Komnir á fullt með lyfjaöryggi í Hollandi

Gauti Reynisson, forstjóri Mint Solutions, segir að markmiðið sé að …
Gauti Reynisson, forstjóri Mint Solutions, segir að markmiðið sé að ná til tuga sjúkrahúsa á næstu árum.

Fyrirtækið Mint Solutions hefur á síðustu árum hannað og þróað MedEye lyfjaskannann sem getur stóraukið lyfjaöryggi hjá sjúkrahúsum og stofnunum sem nýta sér búnaðinn. Með því er hægt að draga úr mistökum sem gerð eru við lyfjaskömmtun, en talið er að um 20% lyfjagjafa séu skráðar eða gefnar rangt að einhverju leyti. Nú er svo komið að verið er að klára að innleiða kerfið á ADRZ sjúkrahúsinu í Hollandi, auk þess sem 3-4 önnur sjúkrahús þar í landi eru að íhuga að taka upp kerfið að fullu.

Stefnan sett á tugi sjúkrahúsa á næstu árum

Gauti Reynisson, forstjóri og einn stofnenda fyrirtækisins, segir í samtali við mbl.is að markmið þessa árs sé að klára tvær sölur til viðbótar í Hollandi, og einnig er sölu og markaðsstarf hafið í Noregi, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Í Hollandi eru að sögn Gauta um 100 sjúkrahús á markaðinum. „Við stefnum að því að innan 5-10 ára verðum við komnir með stóran hluta þess markaðar,“ segir Gauti, en að meðaltali verða um 50 til 60 tæki á hverju sjúkrahúsi. Segir hann að heildarsamningar við hvert sjúkrahús nemi á bilinu 30 til 60 milljónum. Þó geti einstakar deildir tekið kerfið upp fyrir lægri upphæðir.

Öryggistæki og aðstoðar hjúkrunarfræðingur

MedEye er kassi sem pillur eru settar í til að sannreyna að um réttar pillur sé að ræða. Gauti segir að framtíðarsýnin sé að kerfið verði að aðstoðar hjúkrunarfræðingi. Það skoði hvað sé verið að gera, sjái um alla pappírsvinnu og láti vita ef mistök séu í uppsiglingu.

Hann segir að Holland hafi verið valið sem fyrsti markaður vegna þess hversu framarlega landið standi í lyfjaöryggi. „Hér er búið að beita sér mikið fyrir auknu lyfjaöryggi síðustu 10 til 15 árin með að nýta tölvutækni. Þar er líka mikið svigrúm fyrir starfsfólk til að koma að svona innleiðingum og Holland er tvímælalaust fremst í Evrópu við að innleiða svona lausnir,“ segir Gauti.

Noregur, Bretland og Bandaríkin einnig í sigtinu

Í dag er Mint Solutions í viðræðum við 2-3 sjúkrahús í bæði Noregi og Bretlandi. Hann segir að þar sé þó aðeins lengra í að samningar klárist heldur en í Hollandi, en að þessi lönd séu að taka við sér í lyfjaöryggismálum. Þá hóf fyrirtækið viðræður við Landsspítalann hér á landi á síðasta ári, en Gauti segir að þær viðræður hafi verið settar á bið í janúar. 

Þá séu Mint Solutions farið að þreifa fyrir sér á Bandaríkjamarkaði og viðræður hafnar við samstarfsaðila. Bandaríkin séu aftur á móti stóri markaðurinn fyrir lausnir sem þessar og þangað stefni fyrirtækið á næstu árum. Með auknum umsvifum er ætlun fyrirtækisins að stækka töluvert hér heima og segir Gauti að í vetur sé stefnt á að fjölga starfsfólki um allavega 5-7 manns, aðallega í hugbúnaðarþróun, verkefnisstjórn og gæðaeftirliti.

20% lyfjagjafa rangar

Gauti segir að þó að rannsóknir hafi sýnt að um 20% af lyfjagjöfum séu á einhvern hátt rangar, þá séu alvarleg lyfjamistök sjaldgæfari. Algengustu lyfjamistökin eru að það gleymist eitt lyf eða óvart gefin auka tafla, og svo er einnig algengt að skammtastærðin sé ekki alveg rétt. Þannig mistök gerast að meðaltali einu sinni á dag á hvern sjúkling samkvæmt bandarískum rannsóknum og engin ástæða til að ætla að ástandið sé betra eða verra annarsstaðar. Til þess að koma í veg fyrir þessi mistök þarf að sannreyna alla lyfjaskammta sem sjúklingur fær, og að það sé einmitt verkefni MedEye.

Hluthafar Mint Solutions eru Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, fjárfestingasjóðurinn Investa, Guðmundur Jónsson fjárfestir auk stofnendanna Ívars Helgasonar, Gauta Reynissonar og Maríu Rúnarsdóttur og svo starfsfólk fyrirtækisins. Þá segir Gauti að Tækniþróunarsjóður hafi lagt félaginu til mikilvæga styrki í uppbyggingarferlinu.

Sem stendur segir Gauti að verið sé að leita að fleiri fjárfestum, bæði hér heima og erlendis til að hægt sé að stækka sölustarfsemina í Evrópu og taka fyrstu skrefin í Bandaríkjunum.

Lyfjaskanninn getur komið í veg fyrir þær 20% lyfjagjafa sem …
Lyfjaskanninn getur komið í veg fyrir þær 20% lyfjagjafa sem eru rangar.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK