2014 verður ár snjalltækjanna

Liv Bergþórsdóttir, forstjóri fjarskiptafélagsins Nova telur að næsta ár muni …
Liv Bergþórsdóttir, forstjóri fjarskiptafélagsins Nova telur að næsta ár muni meðal annars einkennast af lækkunum á kostnaði við erlenda farsímanotkun. Í viðtali við mbl.is segir hún miklar breytingar vera á neyslumynstri um allan heim og að Íslendingar þurfi að nýta tækifæri sem þar bjóðist vel. Kristinn Ingvarsson

Árið sem er að líða er sjötta heila starfsár fjarskiptafyrirtækisins Nova, en fyrirtækið er í dag með um 30% markaðshlutdeild á farsímamarkaði. Liv Bergþórsdóttir, forstjóri félagsins, segir í viðtali við mbl.is að markmið fyrirtækisins um að hefja 4G þjónustu hafi gengið eftir og reksturinn hafi heilt yfir verið góður á árinu sem er að líða. Hún segir að stór verkefni séu framundan á næsta ári og býst við að lækkun á kostnaði vegna erlendrar notkunar verði eitt af stóru málunum. Þá telur Liv að árið muni einkennast af nýjungum í snjalltækjum og að vinsældir slíkra tækja muni enn frekar aukast.

Breytingar á tekjustofni farsímafyrirtækja

Miklar breytingar hafa verið á fjarskiptarekstri síðustu ár, flestir eru komnir með snjallsíma og má segja að þjóðin hafi alfarið snjallsímavæðst á árinu 2013. Liv segir að tekjumódel símafyrirtækjanna vera að breytast og í stað símtala og SMS sé netið að taka við sem tekjustofn. „Þetta er áskorun sem öll símafyrirtæki standa frammi fyrir,“ segir hún. 

Nova hefur alla tíð gert út á að vera fjarskiptafyrirtæki sem nýtir þráðlaus sím- og netkerfi. Það var því stór áfangi þegar 4G þjónustan var formlega tekin í notkun fyrr á þessu ári að sögn Livar. Tímasetningin var nokkuð táknræn, en kerfið var tekið í notkun fjórða dag fjórða mánaðarins.

Sjónvarpið í símann

„Þetta var nýr kafli í sögu fyrirtækisins,“ segir Liv, en hún bendir á að ef 3G kerfið hafi á sínum tíma verið fyrsta skrefið í að tengja farsíma við netið, þá sé 4G fyrsta alvöru skrefið í átt að nýrri framtíð þar sem ekki sé talað um símkerfi, heldur netkerfi. Þessi uppbygging hefur kostað töluvert, en á árinu fjárfesti Nova fyrir um 700 milljónir og segir Liv að áfram verði haldið við að byggja kerfi fyrirtækisins upp á komandi ári. Þá sé verið að leita leiða til hagræðingar um uppbyggingu á dreifikerfinu, t.d. með samstarfi við annað fjarskiptafyrirtæki.

Meðal helstu breytinga vegna 4G byltingarinnar nefnir hún að nú horfi fólk á sjónvarpsefni á netinu og sjónvarpið sé komið í farsímann „Þetta er breyttur lífsstíll og ákveðinn byrjunarpunktur á nýjum tímum,“ segir Liv. Hún segir þessa breytingu hafa komið snemma með blöðin, þar hafi fríblöð og netmiðlar sprottið fram og ógnað hefðbundnum dagblaðarekstri. Þannig hafi blöðin þurft að laga sig að breyttum lífsstíl og nú sé sama að gerast með síma- og sjónvarpsþjónustu og fleiri markaði.

2014 verður ár snjalltækjanna

Aðspurð um stærstu breytingu næsta árs segir Liv að árið 2014 verði ár nýjunga í snjalltækjum. Hún segir að fleiri gerðir snjallúra muni koma á markaði og að vinsældir nýrrar tegundar, sem verði samblanda af fartölvu og spjaldtölvu, muni aukast. Þá sé hún sjálf spenntust fyrir Google-gleraugunum, en þar sé komin alveg ný upplifun sem muni breyta miklu á næstu árum.

Liv segir að stundum sjái menn bara það neikvæða við svona breytingar, en það sé líka tækifæri á að endurhugsa markaði og tekjumódel frá grunni. Nefnir hún sem dæmi auglýsingar og upplýsingar frá fyrirtækjum fyrir snjallsímanotendur. Fyrir nokkrum árum, þegar aðeins örfá prósent áttu snjallsíma var ekki hagkvæmt fyrir fyrirtæki að einbeita sér að þessum markaði en nú þegar nánast allir eru komnir með snjallsíma opnast ný tækifæri í að nálgast fólk. Í dag sjái fleiri fyrirtæki kosti þess að búa til vettvang fyrir snjallsímanotendur og útvíkki þannig þjónustuframboðið með nýjum hætti. Þetta geti einnig leitt til hagræðingar innan fyrirtækjanna.

Netið ekki ógn í verslun heldur tækifæri

Meðal þeirra geira þar sem tölvu- og fjarskiptalausnir eru að verða algengari er heilsu- og menntakerfið. Liv bendir á að mikið af tæknilausnum sé að koma sem tengjast heilsugeiranum þar sem t.d. snjallsímanum er breytt í blóðþrýsingsmæli, hjartarit, mæli fyrir sykursjúka. Þá geti snjallsíminn breytt miklu í fræðslu og upplýsingahlutverki í þróunarlöndum.

Verslun er einnig eitthvað sem hefur breyst mikið á síðustu árum með tilkomu netsins. Liv segir að verslun á netinu muni aðeins aukast á næstu árum. Þetta hefur kallað á sterk viðbrögð hér á landi og hafa meðal annars verslunarmenn bent á mikinn innflutning frá kínverskum vefsíðum sem ógni rekstri hér á landi. Liv segir að þrátt fyrir að þetta geri oft íslenskum fyrirtækjum erfitt fyrir að keppa við stór alþjóðleg fyrirtæki, þá bjóði þetta einnig upp á tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki. Þannig geti þau farið í útrás, hvort sem það er með sölu á vöru eða þjónust sem oft væri erfitt að koma á legg hér á landi vegna smæðar markaðarins.

Lækkun vegna netumferðar erlendis

Liv er umtalað um hversu mikilvægt sé að fylgjast með tíðarandanum og hvað sé að gerast í kringum okkur og segir nauðsynlegt að Íslendingar fylgist vel með breytingum Þannig segir hún að Hulu og Netflix séu aðeins byrjunin á stærri þróunarbylgju sem muni ganga yfir heiminn á næstu árum. „Hvernig ætlum við að passa að við verðum ekki útundan,“ spyr hún og telur nauðsynlegt að halda í við tækniþróun og nýta þær lausnir sem breytingar hafi í för með sér. Það sem er hvað mikilvægast í þessu samhengi er að hennar sögn að regluverkið fylgi tíðarandanum. Meðal annars bendir hún á að fyrir um tuttugu árum hafi verið bjórbann hér á landi, en í dag sé bjór t.d. fluttur út. 

Eins og Liv bendir á hér að framan er netumferð að aukast til muna í snjalltækjum. Stór hindrun í þeim efnum er þó gjaldheimta fyrir slíka notkun erlendis. Hún telur þó miklar breytingar framundan í þeim efnum á næsta ári. „Ég trúi ekki öðru en að þetta breytist á næsta ári,“ segir hún og gerir ráð fyrir að samningar við erlend símafélög, sérstaklega í Bandaríkjunum, muni lækka þetta gjald umtalsvert. „Fyrirtæki verða í dag af tekjum vegna minni notkunar erlendis,“ segir Liv og bendir á að Evrópa sé nú þegar byrjað að lækka verð milli landa, en Bandaríkin muni væntanlega fylgja fljótlega í kjölfarið.

Starfsmenn Nova fögnuðu 6 ára afmæli fyrirtækisins á þessu ári.
Starfsmenn Nova fögnuðu 6 ára afmæli fyrirtækisins á þessu ári.
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK