Forgangsmál að stoppa þekkingarflótta

Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU verkfræðistofu.
Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU verkfræðistofu. Ómar Óskarsson

Þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi fyrir verkfræðifyrirtæki segir Guðmundur Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri EFLU verkfræðistofu, að stöðugur vöxtur hafi verið á fyrirtækinu síðustu ár og er hann nokkuð bjartsýnn á komandi tíma. Hann segir stór verkefni skorta á Íslandi, en þau leiði þróun verkfræðifyrirtækja hér á landi. Staðan hér á landi síðustu ár hefur að sögn Guðmundar leitt til þekkingarflótta sem verði að snúa við og þó hann telji stjórnvöld í dag mun jákvæðari gagnvart atvinnulífinu segir hann ýmsar ákvarðanir hafa valdið vonbrigðum og meira þurfi að gera til að skapa betri hvata fyrir þekkingarfyrirtæki. Mbl.is fór yfir árið og framtíðarhorfur með Guðmundi í tilefni áramótanna.

Starfsemi víða um heim

„Við höfum náð að halda áfram að vaxa þrátt fyrir erfitt umhverfi heima fyrir,“ segir Guðmundur, en það skapast meðal annars af verkefnum erlendis. Hann segir bæði fjárfestingar- og rekstrarumhverfið erfitt hér á landi og því sé mjög ánægjulegt að hafa náð að halda sjó og vaxa. Meðal þeirra ástæðna sem Guðmundur telur að liggi á bakvið því að félagið hafi geta styrkt stöðu er fjölbreytt sérhæfing og mikið frumkvæði í fyrirtækinu. Segir hann að starfsfólk EFLU sé með á þriðja tug faglegra grunngreina á bakvið sig og það skapi mikla fjölbreyttni í þjónustu og verkefnamöguleikum.

Í dag er EFLA með verkefni á Íslandi, í nágrannalöndunum og reyndar um allan heim. Guðmundur segir að verkefnin byggi á þekkingu sem hafi áunnist með verkefnum heima fyrir. Nefnir hann að ýmis orku- og stóriðjuverkefni hafi skapað gífurlega verðmæta þekkingu hér á landi, enda sé þekkingarþörf þessara greina mikil. Bæði EFLA og önnur verkfræðifyrirtæki hafi hagnýtt sér þetta til uppbyggingar og þróunar, að sögn Guðmundar.

Vindorka og ísgöng á Langjökli

Eins og fyrr segir er mikil fjölbreytni í verkefnum EFLU, hvort sem er um að ræða hér á landi eða erlendis. Guðmundur segir að verkefni í samgöngumálum, iðnaði, orkuvinnslu og orkuflutningum hafi almennt verið umfangsmest, en nú séu ýmis verkefni í pípunum. Þannig sé fyrirtækið núna að vinna við breytingar og uppbyggingu við Bláa Lónið, nýja starfsemi Alvogen í Vatnsmýrinni, verkefni fyrir Íslandsbanka, vindorkumál fyrir Landsvirkjun, Kísliverksmiðju á Bakka og þróunarverkefni svo sem um mögulega uppbyggingu stórskipahafnar í Finnafirði og ísgöng í Langjökli.

Erlendis er EFLA einnig umsvifamikið, en stofnuð hafa verið tvö félög í Noregi, þar með talið dótturfélagið EFLA AS í Osló, auk þess sem EFLA er þátttakandi í félögum í Frakklandi, Póllandi, Rússlandi, Tyrklandi og Dubai. Rekstur þessara félaga gengur almennt vel auk þess sem nefna má að nýlega náðist mikilvægur áfangi í jarðvarmaþróunarverkefni í Tyrklandi sem EFLA hefur þróað með dótturfélagi Rarik. „Starfsemin og verkefnin erlendis eru fjölbreytt bæði faglega og verkefnalega séð, en við reynum ávallt að ná sem mest af vinnu verkefnanna til Íslands“ segir Guðmundur og bætir við að þetta geri fyrirtækinu mögulegt að vaxa þótt umhverfið á Íslandi sé ekki mjög hagstætt í augnablikinu. 

Hægir á þróun með færri stórverkefnum

Það sem aðallega vantar upp á hér á landi eru stóru verkefnin að sögn Guðmundar. Hann segir þau mikilvæga kjölfestu fyrir öll verkfræðifyrirtæki. „Þau skapa möguleika til þróunar og faglegrar forystu, en það hefur skort á slík tækifæri á síðustu árum,“ segir hann. Þetta geri það að verkum að skilyrði til að þróa þekkingu innan fyrirtækjanna séu síðri og það komi niður á framtíðarmöguleikum þeirra til að skapa verðmæti.

Þrátt fyrir erfiða stöðu hér heima segist Guðmundur vera bjartsýnn á framhaldið og segir verkefnastöðuna hjá EFLU vera viðunandi sem stendur. Það er þó ekki eingöngu efnahagsstaðan hér heima sem hefur áhrif á uppbyggingu og framkvæmdir og þar með verkefni fyrir verkfræðifyrirtæki, því almennur samdráttur á erlendum mörkuðum síðustu misserin hefur einnig haft áhrif á fyrirtæki erlendis. Sú þekking og sérhæfing sem EFLA býr yfir tengd innviðum, orku og samgöngum og að hluta iðnaði hefur þó að sögn Guðmundar ekki verið háð sveiflum í sama mæli og markaðurinn í heild.

Urðu fyrir vonbrigðum með tryggingagjaldið

Til að snúa stöðunni við hér heima segir Guðmundur að margt þurfi að gerast. Það mikilvægasta sé þó að þekkingarfyrirtækjum sé skapaður sá grundvöllur að geta starfað eðlilega við góðar aðstæður. „Það er ljóst að það hefur orðið viðhorfsbreyting hjá stjórnvöldum og það er betra andrúmsloft gagnvart atvinnulífinu en hefur verið,“ segir Guðmundur og bætir við að mikilvægt sé að endurheimta trú á atvinnulífið og traust á rekstrarumhverfinu og gera það aðlaðandi til fjárfestinga.

Guðmundur segir að þrátt fyrir þessa breytingu, þá hafi núverandi ríkisstjórn ekki enn staðið undir væntingum. „Því er þó ekki að neita að okkur finnst breytingarnar gerast of hægt og það er ýmislegt sem við höfuð orðið fyrir vonbrigðum með á þessu ári, líka af hálfu stjórnvalda,“ segir hann. Nefnir hann tryggingargjaldið sem dæmi og segir það vera launaskatt sem komi verst niður á mannauðsríkum fyrirtækjum, oft þekkingarfyrirtækjum.„Nú þegar spýta þarf í og gefa aukna hvata í atvinnulífið og þá sérstaklega til uppbyggingar á mannauði þá olli það vonbrigðum hversu lítið tryggingagjaldið lækkar,“ segir hann.

Þekkingarflótti í tæknigreinum

Ástand undanfarinna ára hefur skapað þekkingarflótta, bæði í tæknigreinum og á öðrum sviðum þar sem þekkingin gæti nýst utan Íslands. Guðmundur segir algjört forgangsatriði að snúa þessari þróun við enda geti hún skaðað þjóðfélagið mikið til frambúðar.  „Myndast getur þekkingargat og heilu kynslóðirnar alist upp án mikilvægra tækifæra,“ segir Guðmundur. Hann telur að fyrirtæki þurfi að leggjast á eitt með að hjálpa ungu fólki að sjá tækifæri hér á landi svo þau flytji ekki á brott. Segir hann að EFLA hafi til dæmis tekið inn hátt í 30 sumarstarfsmenn úr tæknigeiranum á þessu ári. Segir hann erfitt að gera það í þessu árferði, en það hafi verið ákveðið með framtíðarhagsmuni í huga. „Við gerðum þetta þrátt fyrir að rekstrarlegt tilefni væri ef til vill ekki fyrir hendi, einfaldlega af því að við getum ekki hugsað okkur að þessir ungu og efnilegu krakkar fái ekki tækifæri til að þroskast og þróast í faginu hér heima.“

EFLA hefur unnið að verkefnum í öllum heimsálfum, að undanskildu …
EFLA hefur unnið að verkefnum í öllum heimsálfum, að undanskildu Suðurskautslandinu og er með dóttur- eða hlutdeildarfélög á sjö stöðum utan Íslands.
EFLA hefur á síðustu árum verið með fjölmörg verkefni í …
EFLA hefur á síðustu árum verið með fjölmörg verkefni í Noregi, en á meðfylgjandi mynd má sjá að þau dreifast um allt landið.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK