Jon von Tetzchner opnar frumkvöðlasetur á Eiðistorgi

Jon von Tetzchner hefur verið mjög áhugasamur um íslenskt frumkvöðlastarf …
Jon von Tetzchner hefur verið mjög áhugasamur um íslenskt frumkvöðlastarf síðustu árin. Rósa Braga

Jon von Tetzchner, fjárfestir og stofnandi Opera Software, hefur verið duglegur að setja fjármuni í íslensk nýsköpunarfyrirtæki upp á síðkastið. Meðal annars hefur hann fjárfest í fyrirtækjunum OZ, SmartMedia, Budin, Hringdu og þá var hann nýlega að kaupa í fyrirtækinu Spyr.

Nýtt 800 fermetra frumkvöðlasetur opnar á næstunni

Á næstunni ætlar hann svo að opna formlega nýtt frumkvöðlasetur á Eiðistorgi, en þar verður pláss fyrir um 24 fyrirtæki í tæplega 800 fermetra rými. Í samtali við mbl.is segir Jon að reynt verði að hafa húsnæðið ódýrt og að fyrirtæki verði valin inn með það að leiðarljósi að búa til öflugan og dínamískan hóp sem geti nýtt sér tengslanet Jons og samstarf við frumkvöðlasetur í Noregi, Berlín og Bandaríkjunum.

Þegar Jon tekur á móti blaðamanni í nýja húsnæðinu segir hann að það hafi staðið autt í þrjú ár, en þar á undan verið skrifstofa Lyfjastofnunar. Sjálfur segist hann hafa gengið með þessa hugmynd í rúmt ár, en fyrr í sumar hafi hann dottið niður á þessa staðsetningu og ákveðið að láta verða af hugmyndinni.

24 herbergi og stór fundasalur

Húsnæðið skiptist upp í tvær álmur, sem hver hefur 12 skrifstofur, en auk þess verða tvö fundarherbergi, klósett, eldhús og salur sem getur hýst um 100 manna fundi. Hver skrifstofa er búin með borðum og stólum og þá er nettenging á staðnum.

Jon var sjálfur uppalinn á Seltjarnarnesi til 20 ára aldurs. Hann segist ekki hafa einblínt á þetta svæði, en þyki staðsetningin þó ekki leiðinleg. „Mér finnst þetta frábær staður. Hér horfir maður út á sjóinn og það er stutt í alla þjónustu.“ Hann segir að sjórinn skipti sig miklu máli og að þægilegt sé að geta gengið niður að sjó á milli vinnutarna.

Minnir á Operu

„Þetta er réttur staður og minnir mig svolítið á það sem við vorum með í Operu,“ segir hann, en þar segir hann að menn hafi verið með lokaðar skrifstofur, en opin rými á milli. Hann er sjálfur ekki mjög hrifinn af opnum vinnurýmum, eins og hafa verið í mikilli sókn undanfarið. Segir hann að stundum þurfi menn að geta lokað sig af og unnið í friði. Hann telur að setur sem þetta og fyrirtæki þurfi að vera með blöndu af opnum svæðum og lokuðum.

Tengsl við Kísildal, Berlín, Noreg og Boston

Jon hefur miklar tengingar í frumkvöðlageirann víða um heim, en meðal annars er stefnan sett á að vera með formleg samskipti við frumkvöðlasetur í Noregi, sem stýrt er af fyrrum sölu- og markaðsstjóra Opera, Rolf Assev. Jon segir að það setur hafi svo áframhaldandi tengsl við aðra svipaða miðstöð í Berlín og í Kísildalinn í Bandaríkjunum.

Þá áætlar Jon að stofna álíka frumkvöðlasetur í Boston í Bandaríkjunum, en þar er hann sjálfur búsettur. Mun það setur heita Innovation house, en það er sama nafn og setrið á Eiðistorgi fær. Aðspurður hversu stórt það húsnæði verði segir Jon að það verði stórt, „mjög stórt“.

Auðveldar fyrirtækjum að skreppa út

„Hugsunin er að þessi fyrirtæki sem eru komin hingað inn og þau fyrirtæki sem ég er að vinna með hér á landi, að hægt sé að tengja þau saman við fyrirtækin úti. Það er oft erfitt að fara erlendis og stór ákvörðun fyrir fyrirtækin. Þarna væri hægt að skreppa út og kynnast umhverfinu og athuga hvort möguleiki sé að gera eitthvað á nýjum stað,“ segir Jón um tengslin við setrið í Boston.

Sex fyrirtæki nú þegar búin að panta pláss

Ekki er enn búið að klára allan fráganginn á húsinu, en fyrstu fyrirtækin fengu að skoða aðstöðuna í gær. Segir Jon að nú þegar séu sex fyrirtæki búin að panta pláss, þrátt fyrir að aðstaðan hafi ekki verið kynnt formlega, en áætlað er að opna í október. „Það er augljóst að það er áhugi fyrir svona lausnum,“ segir hann.

Innspýting fyrir Eiðistorg

Leigukostnaður verður á bilinu 15 til 20 þúsund fyrir hvern einstakling, en Jon segir að hans hugmynd sé að bjóða upp á ódýrt, skapandi umhverfi sem ýti undir að nýsköpunarfyrirtæki geti blómstrað. „Hugsunin er að hjálpa, það er engin önnur hugsun á bakvið þetta,“ segir Jon.

Þegar starfsemin verður komin á fullt segir Jon að búast megi við um 100 til 150 manns, en hann vonast til að það muni hafa jákvæð áhrif á svæðið í kring.

Lífeyrissjóðirnir fjárfesta bara í verðbréfum og byggingum

Þegar Jon er spurður út í stöðu frumkvöðlafyrirtækja í dag segir hann að mikið sé af spennandi verkefnum. Hann segir aðalvandamálið þó vera skort á fjármagni og þar sé lítil aðkoma lífeyrissjóðanna helsta áhyggjuefnið, að hans mati.

„Það er ekki mikill peningur til staðar fyrir sprotafyrirtæki. Ef þú lítur til þeirra sem hafa mestan pening þá eru það lífeyrissjóðirnir. Þeir mega ekki fjárfesta úti, þannig að þeir fjárfesta í verðbréfum og byggingum. Ég held að það væri ekki vitlaust af þeim að fjárfesta í sprotafyrirtækjum, ekki bara til að vera góðir, heldur tel ég rosalega mikið af góðum fyrirtækjum vera hér á landi ef þau fá smá fjármagn,“ segir Jon. Hann tekur einnig fram að nauðsynlegt sé fyrir fyrirtæki að hætta að horfa bara á hagnað milli ársfjórðunga, heldur þurfi þau að gera eitthvað gott og gefa af sér til að uppskera sjálf.

Þannig segir hann að sitt markmið með frumkvöðlasetrinu sé fyrst og fremst að veita íslenskum frumkvöðlafyrirtækjum gott pláss til að vaxa, annað verði svo bara að ráðast seinna meir.

Anne Stavnes hefur séð um uppbyggingu setursins fyrir Jon, en …
Anne Stavnes hefur séð um uppbyggingu setursins fyrir Jon, en eftir nokkra mánuði mun hún svo ráðast í uppbyggingu nýs seturs í Boston. Rósa Braga
Fundasalurinn er með rými fyrir um 100 manns, en þaðan …
Fundasalurinn er með rými fyrir um 100 manns, en þaðan er útsýni yfir sjóinn og Snæfellsjökul í góðu veðri. Rósa Braga
Tvö fundarherbergi eru í setrinu.
Tvö fundarherbergi eru í setrinu. Rósa Braga
Hver skrifstofa er með nokkrum borðum og stólum.
Hver skrifstofa er með nokkrum borðum og stólum. Rósa Braga
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK