Hagnaður á rekstri WOW air

Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, segist ánægður með …
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, segist ánægður með árangur félagsins. Styrmir Kári

Rekstrarhagnaður WOW air fyrir skatta og fjármagnsliði fyrstu sjö mánuði ársins nam 184 milljónum króna, en rekstrartekjur voru 5,5 milljarðar á sama tímabili. Fjöldi starfsmanna í lok árs 2012 var 94 en nú starfa yfir 160 fyrir félagið. Fjórar Airbus A 320 flugvélar eru í rekstri félagsins og flýgur félagið til 14 áfangastaða í sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Sætanýting félagsins er 82% fyrir janúar - júlí og hefur WOW air flutt yfir 236 þúsund gesti það sem af er árinu.  Stundvísi hefur verið 90% á öllum brottförum á tímabilinu janúar-júlí 2013.

Rekstrartekjur félagsins fyrir árið 2012 voru 2,5 milljarðar og tap varð af rekstri félagsins að fjárhæð 794 milljónir. Eins og fram hefur komið þá var hlutafé félagsins aukið um einn milljarð á síðasta ári. Allt hlutafé félagsins er í eigu Títan fjárfestingafélags og engar vaxtaberandi skuldir eru á félaginu.

Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, segir ánægjulegt að sjá hagnað svo fljótt eftir stofnun. „Það að stofna flugfélag kallar augljóslega á mikla fjárfestingu og gerði ég ráð fyrir að tap yrði af rekstri félagsins fyrstu árin.  Það er því mjög ánægjulegt að sjá hagnaðartölur eftir fyrstu sjö mánuðina strax á okkar fyrsta heila starfsári sem er mun fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir.  Það er ekki síður jákvætt að sjá hversu góður og öruggur reksturinn hefur verið þegar kemur að stundvísi og sætanýtingu allt árið en því má þakka samheldni og dugnaði þess frábæra hóps sem vinnur hér hjá WOW air“ segir Skúli.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK