Ný kenning um íslensk stjórnmál

Eiríkur Bergmann.
Eiríkur Bergmann.

Bók dr. Eiríks Bergmanns, prófessors í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, Iceland and the international financial crisis: Boom, Bust and Recovery, kemur út í dag hjá alþjóðlega útgáfufélaginu Palgrave Macmillan. Bókin kemur út samtímis í Evrópu og í Bandaríkjunum og er dreift þaðan á heimsvísu. 

Á vefsvæði bókarinnar hjá útgefanda má lesa ritdóma um bókina.

 Hér má lesa inngangskafli bókarinnar. 

Í bókinni er birt heildstæð efnahagsleg, sagnfræðileg og stjórnmálaleg rannsókn á efnahagshruninu haustið 2008 og viðbrögðum við því í víðu samhengi. Rakið er hvernig Ísland reis í alþjóðlegum viðskiptaheimi og hvernig hrunið hafði áhrif langt út fyrir landsteinana. Kafað er ofan í grundvöll íslenskra stjórnmála og efnahagslífs en í bakgrunni eru stórar spurningar um hagkerfi þjóðríkja í alþjóðavæddum heimi.

Í bókinni er sett er fram ný kenning um íslensk stjórnmál: að þau grundvallist enn á pólitískri sjálfsmynd þjóðarinnar sem mótaðist í sjálfstæðisbaráttunni og felur í sér tvíþætta áherslu: annars vegar á formlegt fullveldi landsins en einnig þá ósk að Ísland verði nútímavætt ríki til jafns við önnur vestræn velmegunarríki. Þessi pólitíska sjálfsmynd þjóðarinnar hefur verið ráðandi í bæði utanríkis- og efnahagsstefnu landsins og skipt sköpum fyrir efnahagslega þróun í landinu. Í bókinni er sýnt fram á áhrif hennar jafnt í aðdraganda hrunsins, viðbrögðum og eftirmála. Á þessum grunni er farið yfir hagsögu Íslands frá öndverðu og greint hvað veldur meiri hagsveiflum á Íslandi en í öðrum vestrænum ríkjum auk þess sem dreginn er lærdómur fyrir önnur ríki og almennt fyrir efnahagskerfi heimsins.

Í fréttatilkynningu um bókina segir að áfallið á Íslandi haustið 2008 sé talið einstaklega áhugavert á heimsvísu því það var viðameira og skyndilegra en víðast annars staðar. „Þekking á atburðunum hér er hins vegar af skornum skammti eins og sést í nokkrum lífseigum en efnislega röngum goðsögnum sem hafa lifað um Íslandshrunið í alþjóðapressunni. Í bókinni eru þessar goðsagnir greindar í sundur og leiðréttar eftir föngum.“

Eitt það áhugaverðasta við Íslandshrunið er að hér urðu viðbrögðin við krísunni öndverð við viðleitni alþjóðasamfélagsins þar sem áhersla var lögð á að bjarga bankakerfinu, segir í tilkynningunni.

„Bankahrunið á Íslandi og viðbrögð íslenskra stjórnvalda ógnaði þeirri viðleitni sem skýrir að hluta óhemju harkaleg viðbrögð erlendra ríkja gegn Íslandi, til að mynda beitingu hryðjuverkalaganna í Bretlandi. Í seinni tíð hafa fleiri ríki hins vegar kosið að fara ‘íslensku leiðina’ eins og að hluta til var gert á Kýpur. Íslandskrísan opinberaði einnig alvarlegan kerfisgalla í fjármálakerfi Evrópu sem tekinn er til skoðunar í bókinni.

Djúpstæðar efnahagskrísur opna gjarnan upp rými til að endurskoða hagkerfið og þjóðskipulagið í heild. Þá takast iðulega á öfl sem krefjast breytinga og þau sem vilja viðhalda hinu ríkjandi kerfi. Á Íslandi urðu þessir þræðir einstaklega skýrir. Hér greip enn fremur um sig það sem kalla má nýja gagnrýna skipan (e. New critical order) þar sem öll tilboð um endurreisn lentu í hakkavél innanlandsátaka. Efnahagsleg endurreisn hefur hins vegar náð rótum þótt viðkvæm sé. Enn er þó óleystur alvarlegur kerfisbundinn galli í uppbyggingu íslensks efnahagslífs sem ýtarlega er greindur í bókinni,“ segir í fréttatilkynningu um bók Eiríks.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK