Fjárfestar fá 7% en ríkið um helming

Skatttekjur ríkissjóðs gætu numið tugum milljarða ef af olíuvinnslu verður …
Skatttekjur ríkissjóðs gætu numið tugum milljarða ef af olíuvinnslu verður hér við land. Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir, segir að ríkið fái um 50% af öllum tekjum vegna framleiðslunnar. Øyvind Hagen

Ríkið mun fá um 50-60% af öllum tekjum af olíuvinnslu en þeir sem leggja áhættufjármagn í verkefnið geta búist við um 7%. Þetta segir Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir og einn eigenda Eykon energy, en félagið er aðili að tveimur sérleyfum til rannsókna og vinnslu kolefnis á Drekasvæðinu. Á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga í dag fór Heiðar yfir möguleika fyrir Íslendinga í þessum efnum og sagði að þótt fjárfestingar á næstu árum gætu numið tugum milljarða vegna olíuleitar og vinnslu, þá væri það iðnaður sem myndi rúmast vel innan hagkerfisins.

Tökum þátt eigum við þess kost

Heiðar byrjaði erindi sitt á því að benda á að um 15% af landsvæði jarðarinnar væri á svokölluðu norðurheimskautssvæði. Aftur á móti byggju hér aðeins um fjórar milljónir, en búast mætti við að 20% af kolefnum í jörðu væri að finna á svæðinu. Hann sagði miklar líkur á að kolefni myndi finnast bæði á íslensku landgrunni og á nærliggjandi svæðum, svo sem við austurströnd Grænlands. Þetta væri tækifæri sem þyrfti að nýta og þannig ættu Íslendingar sjálfir að reyna að koma að verkefnum tengdum olíuiðnaðinum, allskonar þjónustustörfum og hagnast á því. „Það verður unnin olía og gas innan okkar lögsögu og nálægt henni. Ef við eigum þess kost að taka þátt skulum við gera það,“ sagði Heiðar.

Hann benti á reynslu Færeyinga, en þar hefur í 13 ár verið leitað að olíu. Árangurinn er enn lítill sem enginn, en þar er þjónusta við olíuiðnaðinn orðin jafn stór hlutfallslega og sjávarútvegurinn á Íslandi.

Gæti numið 15-25% af fjárfestingum Íslendinga

Þetta mun byggja upp mikil tækifæri fyrir íslenskt vinnuafl að mati Heiðars og benti hann á að nú, þegar verið væri að leggja einhverjum hluta flotans, sköpuðust tækifæri fyrir útgerðir og áhafnir að sækja á þessi mið.

Heiðar sagði að í dag væri fjárfesting á Íslandi um 250 milljarðar. Þetta væri svipað hlutfall og á sjötta áratuginum. Taldi hann mun nær að fjárfesting hér væri um og yfir 400 milljarða og ef miðað væri við að fjárfesting af olíuiðnaðinum væri 60-100 milljarðar á ári, þá næmi það um 15-25% af  heildarfjárfestingum. „Þetta er því hrein viðbót sem er pláss fyrir í hagkerfinu,“ sagði Heiðar.

Olíuiðnaðurinn borgar hæst verð

Miklir hagsmunir eru í húfi að sögn Heiðars, en hann sagði þetta í fyrsta lagi auka fjölbreytni hagkerfisins og minnka áhættu. Þá væri olíuiðnaðurinn sá iðnaður í heiminum sem borgaði hæst verð fyrir alla þjónustu og það myndi draga að vel menntað fólk. „Þetta er ekki láglaunagrein heldur þýðir þetta fleiri hálaunastörf á Íslandi.“

Að lokum sagði hann að hagmunirnir væru ekki síst fjárhagslegir fyrir ríkissjóð. „Hvert fara peningarnir ef hér finnst olía? Þó að við hjá Eykon höfum [þá] kostað til mörgum milljónum dala, þá fáum við innan við 7% ef olía finnst, en almenningur fær 50-60% gegnum skatta,“ segir Heiðar. 

Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir, segir að ríkið geti fengið um …
Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir, segir að ríkið geti fengið um helming allra tekna af olíuframleiðslu ef hér finnst olía. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK