Björn fékk óvænt forstjórastólinn

Björn Zoëga forstjóri Nextcode og fyrrverandi forstjóri Landsspítalans.
Björn Zoëga forstjóri Nextcode og fyrrverandi forstjóri Landsspítalans. Ómar Óskarsson

Björn Zoëga, forstjóri Nextcode og fyrrverandi forstjóri Landsspítalans, segir að hann hafi verið á leið til fyrirtækisins þegar Hannes Smárason ákvað að stíga til hliðar og honum var boðinn forstjórastóllinn. Hann hafi talið fyrirtækið áhugaverðara en mörg þeirra erlendu verkefna sem sér hafi verið boðið eftir að hann hætti hjá spítalanum, en útilokar ekki að flytjast til útlanda seinna meir ef áhugaverð verkefni bjóðist þar.

Margir komið að máli við hann

Í samtali við mbl.is segir Björn að eftir að hann hætti sem forstjóri hjá Landsspítalanum hafi mjög margir komið að máli við hann, bæði erlendir og innlendir aðilar. Hann segir að meðal þeirra hafi forsvarsmenn Nextcode rætt við sig og var það alveg óháð því að hann tæki að sér stjórn fyrirtækisins. „Þetta var einn af þeim hlutum sem ég hef verið að skoða síðustu vikurnar og mér leist eiginlega best á þá vinnu og þá áskorun sem í henni felst. Ég var því eiginlega með annan fótinn á leiðinni inn í þetta fyrirtæki þegar þetta kemur upp á,“ segir Björn.

Helsta aðdráttarafl Nextcode er að sögn Björns að þetta er nýtt fyrirtæki sem byggi á þekkingu og reynslu sem varð til hér á landi hjá deCode. Þá hafi fyrirtækið nýlega fengið leyfi til að koma vöru sinni á framfæri og selja hana erlendis. „Ég held að það sé rétti tíminn, eftir að hafa skoðað markaðinn og umhverfið, að fara út í hinn stóra heim núna,“ segir Björn, en bendir á að það sé ekki létt verk að koma af stað fyrirtæki í þessum geira þar sem samkeppnin sé mjög hörð.

Það er að Björn var ekki aðeins í hlutverki forstjóri spítalans, heldur vildi hann einnig sinna læknastörfum og nýtti venjulega hálfan dag á viku við skurðborðið. Aðspurður hvort hann myndi núna leggja skurðahnífinn frá sér segir Björn svo ekki vera. Hann hafi samið við Nextcode um að sinna læknastörfum nokkra daga í mánuði, svo framarlega sem það kæmi ekki niður á störfum hans hjá fyrirtækinu. Björn segir að hann vonist eftir að geta nýtt þetta til að hugsa áfram um sína sjúklinga, þó það verði mögulega á öðru formi eða öðrum tímum en áður.

Ekki verið í fríi

Aðspurður hvernig sé að vera kominn aftur í hringiðuna og hvort hann hafi nýtt síðustu vikur í að hlaða batteríin, sinna fjölskyldu og áhugamálum segir Björn að hann hafi ekki haft mikinn frítíma eftir að hann hætti sem forstjóri. Meðal annars hafi verið nokkuð tímafrekt að fara gegnum erlend tilboð og kanna þau nánar. Þá hafi hann einnig verið mikið inn á skurðstofu. Hann segir því ekki mikil viðbrigði tímalega í því að hefja nú störf hjá Nextcode.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK