Sjóræningjar kvarta yfir stuldi

Framleiðandinn Greenheart Games lét þá sem sóttu nýja leikinn ólöglega …
Framleiðandinn Greenheart Games lét þá sem sóttu nýja leikinn ólöglega finna fyrir áhrifunum á eigin skinni. AP

Litla leikjafyrirtækið Greenheart Games hefur fundið upp nýja og áhugaverða leið til að berjast gegn stuldi á tölvuleikjum á netinu. Fyrirtækið gaf út sinn fyrsta leik á dögunum þar sem spilendur byggja upp sitt eigið leikjafyrirtæki og gefa út mismunandi leiki. Í stað þess að reyna að koma fyrir vörnum og skráningarferli sem virkjar leikinn á netinu ákváðu höfundarnir að gefa sjálfir út sína eigin „hökkuðu“ útgáfu þar sem notendum er sýnt fram á áhrif ólöglegs niðurhals.

Endar á hausnum í ólöglegri útgáfu

Bræðurnir Patrick og Daniel Klug eru á bakvið fyrirtækið, en þeir hafa þróað leikinn í um 2 ár. Á heimasíðu þess segir Patrick að þeim hafi dottið í hug að setja upp spegil þar sem notendurnir finndu á eigin skinni hvernig það að borga ekki fyrir leiki gæti komið niður á framleiðendum. Það er síðan Torrentfreak sem fjallar um málið, en hún sérhæfir sig í fréttum tengdum skráskiptum.

Í „hökkuðu“ útgáfunni, sem bræðurnir gerðu og settu á skráskiptasíður samsíða venjulegri útgáfu, er nefnilega ein breyta sem hefur mikil áhrif á gang leiksins. Þegar notendur eru búnir að spila í nokkrar klukkustundir birtist gluggi á skjánum þar sem sagt er frá því að nýjasti leikurinn sem notendurnir hafa gefið út sé vinsæll á skráskiptasíðum og þess vegna fari tekjur útgefandans þverrandi. Á endanum fer svo fyrirtækið á hausinn og spilarinn tapar þannig leiknum.

Sjóræningjar kvarta yfir stuldi

Fljótlega eftir að leiknum var dreift á netinu sóttu nokkur þúsund spilendur hann. Margir þeirra urðu þó æfir vegna þessar litlu breytingar og kvörtuðu yfir því að fólk í leiknum væri að stela, þó það væri reyndin með það sjálft. 

„Af hverju eru svona margir að stela? Það eyðileggur fyrir mér,“ sagði einn spilarinn. „Ég reyndi jafnvel að búa til hræódýran leik svo sjónræningjarnir myndu ekki stela leiknum, en honum var jafnvel stolið,“ sagði annar. Það er því ljóst að þessir sjóræningjar hafa tvöfalda sýn á hvað sé réttlátt í raunheimi og í sýndarveruleikanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK