570 milljóna niðurskurður í lok árs

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, segir að útgjöld til málaflokksins séu hærri …
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, segir að útgjöld til málaflokksins séu hærri en þau hafi verið undanfarin ár. mbl.is

Á þessu ári munu framlög til vísinda- og tæknisjóða verða skert um 570 milljónir af því sem áður hafði verið samþykkt á fjárlögum. Þetta kemur fram í nýbirtum fjáraukalögum og var eitt helsta umtalsefni Rannsóknarþings í dag. Þar útskýrði Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, ástæður fyrir þessari skerðingu, en í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður þar sem ákvörðunin var harkalega gagnrýnd og kom meðal annars fram að með þessu væri ríkisstjórnin að gera nýja stefnu Vísinda- og tækniráðs óraunhæfa. Var meðal annars bent á að ríkisstjórnin kæmi sjálf að því að samþykkja stefnuna og því væri undarlegt að með fjárlögum væri gert ráð fyrir að fylgja henni ekki.

Skorið niður af styrkjum sem voru í afgreiðslu

Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís, sagði í samtali við mbl.is að þessi ákvörðun kæmi hart niður á sjóðum á vegum stofnunarinnar. „Það er dæmalaust óþægilegt að við erum búin að leggja upp árið miðað við fjárlög sem liggja fyrir og svo fáum við skilaboð í lok ársins að skera eigi af okkur 570 milljónir af sjóðunum sem eru í umsýslu hjá okkur. Það eru verulegir peningar,“ sagði Hallgrímur.

Hann segir 200 milljónir fara af markáætlun sem ekki hafi verið farin af stað, en að skaðinn sé verri þar sem búið er að auglýsa og taka við umsóknum um úthlutanir. Segir hann það bæði vera tímafrekt og kosta peninga fyrir umsækjendur og með skerðingu verði árangurshlutfallið mun lægra, en það segir til um hversu hátt hlutfall umsækjenda fá úthlutun.

Hallgrímur segir hlutfallið hingað til hafa verið í algjöru lámarki, þ.e. að fólk fari að hætta að sækja um í sjóðinn þar sem litlar líkur séu á úthlutun. Í dag hefur þetta hlutfall verið um og undir 20%, en með minna fjárframlagi segir Hallgrímur að þetta hlutfall muni lækka enn frekar. Til samanburðar segir hann að um 30% umsókna teljist að jafnaði mjög frambærileg verkefni sem ættu að vera til þess fallin að komast á koppinn.

Bæta við fé eða draga af beinum framlögum

Undanfarin 10 ár hafur verið stefna Vísinda- og tækniráðs að koma hlutfalli samkeppnissjóða upp í þriðjung af framlagi ríkisins til rannsóknar- og þróunarmála. Hallgrímur segir að í dag sé það aðeins um 15% og það skjóti skökku við miðað við vilja bæði fjölmargra ríkisstjórna og vísindasamfélagsins undanfarin ár. „Það eru tvær leiðir til að gera þetta. Það er að auka fé í málaflokkinn og setja það allt í samkeppnissjóði, eða að taka fé af stofnunum og setja í samkeppnissjóðinn,“ segir Hallgrímur. Hann telur eðlilegast að bæta við fé, en að þetta sé ákvörðun sem ríkisstjórnin þurfi að taka.

Illugi sagði í samtali við mbl.is að vissulega væri rétt að fjárframlög á næsta ári verði ekki jafn há og þau voru á þessu ári. „En þau verða aftur á móti umtalsvert hærri en þau voru árið 2012 og 2011. Ástæðan fyrir því að það var svona mikil aukning árið 2013 var sú að ákveðið var að veita fjármunum inn í þetta á grundvelli fjárfestingaráætlunar,“ segir Illugi.

Vafamál hvort stefnan sé raunhæf

Hann bendir á að í þessari áætlun hafi verið gert ráð fyrir að komið væri á jafnvægi í ríkisfjármálunum, en staðan sé allt önnur í dag. „Forsendur þessarar fjárfestingaáætlunar eru allar brostnar og það þurfti að bregðast við því,“ segir hann. 

Illugi segir aðstæður vera mjög sérstakar núna og að það skipti miklu máli hvernig takist upp með efnahagsmálin næstu misseri aðspurður um það hvort nýja stefnan geti talist raunhæf eða ekki.

Framlög í samkeppnissjóði Rannís verða skornir niður um 570 milljónir …
Framlög í samkeppnissjóði Rannís verða skornir niður um 570 milljónir á þessu ári. Meðal annars er skorið niður um 150 milljónir hjá Tækniþróunarsjóði og 220 milljónir hjá Rannsóknarsjóði.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK