Hvalabjór settur á markað fyrir þorrann

Dagbjartur segir að hugmyndin hafi komið í haust og Hvalur …
Dagbjartur segir að hugmyndin hafi komið í haust og Hvalur hf. hafi strax tekið vel í hugmyndina. Umbúðir bjórsins vísa sterkt til innhaldsins.

Brugghúsið Steðji mun seinna í mánuðinum setja á markað nýjan hvalabjór, en um er að ræða þorrabjór brugghússins í ár. Enginn viðbættur sykur er notaður við framleiðsluna heldur hvalamjöl. Þá er ekki heldur að finna nein rotvarnarefni í bjórnum. Þetta er áttunda tegundin sem brugghúsið sendir frá sér, en áður hefur meðal annars komið jólabjór, kóróna, páskabjór og jarðaberjabjór.

Dagbjartur Arilíusson er eigandi brugghússins ásamt eiginkonu sinni, Svanhildi Valdimarsdóttur. Þau keyptu tæki til framleiðslunnar um sumarið 2012 af brugghúsinu Miði í Stykkishólmi. Dagbjartur segir að þau hafi fyrst gefið út lagerbjórinn Steðja í nóvember sama ár, en um jólin hafi svo Jóla-Steðji verið kynntur. Í framhaldinu hafi þau ákveðið að setja upp heila línu og bættu fimm öðrum bjórum við framleiðsluna.

Áður en þau hófu bjórbruggunina segir Dagbjartur að hann hafi ekki getað drukkið bjór, en að þegar hann hafi farið að kynna sér málin betur hafi hann komist að því að viðbættur sykur, sem er í flestum tegundum bjórs, hafi ekki farið vel í maga. Þegar honum er aftur á móti sleppt sé hann byrjaður að geta notið bjórsins á ný.

Hvalbjórinn er sem fyrr segir þorrabjór og er gerður í samstarfi við Hval hf. Hugmyndin kom núna í haust, en Dagbjartur segir að þau hafi þá sett sig í samband við fyrirtækið sem hafi tekið vel í hugmyndina. Upp úr því hafi bruggmeistaranum verið falið að blanda þessu hráefni við malt og humla þannig að úr yrði góður bjór og segir hann útkomuna lofa góðu. Hvalbragðið kemur að hans sögn fram í undirtóni bjórsins sem og í eftirbragðinu, en áfengismagnið er 5,2%.

Dagbjartur segir að samkeppnin á bjórmarkaði sé mikil hér á landi og þar sem bannað sé að auglýsa þurfi minni brugghúsin að fara óhefðbundnar leiðir og spila djarft til að ná athygli með nýjum vörum.

Dagbjartur Arilíusson og Svanhildur Valdimarsdóttir, eigendur Steðja brugghúss.
Dagbjartur Arilíusson og Svanhildur Valdimarsdóttir, eigendur Steðja brugghúss.
Nýi þorrabjór Steðja er búinn til úr hvalmjöli.
Nýi þorrabjór Steðja er búinn til úr hvalmjöli.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK