Mætti selja Keflavíkurflugvöll

Keflavíkurflugvöllur
Keflavíkurflugvöllur mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Eftir fimm ára verk slitastjórnanna þá er niðurstaðan sú að ekkert raunverulegt hefur komið út úr þeirri vinnu. Þetta segir Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir og eigandi eignarhaldsfélagsins Úrsusar. Hann segir að gömlu bankarnir þurfi að fara í þrot sem fyrst svo hægt sé að vinna að afnámi fjármagnshaftanna, sem hann telur að muni hefjast á næsta ári.

Í áramótaviðtali við mbl.is leggur Heiðar mikla áherslu á aukna samvinna milli Íslands og Grænlands, en í því samhengi telur hann fríverslunarsamning mikilvægastan. Þá er hann þeirrar skoðunar að horfa þurfi til sölu á ríkiseignum til að mæta gífurlegum skuldum ríkissjóðs og nefnir í því samhengi flugstöðina á Keflavíkurflugvelli.

Vill fríverslunarsamning við Grænland

„Árið hefur verið skárra en undanfarin ár, bæði alþjóðlega og á Íslandi,“ segir Heiðar þegar hann er spurður um það hvernig hann telji árið 2013 hafa verið. Hann hefur lengi verið gagnrýninn á margt í íslensku viðskiptalífi og liggur ekki á skoðunum sínum um að koma þurfi atvinnulífinu betur í gang og afnema höftin. Hann segir fjölmörg tækifæri vera til staðar og að Ísland hafi margar leiðir til að bæta hag sinn á næstu árum.

Heiðar hefur síðustu ár mikið talað fyrir auknum samskiptum við Grænland og tækifærum þar. Hann segir að Íslendingar þurfi að horfa til þess að taka að sér forystu á norðurslóðum. Nú þegar sé komið ákveðið frumkvæði eftir að ný ríkisstjórn setti sér ákveðna stefnu í þeim málum, en margt megi enn bæta. Upp á síðkastið hafa mörg íslensk fyrirtæki séð þessi tækifæri og nefnir hann að Eimskip sé komið í samstarf um flutninga og Brim og Samherji hafi fjárfest á Grænlandi. Þá vilji grænlenska stjórnin vinna með Íslendingum og það beri að nýta. Hann segir nauðsynlegt að atvinnulífið fjárfesti frekar þarna, því í dag séu allt of miklir fjármunir bundnir inn í vondu haftakerfi hér á landi. Önnur stór hindrunin að hans mati er að ekki sé búið að koma á samningi milli ríkjanna. „Meðan fríverslunarsamningur er ekki í gildi verður samkeppni við Dani erfið á Grænlandi,“ segir Heiðar.

Sér höftin taka að leysast á næsta ári

Þegar talið berst að höftunum er Heiðar ákveðinn og segir að setja eigi bankana sem fyrst í þrot. Núverandi ríkisstjórn er að hans mati á réttri leið þar, enda þurfi hún að hafa sem minnst afskipti og afnema þær undanþágur sem föllnu bankarnir hafa. Það hafi meðal annars verið gert með því að fella niður undanþágu frá bankaskatti. Hann segir að koma þurfi í veg fyrir að slitastjórnirnar geti endalaust makað krókinn og skerpa þurfi á löggjöfinni kringum svona bú. „Eftir fimm ára verk slitastjórnarinnar, þá er niðurstaðan sú að ekkert raunverulegt hefur komið út úr þeirri vinnu,“ segir Heiðar og bætir við að hann sé þó að verða bjartsýnni á að eitthvað fari að þokast með bæði gömlu bankana og fjármagnshöftin á næsta ári. Þannig verði hægt að byrja á afnámi haftanna þegar bankarnir séu orðnir að litlu vandamáli og spáir hann því að það gerist fyrr en seinna. „Ég ætla að gerast djarfur og spá því að höftin fari að hverfa á árinu, þó í skrefum,“ segir hann.

Ríkið mætti selja flugvöllinn, hafnir og vegi

Á síðustu árum hefur ríkissjóður verið á rangri braut að sögn Heiðars og er nauðsynlegt að snúa því við. Hann segir að í grunninn þurfi að endurskipuleggja ríkissjóð til að snúa af langvarandi skuldasöfnun. „Meðan ríkissjóður skuldar svona mikið förum við á hausinn.“ Nefnir hann að síðasta ríkisstjórn hafi aukið skuldasöfnun um 1.200 milljarða, þegar tekið sé mið af lífeyrissjóðsskuldbindingum við ríkisstarfsmenn sem ekki hafi verið greitt til. Leggur hann til að farið verði í sölu á ríkiseignum og nefnir í því samhengi flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Segir hann að í flestum nágrannaríkjum okkar þekkist það ekki að ríkið eigi flugvelli og telur hann einkaaðila betur til þess fallna að byggja völlinn upp. Þá segir hann að losa megi um ýmsa innviði sem gefi lítið af sér. Segir hann að til dæmis væri hægt að selja lífeyrissjóðum og fjárfestum hafnir og vegi til að losa um fé til að greiða niður skuldir.

Ferðamannaskattur galin hugmynd

Heiðar segir að þrátt fyrir að ástandið hér sé enn ekki eins og best væri á kosið, þá séu hér gríðarleg tækifæri til að nýta auðlindir, koma að uppbyggingu á norðurslóðum og að bæta landið sem ferðamannastað. Hann segir þó algjört glapræði að fara í að innheimta eitthvert komugjald eða selja ferðamannapassa. „Slík miðstýring er galin og myndi aðeins auka áhrif pólitíkusa sem stýra úthlutuninni,“ segir hann. Besta aðferðin er að hans mati að leyfa rekstraraðilum hvers staðar að fá að ákveða hvernig og hversu mikil gjöld séu innheimt. „Besta dæmið um þetta er drullupollurinn við Grindavíkurafleggjarann“ segir Heiðar í gamansömum tón.

Á heildina litið segir hann að þrátt fyrir mörg erfið ár að baki, þá séu hér á landi næg tækifæri sem Íslendingar þurfi að nýta betur. Þó þurfi að haga skattlagningu þannig að hún vinni að hagsæld í landinu og uppbyggingu.

Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir og eigandi eignarhaldsfélagsins Úrsusar. Hann vill ...
Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir og eigandi eignarhaldsfélagsins Úrsusar. Hann vill auka samskipti við Grænland og að tekið verði á skuldasöfnun ríkissjóðs.
Frá Nuuk á Grænlandi. Heiðar segir fjölmörg tækifæri vera fyrir ...
Frá Nuuk á Grænlandi. Heiðar segir fjölmörg tækifæri vera fyrir íslensk fyrirtæki við þjónustu og uppbyggingu í landinu. Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Myntbreyta

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  CHF
  JPY

Erlendar viðskiptafréttir