Þurftu að fara í heilsuátak í Bandaríkjunum

Árni Harðarson, stjórnarmaður í Alvogen, hélt fyrirlestur á morgunverðarfundi Ameríska-íslenska …
Árni Harðarson, stjórnarmaður í Alvogen, hélt fyrirlestur á morgunverðarfundi Ameríska-íslenska viðskiptaráðsins. Rósa Braga

Þrátt fyrir 20 milljón dollara neikvæða rekstrarafkomu árið 2010 tókst Alvogen að fjármagna sig það ár í Bandaríkjunum, en reyndar á 18% vöxtum. Síðan þá hefur fyrirtækið náð að bæta lánakjörin töluvert. Þetta kom fram í máli Árna Harðarsonar, stjórnarmanni samheitalyfjafyrirtækisins Alvogen, á ráðstefnu Ameríska-íslenska viðskiptaráðsins í morgun. Sagði hann að eina ástæða þess að fyrirtækið hafi fengið fjármagn hafi verið gott viðskiptamódel og reynsluríkt stjórnendateymi. Fór Árni yfir sögu fyrirtækisins og þær aðstæður sem fyrirtæki búa almennt við í Bandaríkjunum.

Skattaumhverfið í Bandaríkjunum flókið

Skattaumhverfið í Bandaríkjunum er að mati Árna eitt það flóknasta sem hægt er að finna. Sagði hann meðal annars að greiða þyrfti skatta vegna hugverka þar sem hægt væri að rekja uppruna til ákveðins fylkis. Þá væri reglufargan og skriffinnska einnig mjög mikil. Ekki sé þó hægt að sleppa Ameríkumarkaðinum, þar sem um 45% af allri lyfjanotkun í heiminum sé þar.

Annað sem Árni nefndi var að söluumhverfi lyfjageirans í Bandaríkjunum væri allt öðruvísi en t.d. í Evrópu eða Asíu. Í Bandaríkjunum væru um átta stórir dreifingaraðilar, þannig að sölumenn þyrftu aðeins að tala við um 20 manns og þá vægi komin markaðsdreifing á um 98% markaðarins. Á öðrum stöðum þyrfti aftur á móti tug manna sem væru alltaf á ferðinni að hitta nýja og nýja söluaðila.

Stefnir á að komast á topp 10 á fjórum árum

Í dag er Alvogen meðal 40 stærstu samheitalyfjafyrirtækja í heimi, en Árni segir að markmiðið sé að komast á lista með stærstu 10 fyrirtækjunum á næstu fjórum árum. Í dag eru 10 stærstu fyrirtækin á þessum markaði með um helming sölunnar. Árni tekur fram að ekki sé hægt að ná þessum árangri með sömu áformum og Actavis á sínum tíma þar sem farið var í 26 yfirtökur á 8 árum. Í dag segir hann að markaðurinn sé orðinn mun mótaðri með stærri fyrirtækjum og því sé besta leiðin að auka samvinnu mikið við rannsóknarfyrirtæki.

Árni ræddi einnig aðeins um starfsmenninguna úti, en hann sagði að hann hefði aldrei kynnst því að starfsmenn sýndu fyrirtækjum jafn mikla hollustu og í Bandaríkjunum. Þar væru menn almennt ekki að láta það stoppa sig þótt fjölskyldan þyrfti að bíða ef upp kæmu mál í vinnunni sem ekki mættu bíða.

Réðust strax í heilsuátak

Þegar Alvogen fór árið 2009 til Bandaríkjanna og tók yfir rekstur lyfjaverksmiðju í New York fylki segir Árni að hann hafi einnig kynnst nýju vandamáli. Í verksmiðjunni hafi 35% starfsfólksins verið með uppáskrift frá lækni um að það væri óvinnufært vegna yfirþyngdar. Því hafi fljótlega verið farið í allsherjar heilsuátak til að vinna bug á þessu vandamáli, en nauðsynlegt var að hafa lyftur um allan vinnustaðinn svo starfsfólk kæmist leiðar sinnar.

Eins og fram kemur hér að ofan var árið 2010 farið í fjármögnun við erfiðar aðstæður þar sem lánakjör voru nokkuð há. Eftir að salan jókst bæði árið 2011 og 2012 var í sumar farið í endurfjármögnun með skuldabréfaútboði upp á 225 milljónir dala. Mikil umframeftirspurn var eftir bréfunum, en að lokum var ákveðið að stækka útboðið og fá 240 milljónir dala á 7,25% vöxtum. Árni segir að ef Alvogen hafi verið tilbúið að ganga að strangari skilyrði hefði væntanlega verið hægt að ná vöxtunum niður í 6%.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK