Sækja 226 ára styrk til drottningar

Garðar og Søren á danska ríkisskjalasafninu að leita að upprunalegu …
Garðar og Søren á danska ríkisskjalasafninu að leita að upprunalegu skjölunum.

Saltgerðarmennirnir Garðar Stefánsson og Daninn Søren Rosenkilde, sem reka saltvinnsluna Norðursalt á Reykhólum, vonast eftir fjárstyrk frá danska konungsveldinu, en fyrir rúmlega tveimur öldum var styrk heitið til handa hverjum þeim sem kæmi upp saltvinnslu á staðnum. Hafa þeir meðal annars farið á danska ríkisskjalasafnið í leit að upplýsingum um málið, en þeir ætla að nýta heimsókn Danadrottningar í vikunni til að koma skilaboðunum um lok uppbyggingar vinnslunnar til danska ríkisvaldsins.

Sagan nær aftur til ársins 1753

Garðar segir að saga saltvinnslu á Reykhólum nái aftur um 260 ár. Þá var mikill hugur í mönnum á svæðinu um að reisa mikla saltverksmiðju. Fjármagna átti uppbygginguna með peningum frá danska fjármálaráðuneytinu. Þetta verkefni var í vinnslu alveg frá 1753 til 1787 og segir Garðar að þessi tímarammi sýni að menn hafi lengi séð þetta sem vænlegt verkefni. 

Það sem stóð verkinu fyrir þrifum voru erfiðleikar með samgöngur. Garðar segir að munur á flóði og fjöru sé um 5 metrar á svæðinu og þá sé auðvitað mikið um eyjar og sker á Breiðafirði. Gífurlegum tíma var því eytt í að kortleggja siglingaleiðir. Draumurinn lifði þó áfram þar sem á staðnum var nokkur byggð og nálægt höfninni var mikið um hveri sem hægt var að nýta til saltvinnslu.

Uppfylltu ákvæðið 226 árum seinna

Greinilegt er að menn gáfu þennan draum ekki upp á bátinn og í lögum um siglingu og verslun um Ísland frá árinu 1787 var þeim heitið styrk sem myndi reisa saltframleiðslu á Reykhólum í Barðastrandarsýslu eða öðrum stað. Reykhólar eru þó sérstaklega tilgreindir í þessu samhengi. Til gamans má geta að í sömu tilskipun er kveðið á um afnám einokunar hér á landi.

„Núna, 226 árum síðar, erum við búnir að reisa þarna saltverksmiðju,“ segir Garðar, en hann og Søren fóru saman á danska ríkisskjalasafnið og fundu þar þessi skjöl. Hann segir að þeir hafi bæði fundið upprunalegu skjölin og líka útdrætti úr þeim sem voru gerðir síðar.

Danska tengingin skemmtileg tilviljun

Søren er sjálfur Dani og segir hann þessa tilviljun nokkuð skemmtilega. Hann telur ólíklegt að þeir hefðu farið í þessa rannsóknarvinnu ef þeir hefðu báðir verið íslenskir, en upphaflega vissu þeir ekkert um styrkinn, heldur voru bara að skoða sögu saltgerðar á staðnum. 

Hann segist gjarnan vilja byrja samræður við konungsfjölskylduna um málið og bendir á að það hafi verið konungsfjölskyldan sem gaf skjalið út á sínum tíma og því hafi ekki verið aflýst. Í lögunum er öllum þeim fjárhagslega og opinbera styrk lofað sem konungsdæmið getur veitt verkefninu og segir Søren að nú sé búið að uppfylla skilyrðið um uppbygginguna.

Ætla að koma bréfi til Danadrottningar

Þeir félagar eru búnir að hafa samband við forsetaembættið vegna heimsóknar Danadrottningar í vikunni og segir Garðar að þeir vonist til að embættið komi bréfi áleiðis þar sem drottningunni er gert kunnugt um málið. „Við bara bíðum eftir að styrkurinn verði greiddur inn á bankareikning hér á Íslandi,“ segir Garðar.

Þeir viðurkenna þó að þeir séu ekkert of bjartsýnir, en vilja þó endilega láta reyna á málið. Meðal annars var notast við danskan ríkisdal á þessum tíma. „Hann er ekki til lengur,“ segir Garðar. Hann vonast til að drottningin veiti þessu eftirtek og segist hann opinn fyrir því að sjá hvað konungsembættið bjóði upp á. Segir hann að þeir félagar myndu til dæmis ekki hafna föstu sæti við dönsku hirðina eða riddaraorðu og að slíkt væri að þeirra mati farsæl lausn á málinu.

Verksmiðjan Norður & Co í Reykhólahöfn, þar sem Norðursalt er …
Verksmiðjan Norður & Co í Reykhólahöfn, þar sem Norðursalt er framleitt. Reykhólavefurinn
Rennt í gegnum lög um siglingar og verslun frá árinu …
Rennt í gegnum lög um siglingar og verslun frá árinu 1787.
Á safninu fundust skjöl sem lofa styrk til handa hverjum …
Á safninu fundust skjöl sem lofa styrk til handa hverjum þeim sem reisir saltverksmiðju á Reykhólum.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK