Mun ekki skaða bankana

Það blæs ekki byrlega í efnahagslífi Kína þessa dagana.
Það blæs ekki byrlega í efnahagslífi Kína þessa dagana. AFP

Lausafjárskortur í Kína mun ekki skaða stöðugleika banka þar í landi, segir formaður bankamálanefndar stjórnvalda. Í síðustu viku féllu kínversk hlutabréf töluvert í verði m.a. þar sem millibankavextir höfðu hækkað talsvert og seðlabanki landsins gaf í skyn að ódýrt lánsfé væri úr sögunni.

Áhrifa þessa hefur í raun gætt í þrjár vikur. Shang Fulin, yfirmaður bankamálanefndar Kína, segir að nóg sé af lánsfé í kínverska bankakerfinu og tekur þar með undir yfirlýsingar seðlabankans frá því í lok vikunnar. Shang segir að nú sé að losna um lánsfé á ný.

„Þetta ástand mun ekki ekki hafa áhrif á stöðugar stofnanir í bankakerfinu,“ sagði hann á fjármálaráðstefnu í Shanghai í dag.

Seðlabankastjóri Kína, Zhou Xiaochuan, sagði í gær að bankinn myndi nota þau stjórntæki sem hann hefði til að viðhalda stöðugleika í bankakerfinu.

Hættan sem við blasir er sú að bankar, sem sjálfir þurfa að borga hátt verð fyrir lán úr öðrum bönkum, dragi úr útlánum til viðskiptavina sinna. Það myndi hafa margföldunaráhrif út í allt hagkerfið.

Kínverskir fjölmiðlar hafa sagt frá því að bankarnir eigi í vandræðum með að standa í skilum gagnvart sínum eigin skuldanautum en stórir greiðsludagar eru sagðir framundan.

Yfirmaður eins stærsta banka Kína, Landbúnaðarbankans, segir að bankar ættu að herða á áhættumati sínu og fjárfesta á „réttum stöðum“.

Frétt mbl.is: Tími ódýrs fjármagns í Kína er liðinn

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK