Bílalánin í reynd ekki ókeypis

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir á vefsíðu sinni að þau lán sem bílaumboð hafi undanfarið boðið sem vaxtalaus, séu í reynd ekki ókeypis.

„Nokkur bifreiðaumboð eru farin að auglýsa „vaxtalaus“ bílalán. Þegar betur er gáð þá eru vaxtalausu lánin alls ekki ókeypis. Því „vaxtalaus“ lán frá bifreiðaumboði bjóðast bara þeim sem sætta sig við að fá ekki afslætti eða aukahluti í kaupbæti sem bjóðast þeim sem staðgreiða eða greiða með venjulegu bílaláni,“ segir Frosti á vefsíðu sinni.

„Það geta vart talist góðir viðskiptahættir að auglýsa að lán sé vaxtalaust ef neytandinn greiðir ígildi vaxta með öðrum hætti.

Í lögum 33 frá 2013 um neytendalán er sú skylda lögð á lánveitendur að birta lántakendum árlega hlutfallstölu kostnaðar. Þar er átt við vexti, lántökukostnað, lántökugjöld, seðilgjöld ofl.

Ákvæðinu er ætlað að auðvelda neytendum að gera samanburð á heildarkostnaði ólíkra lána og þannig stuðla að virkari samkeppni,“ heldur Frosti áfram.

Hefur áhrif til hækkunar verðlags

Frosti segir að ef lántökukostnaður er felldur inn í kaupverð bíla geti það haft í för með sér hækkun á verðlagi.

„Það er ekki góð þróun ef uppgefið söluverð bíla og annarra neysluvara fer að innifela kostnað af vaxtalausu láni til einhverra ára. Það mun aðeins þýða að verðlag mun verða hærra en annars væri. Það mun svo hafa áhrif til hækkunar á neysluvísitölu og hærri neysluvísitala hækkar skuldir heimilanna. Hvert eitt prósent sem neysluvísitalan hækkar kostar heimilin 14 milljarða í hækkun verðtryggðra íbúðalána,“ skrifar Frosti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK