Kínverjar hindra notkun bitcoin

Bitcoin hríðféll í verði í Kína í dag.
Bitcoin hríðféll í verði í Kína í dag. GEORGE FREY

Markaðsvirði rafræna gjaldmiðilsins bitcoin hríðféll í dag eftir að kínversk stjórnvöld meinuðu bönkum að veita þjónustu og selja vörur sem tengjast gjaldmiðlinum. Á undanförnum misserum hefur myndast stór markaður í Kína fyrir bitcoin en fyrir stuttu var meðalverð hans yfir sjö þúsund yuan þar í landi. Verðið hríðféll hins vegar í dag og fór niður í um 4.500 yuan. Nú stendur það í kringum 5.700 yuan, eða um 930 Bandaríkjadali.

Rafræni gjaldmiðillinn bitcoin hefur vakið talsverða athygli undanfarin ár. Gjaldmiðillinn, sem settur var á laggirnir í ársbyrjun 2009, er um margt ólíkur þeim hefðbundnu gjaldmiðlum sem við þekkjum. Enginn seðlabanki er á bak við myntina, viðskipti með hana eru án opinbers eftirlits og skiptir gjaldmiðillinn aðeins um hendur rafrænt, svo fáein dæmi séu tekin.

Það er algerlega á huldu hver kynnti bitcoin fyrst til sögunnar en markmið höfundarins var að koma á gjaldmiðli sem væri bæði ódýrt og einfalt að nota og væri heldur ekki stjórnað miðlægt af opinberum aðilum.

Vekur athygli seðlabanka

Gjaldmiðillinn hefur einnig vakið athygli seðlabanka víðs vegar um heim. Seðlabanki Frakklands varaði til dæmis við notkun hans í dag. Hann benti meðal annars á að gengi bitcoin væri afar sveiflukennt og að enginn opinber eftirlitsaðili hefði eftirlit með myntinni. „Jafnvel þó að flökt gjaldmiðilsins gæti vakið áhuga einstaklinga og spákaupmanna, þá ættu þeir að vera meðvitaðir um þá áhættu sem þeir taka,“ sagði í yfirlýsingu frá bankanum.

Seðlabankinn sagði jafnframt að ef nota ætti bitcoin sem miðil í viðskiptum ætti gjaldmiðillinn að uppfylla reglur um peningaþvott og ætti bankinn að stýra eftirlitinu. Hvatti hann almenning einnig til að nota gjaldmiðilinn ekki í ólögmætri starfsemi. Ekki er langt síðan bandarísk yfirvöld, með aðstoð rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, rannsökuðu starfsemi vefsíðunnar Silkroad og lögðu í leiðinni hald á mikið magn af bitcoin, jafnvirði yfir þrjár milljónir Bandaríkjadala.

Hróður bitcoin hefur aukist

Eins og áður sagði hafa vinsældir bitcoin aukist  verulega upp á síðkastið. Meira að segja bankastjóri Seðlabanka Bandaríkjanna, Ben Bernanke, tjáði sig um myntina í síðasta mánuði og er þá mikið sagt. Honum fannst framtakið aðdáunarvert, og kom þannig greinendum í opna skjöldu, en benti á mikilvægi þess að opinberir aðilar hefðu eftirlit með þróuninni.

Bernanke er jákvæðari en forveri hans, Alan Greenspan, sem hefur lýst gjaldmiðlinum sem verðlausri bólu.

Kínverski fjárfestirinn Li Xiaolai á bitcoin að verðmæti meira en 100 milljónir Bandaríkjadala. Wall Street Journal ræddi við hann í gær um þróunina en Li bindur miklar vonir við gjaldmiðilinn og segir tækifærin endalaus, einkum í sínu heimalandi. Þrátt fyrir gríðarlegar verðhækkanir sagði Li að hann ætlaði ekki að selja, að hann væri alls ekki á þeim buxunum. Hann bjóst ef til vill ekki við því að gengið myndi hrynja í dag, en það kemur þó ekki að sök. Þegar hann keypti myntina í fyrsta sinn kostaði hún innan við fimmtíu Bandaríkjadali. Í dag kostar hún um 930 dali í Kína.

Hækkunin hefur verið mjög ör að undanförnu. Í nóvembermánuði einum hækkaði bitcoin nærri sexfalt í verði, var í kringum 200 dali í byrjun mánaðarins en endaði í um 1.150 dölum. Ef litið er eitt ár til baka, í desember árið 2012, kostaði ein eining ríflega tíu dali.

Starfsstöð á Íslandi

Eðlisfræðingurinn Sveinn Valfells er mikill áhugamaður um bitcoin en í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins í sumar greindi hann frá áformum sínum, og nokkurra íslenskra frumkvöðla, um að reisa starfsstöð fyrir greiðslumiðlun byggða á bitcoin hér á landi. Hafa þeir gengið til samstarfs við erlent fyrirtæki sem er leiðandi aðili á sviði framleiðslu sérhæfðra örgjörva.

Sveinn var einmitt í viðtali í Newsnight-fréttaþættinum á BBC fyrir skömmu þar sem hann ræddi um gjaldmiðilinn áhugaverða.

Ben Bernanke fylgist með þróuninni.
Ben Bernanke fylgist með þróuninni. JASON ALDEN
Sveinn Valfells ræðir um bitcoin á BBC.
Sveinn Valfells ræðir um bitcoin á BBC.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK