Smeyginsgull leiðir til óðaverðbólgu

Ríkidæmi Smeygins er mikið, en ef það kæmist í umferð …
Ríkidæmi Smeygins er mikið, en ef það kæmist í umferð gæti það leitt til óðaverðbólgu að mati greiningardeildar Arion banka.

Ef dvergunum í sögunni Hobbitinn eftir J.R.R.Tolkiens tekst að komast yfir gullið sem drekinn Smeyginn liggur á í Fjallinu eina er líklegt að til óðaverðbólgu kæmi með slaka á aðhaldsstigi peningastefnunnar og miklum umsvifum í hagkerfinu. Í besta falli myndi afrek þeirra aðeins leiða til hríðlækkandi gullverðs og lækkunar á verði eðalsteina. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningu Arion banka í dag, en þar er hagkerfi Miðgarðs skoðað og áhrif gullsins í Fjallinu eina.

Bent er á að samkvæmt útreikningum tímaritsins Forbes sé Smeyginn næst ríkasta skáldsagnarpersóna veraldar og eru auðæfi hans metin á 6.300 milljarða, eða sem nemur um fjórfaldri landsframleiðslu Íslands. Aðeins Jóakim Aðalönd nær hærra í auðsöfnun.

Frægðarför gæti ýtt undir óðaverðbólgu

Segir greiningardeildin að ef gert sé ráð fyrir því að gull sé greiðslumiðill í Miðgarði megi gera ráð fyrir að framboð gulls aukist til muna með því að drepa drekann og dreifa gullinu. Þannig væri slakað aftur á aðhaldsstigi peningastefnunnar, með þeim áhrifum að umsvif í hagkerfinu ykjust í fyrstu en óðaverðbólga tæki síðan við. Áhrifin verða sérstaklega mikil í ljósi þess að íbúafjöldi Miðgarðs er venjulega ekki talinn vera meiri en nokkrir tugir milljóna í allra mesta lagi. Segir greiningardeildin að líta megi á Smeyginn sem eins konar íhaldssaman seðlabankastjóra sem hert hafi verulega á peningalegu aðhaldi og nefnir í því sambandi líkingu við Paul Volcker, sem var seðlabankastjóri í Bandaríkjunum á áttunda áratugnum.

Við þessar aðstæður telur greiningardeildin líklegt að gullið myndi auka kaupmátt þeirra sem fyrst fá gullið í hendurnar á kostnað þeirra sem fá það síðar. Þannig gætu dvergarnir, vatnafólkið og fleiri hugsanlega vel við unað á meðan íbúar fjær fjallinu eina, meðal annars hobbitar og íbúar Gondor, myndu horfa upp á peningalegar eignir sínar fuðra upp á verðbólgubáli Smeyginsgullsins. Ráðleggur greiningardeildin þeim að fjárfesta í hobbitaholum og öðrum fasteignum, verðtryggðum álfabréfum eða öðrum eignaflokkum sem halda verðgildi sínu vel.

Í besta falli myndi aðeins gullverð lækka

Nokkrir fyrirvarar eru þó við þessa spá og er það aðallega vegna þess að lítið er vitað um greiðslumiðlun í Miðgarði. T.d. virðist silfur vera aðalgjaldmiðillinn og lítið er rætt um gull í öðru samhengi en sem hrávara í skrautgripagerð. Þannig ætti mikil framboðsaukning gulls vegna frægðarfarar dverganna að hafa þau áhrif að verð gulls mælt í silfri hríðlækkaði, án þess að almennt verðlag raskaðist sérstakleg. Þá mætti búast við svipuðum áhrifum á verð eðalsteina.

Í seinna dæminu ráðleggur greiningardeildin að fjárfestar í Miðgarði minnki vægi gulls og eðalsteina í eignasöfnum sínum og að selja eignarhluti í gull- og demantanámum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK