Ólíklegt að þetta ár verði toppað

Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri Klaks Innovit, fer yfir árið í …
Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri Klaks Innovit, fer yfir árið í nýsköpun með mbl.is Kristinn Ingvarsson

Árið sem nú er að líða var ótrúlegt og ólíklegt að það næsta verði jafn gott í nýsköpunargeiranum. Þetta segir Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri Klaks Innovit, en hann mun hætta hjá félaginu snemma á næsta ári eftir fimm ára starf. Fáir hafa verið í jafn góðri aðstöðu og hann til að fylgjast með uppgangi sprotafyrirtækja hér á landi undanfarin ár og ákvað mbl.is því að ræða við hann um uppgjör á þessu ári, framtíðina og nýsköpunarumhverfið hér á landi.

Margar stórar og góðar fréttir

Kristján segir að árið hafi einkennst af mörgum stórum og góðum fréttum af íslenskum frumkvöðlafyrirtækjum sem hafi náð langt. Nefnir hann að Clara hafi verið selt fyrir um einn milljarð, Meniga hafi fengið 700-800 milljóna fjármögnun frá Kjölfestu þrátt fyrir erfitt fjárfestingaumhverfi á Íslandi. Hugbúnaðarfyrirtækið Betware var einnig selt á árinu og þó að saga þess nái reyndar yfir áratug, þá sé vel hægt að flokka það með nýsköpunarfyrirtækjum. Stærsta fréttin er svo auðvitað ævintýralegur uppgangur tölvuleikjafyrirtækisins Plain Vanilla, en Kristján segir það hafa náð einum mesta vexti á appi frá upphafi. Þetta allt saman leiði til þess að árið í ár sé það besta síðustu fimm ár í frumkvöðlaheiminum hér á Íslandi.

„Þetta er búið að vera svo ótrúlega gott ár að það er ólíklegt að það næsta verði jafn gott. Þetta gerist allavega ekki öll ár,“ segir Kristján. Hann segir starfið í ár hafa verið afar árangursríkt enda hafi verið nóg að gera allt árið. Meðal annars hafi Klak Innovit staðið fyrir fjölda fyrirlestra, frumkvöðlahraðla og tengsla við atvinnu- og fjárfestingalífið.

Tengdu fólk saman

Hann segir að eitt af því sem frumkvöðlasamfélagið hafi náð að afreka á síðustu árum hafi verið að fá einstaklinga alls staðar að, frá öllum sviðum virðiskeðjunnar til liðs við uppbyggingu verkefna. Þannig hafi hugmyndasmiðir, markaðsmenn og forstjórar allir mætt á viðburði Klaks-Innovit og að þetta sé ekki lengur lítið lokað samfélag, heldur vettvangur sem tekið sé mark á. Félagið stóð fyrir 13 stórum verkefnum á árinu og fjölmörgum undirverkefnum og segir Kristján að beinir þátttakendur þeirra hafi verið um 1300.

Af þeim atburðum sem félagið kom að á árinu segir Kristján erfitt að velja einhvern einn atburð sem stóð upp úr, en Startup Reykjavík komi þó sterkt þar inn. Sérstaklega hafi verið gaman að sjá þann mikla stuðning sem hafi komið frá um 100 manna stuðningsteymi (mentor) frá atvinnulífinu sem hafi nýtt sinn frítíma til að miðla þekkingu sinni áfram kauplaust. „Þátttaka þessara leiðbeinenda er lykillinn að árangri nýrra fyrirtækja, þar sem þau fá stuðning frá reynsluboltum við þróun nýrra viðskiptahugmynda “ segir Kristján.

Vantar enn töluvert fjármagn í nýsköpun

Fjármagn til nýsköpunar er málefni sem mikið hefur verið rætt um. Kristján segir að mikið vanti upp á þannig að full fjárfest sé í frumkvöðlaverkefnum. Bendir hann á að hér á landi fari um 1 milljarður í nýsköpun á ári hverju, en miðað skýrslu McKinsey sé áætlað að allavega tvo milljarðar þurfi í viðbótarfjárfestingu hér á landi í viðbót til þess að geta byggt upp nýsköpun og aukið þannig hagvöxt.

Kristján segir að nægjanlegt fjármagn sé til staðar sem þurfi að nýta til fjárfestingar hér á landi. Það sé aftur á móti ekki meðfæranlegt og erfitt sé að nýta lítinn hluta þess til nýsköpunar. Á hann þar meðal annars við fjármuni lífeyrissjóðanna, en strangar reglur gilda um að fjárfestingu þeirra. „Það hefur aldrei verið jafn mikið af verkefnum, en sjaldan jafn lítið fjármagn,“ segir hann.

Betra væri að veita hærri styrki en að horfa til fjölda þeirra

Hér á landi er nýsköpun styrkt á ýmsan veg, t.d. gegnum Tækniþróunarsjóð. Aðeins hluti þeirra fyrirtækja sem sækja um í sjóðinn fá úthlutað á hverju ári. Þetta er gert til að sía út bestu og frambærilegustu verkefnin og segir Kristján fyrirkomulagið vera nauðsynlegt. Hann segir aftur á móti að sé miðað við fjölda góðra verkefna síðustu árin væri hægt að fjölga þeim styrkþegum töluvert áður en það kæmi niður á gæðum verkefnanna.

Vandamálið er þó tvíþætt að mati Kristjáns. Þrátt fyrir að góð verkefni séu svona mörg telur hann réttara að hækka styrkina á hvert fyrirtæki og fækka þeim þá ef ekki fæst aukið fjármagn. Þetta stafi af því að undirfjármögnun sé viðvarandi vandamál margra sprotafyrirtækja og í slíkum tilfellum geri hálf fjármögnun lítið gagn.

Vinnur að nýjum verkefnum

Kristján vann sjálfur hjá einum af viðskiptabönkunum á fyrirtækjasviði fyrir hrunið, en árið 2009 hóf hann störf hjá Innovit. Hann segir að á þeim tíma hafi áherslan ekki verið mikil á nýsköpun og mikið af furðulegum spurningum hafi ratað á borð til þeirra. „Við fengum oft spurningar um hvort það mætti stofna fyrirtæki eða hvort það þyrfti ákveðna gráðu fyrir það.“ Hann segir að félagið hafi markvisst reynt að virkja nýútskrifað fólk til að stofna eigið fyrirtæki og við það hafi þau fengið stuðning frá háskólunum, Samtökum atvinnulífsins og Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins. Að fimm árum liðnum segir hann að mikið hafi áunnist á þessu sviði og í dag séu frumkvöðlar mun meðvitaðri um hvernig eigi að bera sig að til að koma hugmyndum sínum af hugmyndastigi.

Aðspurður út í þá ákvörðun sína að stíga til hliðar núna eftir fimm ár hjá Innovit segir Kristján að hann hafi upphaflega sett sér ákveðin markmið með félagið. Þau hafi nú að mestu leiti gengið eftir og því vilji hann takast á við nýjar áskoranir. Kristján mun áfram vera félaginu innan handar fram á nýtt ár þegar nýr framkvæmdastjóri finnst, en einhver verkefni eru þó í farvatninu hjá honum. „Það eru spennandi vinna framundan sem ég hlakka til að takast á við á nýju ári“. Á þessum tímapunkti er hann aftur á móti ekki tilbúinn í að upplýsa nánar um hvaða verkefni sé að ræða.

Ólíklegt að næsta ár verði jafn gott

Staða tæknimenntaðs fólks hefur verið nokkuð í umræðunni síðustu misseri og segir Kristján rétt að það vanti tæknimenntað fólk hér á landi. Hann segir ólíklegt að hægt verði að mennta alla hér á landi sem Ísland mun þurfa á komandi árum í þessari grein og því þurfi að huga að því að gera fyrirtækjum auðveldara fyrir að fá fólk erlendis frá til starfa. Segir hann að í Noregi sé fólki boðið að greiða tímabundið minni skatta til að geta aðlagast samfélaginu á auðveldari hátt og slíkt sé til fyrirmyndar. Þannig sé fólki með góða menntun veittur hvati til að flytjast hingað.  

Þegar hann er spurður út í komandi ár segir Kristján að hann geri ekki ráð fyrir jafn góðu ári og í ár, þó hann voni auðvitað eftir slíku. Það sé hreinlega vegna þess að svo mörg góð verkefni hafi komist á koppinn á þessu ári og venjulega komi árangurinn í bylgjum. Þá segist hann vonast til þess að fjárfestingasjóðir fari að horfa til nýsköpunar sem framtíðarfjárfestingar og komi með meira fjármagn á þetta svið. Til viðbótar við það segir Kristján að hlúa þurfi að hvötum í hagkerfinu fyrir nýfjárfestingu. Mikilvægasta atriðið hér á landi er þó að mati Kristjáns að koma á hugarfarsbreytingu. „Þegar einhver stofnar fyrirtæki sem gengur vel, þá er það mjög jákvætt. Hann getur þá ráðið fólk í vinnu og skapar því störf. Í leiðinni hagnast hann sjálfur, en það er gott og skref fram á við,“ segir Kristján. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK