Vill aukna samkeppni í heilbrigðiskerfinu

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, vill auka samkeppni innan hins …
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, vill auka samkeppni innan hins opinbera. Ómar Óskarsson

„Samkeppni er ein grunnforsenda þess að hægt sé að halda uppi norrænu velferðarkerfi,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í samtali við mbl.is. „Samkeppni skapar aga í rekstri, leiðir til nýrra hugmynda, nýsköpunar og tækninýjunga og stuðlar að lægra verði, betri þjónustu og aukinni hagsæld.“ Íslendingar eigi í auknum mæli að leita leiða til þess að auka samkeppni innan hins opinbera.

Páll Gunnar hélt erindi á ráðstefnu Ríkiskaupa í liðinni viku þar sem hann fjallaði meðal annars um tækifæri til að innleiða samkeppni hjá hinu opinbera til þess að hagræða í rekstri, efla gæði og auka framleiðslu.

„Það er því miður þannig hér á landi að margir halda að samkeppni sé hvati sem henti fyrst og fremst í einkarekstri. Að opinber þjónusta lúti öðrum lögmálum. En það er ekkert fjær sanni,“ segir Páll Gunnar. „Lögmál opinbers rekstrar eru í eðli sínu ekkert öðruvísi en lögmál einkarekstrar. Það þarf einnig áskoranir í opinberum rekstri, val og samanburð. Keppni margra aðila verður til þess að laða fram betri lausnir og hagvæmari rekstur.“

Fordæmi Svía

Hann segir að auðvitað sé mismunandi þægilegt að koma samkeppni við hjá hinu opinbera. Það sé til dæmis ekki hægt að reka tvö samkeppniseftirlit með sömu verkefni í samkeppni hvort við annað. „Samkeppniseftirlitið leysir það meðal annars með því að bera sig saman við önnur eftirlit í nágrannalöndum og keppir þannig að því að vera betri á tilteknum sviðum en þau,“ útskýrir hann. „Það er hins vegar hægt að koma samkeppni fyrir með auðveldum hætti í mikilvægum þáttum hins opinbera, svo sem mennta- og heilbrigðismálum.“ Þar hafi Svíar, svo eitt dæmi sé tekið, gengið á undan með góðu fordæmi.

„Svíar hafa komið upp því sem þeir kalla valkerfi sem snýst um það að gefa einkafyrirtækjum og frjálsum félagasamtökum tækifæri til komast inn á markaði opinberrar þjónustu og keppa við þær opinberu stofnanir sem fyrir eru. Samkeppnin snýst um gæði en ekki verðlagningu, því að verðið er fyrirfram ákveðið af hinu opinbera og fylgir þeim sem þarf þjónustuna þangað sem hann leitar hennar,“ segir hann.

Augljós ávinningur

Hér sé því ekki á nokkurn hátt verið að mismuna þeim sem þiggja þjónustu eftir efnahag þeirra eða stöðu. Ávinningurinn sé aftur á móti sá að hinar opinberu stofnanir verði að standa sig betur, bæði í rekstri og þjónustu. „Þetta hefur haft þau áhrif í Svíþjóð að nýting á læknum og heilsugæslu er orðin miklu betri en áður. Gæði þjónustunnar jókst verulega á sama tíma og kostnaður hélst niðri,“ bendir hann á.

 „Það er engin ástæða til að ætla að við getum ekki nýtt samkeppni hér á landi, til dæmis á sviði heilbrigðisþjónustu.“ Hann segir okkur standa frammi fyrir miklum áskorunum. Þjóðir heimsins séu að eldast og færri og færri standi undir framleiðni hagkerfisins á meðan fleiri þurfi á heilbrigðisþjónustu að halda.

„Ekkert spennandi“

„Hér á landi brennur heilbrigðisþjónusta mjög á samfélaginu. Áhyggjur okkar beinast bæði að kostnaði og gæðum. Það er athyglisvert að hugsa til þess að við höfum farið allt aðra leið en Svíar. Við fórum í það að sameina stofnanir sem gekk svo langt að hér er í raun bara einn vinnuveitandi, Landspítalinn, og keppinautar hans eru þúsundir kílómetra í burtu. Afleiðingin er sú að hér er lítill hvati til að standa sig betur en keppinaturinn, lítill hvati til nýjunga og kostnaðurinn er áfram óviðráðanlegur,“ segir hann. Og læknarnir heykist á því að koma heim úr námi. „Það er bara einn vinnuveitandi og eitt kaup - ekkert spennandi.“

Hann segir að ef einhver vogi sér að tala um samkeppnisrekstur í heilbrigðisþjónustu sé sá hinn sami sakaður um að vilja hverfa frá hinu norræna velferðarkerfi. „Það er auðvitað útúrsnúningur. Á vettvangi Norðurlandanna er samstaða um það, og það liggur í raun í augum uppi, að ein grunnforsenda þess að hægt sé að halda uppi norrænu velferðarkerfi er einmitt samkeppni. Samkeppni er einfaldlega mikilvægt tæki til þess að viðhalda velferðarkerfinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK