Erfiðleikum evrusvæðisins ekki lokið

Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. AFP

Of snemmt er að lýsa yfir sigri vegna efnahagserfiðleika evrusvæðisins að sögn Christine Largarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Evrópski seðlabankinn þyrfti að grípa skjótra aðgerða til þess að létta á skuldavanda minni fyrirtækja í því skyni að draga úr hættunni á verðhjöðnun. Þá gætu ríki Evrópusambandsins þurft að hverfa frá aðhaldsaðgerðum og grípa þess í stað til örvandi aðgerða til að stuðla að hagvexti og afstýra varanlegum efnahagslegum skaða.

Þetta kom meðal annars fram í máli Lagarde á ráðstefnu í Brussel í gær samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Þrátt fyrir fyrirsagnir fjölmiðla væru skýr merki um að ekki væri allt með felldu á evrusvæðinu. Hætta væri á að vítahringur skapaðist með víxlverkun minnkandi eftirspurnar og staðnaðra fjárfestinga. Fjöldaatvinnuleysi á stórum hluta evrusvæðisins stuðlaði að því að menntað fólk færi annað í leit að vinnu og það drægi aftur úr framleiðni á svæðinu til lengri tíma litið.

„Geta erfiðleikarnir raunverulega verið að baki þegar 12% vinnuaflsins er án vinnu? Þegar atvinnuleysi á meðal ungmenna er mjög hátt, rúmlega 50% í Grikklandi og á Spáni?“ spurði hún. Benti hún ennfremur á að ekki hefði náðst jafnvægi í hagvexti á evrusvæðinu og fyrir vikið væri óvíst hvort hann yrði varanlegur. Hagvöxtur væri góður í Þýskalandi en lítill eða minnkandi annars staðar á evrusvæðinu. Þá væri eftirspurn eftir vörum og þjónustu aðallega frá ríkjum utan svæðisins en ekki innanfrá.

„Eina varanlega lausnin er að stuðla að auknum hagvexti. Ekki aðeins vegna aukins útflutnings heldur einnig vegna öflugs bata þegar kemur að innlendri eftirspurn,“ sagði hún ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir