Ísland þegar orðið þekkt í Bandaríkjunum

Verslanir Whole Foods er að finna um öll Bandaríkin.
Verslanir Whole Foods er að finna um öll Bandaríkin. Mynd/Whole Foods

Bandarískar smásöluverslanir eru framarlega í heiminum þegar kemur að vörum sem uppfylla ákveðin gæðaskilyrði, meðal annars að vera lífræn, ekki erfðabreytt o.s.frv. Whole Foods Market eru meðal þeirra verslana sem standa framarlega í þessum efnum, en á síðustu árum hefur töluvert af íslenskum vörum verið selt vestur um haf. Í samtali við mbl.is segir Julia Obici, framkvæmdastjóri hjá Whole Foods Market, að búið sé að gera Ísland að ákveðnu vörumerki meðal neytenda og að hægt sé að byggja ofan á það. Þá nefnir hún nokkur sóknarfæri sem landbúnaðarframleiðendur geti horft til.

Hreifst af skyrinu á Food and Fun

Obici segir að hún hafi fyrst komið til Íslands fyrir um 10 árum síðan. Þá hafi hún komið á Food and Fun hátíðina og hrifist af íslenskum mat, meðal annars skyri. „ég féll algjörlega fyrir því og sagði samstarfsmanni mínum að við þyrftum að flytja það inn til Bandaríkjanna,“ segir Obici. 

Það gekk þó ekki þrautarlaust því það tók heila 12 mánuði að rökræða við tollinn í Bandaríkjunum um það hvernig skyrið væri flokkað. Töldu tollverðir að skyrið væri einhverskonar ostur, meðan Whole Foods sagði réttara að flokka það sem jógúrt. Að lokum náðist samkomulag um þetta og síðan þá hefur skyrið fengið fast sæti í hillum búðarinnar. 

Til gamans má geta að Whole Foods er mjög stór keðja í Bandaríkjunum, en hún er áttunda stærsta matvörukeðjan og eru verslanirnar um 350 um öll Bandaríkin. Þá var sala þar í fyrra um 12 milljarðar Bandaríkjadalir og starfsmenn eru yfir 75 þúsund.

Leita að nýjum vörum og upplifa smalamennsku

Í dag selur búðin allskonar vörur frá Íslandi og má meðal annars nefna lambakjöt, smjör, súkkulaði, sjávarþang, silung, þorsk og reyktan fisk, auk skyrsins. Obici er stödd hér á landi ásamt hópi stjórnenda hjá Whole Foods, en tilgangur ferðarinnar var að leita að nýjum vörum til að selja hjá keðjunni og sjá hvernig fjárrækt og slátrun fer fram hér á landi. Hún segir að hópurinn hafi svo sannarlega fengið að kynnast villtri náttúru, en þau fengu að prufa smalamennsku upp á fjöllum og að upplifa réttirnar sjálfar.

Á síðustu árum hefur sala íslensks lambakjöts aukist gífurlega hjá Whole Foods, en árið 2007 voru flutt út um 20 þúsund kíló. Á síðasta ári var útflutningurinn aftur á móti um 110 þúsund kíló og segir hún að það líti út fyrir að árið í ár muni koma töluvert betur út en síðasta ár.

Nauðsynlegt að yfirfara gæðamerkingar

Obici segir að íslenskir bændur og söluaðilar landbúnaðarvara þurfi að skoða nánar gæðamerkingar og vottanir með það að leiðarljósi að auka eftirspurn eftir vörunni og auka verðmæti hennar. Nefnir hún sem dæmi að í Bandaríkjunum séu flestar mjólkurvörur sérmerktar sem komi frá býlum þar sem kýrnar eru aðeins aldar á grasfæði. Hér á Íslandi sé þetta aftur á móti almennt talið eðlilegt og því hafi menn ekki séð nauðsyn þess að merkja vörurnar sérstaklega. Þetta geti aftur á móti aukið eftirspurnina töluvert í Bandaríkjunum þar sem neytendur horfi sérstaklega til þess þegar þeir kaupa mjólkurvörur.

Ísland er nú þegar orðið þekkt merki

Í alþjóðlegu samhengi er Ísland lítill framleiðandi landbúnaðarafurða. Aðspurð hvort Ísland hafi raunverulegan möguleika á að standa út og búa sér til sérstöðu á jafn stórum markaði og Bandaríkjunum segir hún að nú þegar þekki fólk íslenska lambakjötið og skyrið. Það þurfi því að byggja ofan á því í stað þess að hafa áhyggjur af því hvort ekki sé kominn einhver grunnmarkaður.

Nefndi hún að íslenska lambakjötið sé aðeins selt yfir stuttan tíma, en að það sé engu að síður það vinsælt að þau þurfa að setja upp skilti fram í tímann þar sem greint er frá því hvenær kjötið komi í sölu.

Á síðasta ári minnkaði sala á skyri töluvert. Obici segir að ástæða þess sé aðallega sú að dreifingaraðili Whole Foods hafi ekki staðið sig í stykkinu og að dreifing þess hafi verið svo sein til vesturstrandarinnar að þau hafi þurft að stoppa sölu þar. Þegar horft sé á sölutölur á síðasta ári aðeins á austurströndinni sé aftur á móti um söluaukningu að ræða og nú þurfi fyrirtækið að bæta dreifinguna til þess að ná austurströndinni aftur.

Vandamál með merkingu á sjávarafurðum

Meðal annarra atriða sem Íslendingar þurfa einnig að skoða er hvernig merking á fiski er. Segir Obici að viltur fiskur geti ekki verið merktur sem lífrænn í Bandaríkjunum, þar sem ekki sé hægt að staðfesta það. Aftur á móti hafi Whole Food leiðir til að merkja fisk í mismunandi flokka eftir því hversu vistvænn hann sé. Þarna séu tækifæri til frekari sóknar að hennar mati.

Hún bendir meðal annars á að sóknarfæri séu með ferskan þorsk, sem komi í dag í takmörku magni til þeirra, silung og lax. Þar sé hún þó aðallega að horfa til austurstrandarinnar, þar sem vesturströndin fái mikið af laxi og öðrum fisk frá Alaska og öðrum svæðum þar í kring.

Í rúman áratug hafa íslenskar vörur verið kynntar í verslunum …
Í rúman áratug hafa íslenskar vörur verið kynntar í verslunum Whole Foods í Bandaríkjunum. mbl.is/Skapti
Julia Obici segir að meðal annars séu sóknarfæri með ferskan …
Julia Obici segir að meðal annars séu sóknarfæri með ferskan íslenskan fisk á Bandaríkjamarkað. Mynd/Whole Foods
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK