upp í 14% í september næstkomandi og myndi beita sér gegn slíku. Í samtali við mbl.is sagði Katrín að hún væri reiðubúin að endurskoða breytinguna ef þær tekjur sem ætlunin hafi verið að fá inn með honum skiluðu sér með auknum ferðamannastraumi. Málið snérist um að ná tekjunum, en ekki skattprósentuna sjálfa.

Kristófer segir að gjarnan hafi verið talað um að auka álögur á ferðaþjónustuna, en reyndin sé að það séu einkum löglega rekin hótel og önnur gistiþjónusta, sem hafa verið skotspónn stjórnvalda á yfirstandandi kjörtímabili. Segir hann hækkun tryggingagjalds, gistináttaskatt og nú tvöföldun á virðisaukaskatti koma harkalega við þá sem stundi löglega starfsemi, en komi svartri starfsemi mjög til góða og auki samkeppnisforskot þessarra aðila verulega.

Peningarnir koma aldrei til landsins

Bendir hann á að á einni erlendri vefsíðu sem sérhæfi sig í útleigu á íbúðahúsnæði til ferðamanna megi finna lista yfir á áttunda hundrað íbúðir og einbýlishús, sem rekin eru í Reykjavík. „Þessi starfsemi hefur sprottið upp á undanförnum tveimur árum og er nú í herbergjafjölda farin að slaga hátt upp í öll þau herbergi sem boðin eru í löglega reknum hótelum í Reykjavík,“ segir Kristófer, en í samanburði eru útgefin gistileyfi um 200 í Reykjavík.

Hann segir þetta vera starfsemi sem velti milljörðum og sé að langmestu rekin utan hagkerfisins og fái að vera óáreitt af hálfu stjórnvalda. Þá sé starfsemin skipulögð í gegnum erlenda vefsíðu þar sem boðið er upp á að taka greiðslur í gegnum PayPal kerfi, sem þýðir að peningarnir koma aldrei til landsins. „Það er ekki fráleitt að heimfæra þetta upp á skipulagða glæpastarfsemi eins og hún er skilgreind af hálfu Evrópulögreglunnar,“ segir Kristófer.

Gistileyfið ekki flókið ferli

Að undanförnu hefur verið uppi umræða um að það sé flókið mál og dýrt að sækja um leyfi til að reka gistingu. „Raunin er hinsvegar sú að það tekur 10 mínútur að fylla út eyðublað lögreglustjóra og leyfið sjálft kostar 24 þúsund krónur. Neðst á umsóknareyðublaðinu er hakað við og lögreglustjóra veitt heimild til að afla nauðsynlegra fylgigagna. Flóknara er þetta ekki,“ segir Kristófer.

Hann segir að á það liggi eitthvað annað en flókin pappírsvinna á  bakvið það að fólk sæki ekki um gistileyfi hér á landi. „Skýringin á því að fólk sækir ekki um leyfi  er að leyfislaus starfsemi er oftast svört starfsemi og slíkur rekstur skilar viðkomandi aðila meiri ávinningi en rekstur sem borgar skatta og skyldur.“ Þannig komist rekstraraðilar hjá því að greiða gistináttaskatt, virðisaukaskatt, tryggingagjald, 1,65% fasteignaskatt og fleira sem löglega reknir staðir búi við.

Katrín segir það ekki skipta máli hver skattprósentan sé ef …
Katrín segir það ekki skipta máli hver skattprósentan sé ef tekjurnar skili sér. Morgunblaðið/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK