Gefa öllum Íslendingum nýja rafmynt

Hugmyndin á bakvið auroracoin er að allir Íslendingar fái gefins …
Hugmyndin á bakvið auroracoin er að allir Íslendingar fái gefins 31,8 einingar í gjaldmiðlinum, en í heild nemur það 50% af heildarmagni myntarinnar.

Eftir rúmlega einn og hálfan mánuð munu allir Íslendingar fá gefins hluta af heildarfjármagni nýju rafmyntarinnar auroracoin, en þetta er nýstárleg aðferðafræði í uppbyggingu samfélags um rafmynt. Sá sem stendur á bakvið myntina segir hana vera tækifæri til að losna undan verðbólgu, gjaldeyrishöftum og gengisfellingu sem hafi verið viðloðandi íslensku krónuna. Nú þegar hafa flestir miðlar sem fjalla um rafmyntir sagt frá þessu verkefni og í gær sagði Wall Street Journal frá því á vef sínum. Þá eru nú þegar yfir hundrað aðilar sem stunda myntvinnslu til að ná þeim hluta myntarinnar sem enn hefur ekki verið gefinn út.

Hvað er rafmynt?

Til að skýra þetta fyrirbæri betur er nauðsynlegt að segja frá grunni rafmynta, sem stundum eru kallaðar dulmálsgjaldmiðlar. Árið 2008 setti aðili að nafni Satoshi Nakamoto fram ritgerð um nýja rafmynt sem síðar leiddi af sér bitcoin. Reyndar er ekki vitað hver Nakamoto er eða hvort hann sé til yfir höfuð, en kóðinn á bakvið bitcoin-gjaldmiðilinn er opinn og því benda margir á að nafnleysið hafi komið í veg fyrir að persónu höfundarins sé blandað í umræðuna um myntina. Ritgerðin er talin meistarasmíði í þessum efnum en með henni og þróun bitcoin tókst að hanna það sem dulmáls- og tölvunarfræðingum hafði ekki tekist hingað til. Í þessu ljósi telja menn að allavega fjórir einstaklingar standi á bakvið dulnefnið, en þeir þurfa t.d. að vera með mikla sérfræðiþekkingu í tölvunarfræði og stærðfræði.

Rafmyntir eru ekki eins og venjulegir gjaldmiðlar, því í bitcoin-hagkerfinu er enginn seðlabanki og enginn miðstýrður aðili sem getur aukið magn peninga í umferð. Það þýðir að ekki skapast verðbólga í svona kerfi. Þar sem engin miðstýring á sér stað þurfti að finna upp nýja leið til að halda utan um færsluskrá og greiðslumiðlun. Henni er því haldið uppi á jafningjaneti þar sem hver og einn notandi er með hluta eða alla færsluskrána. Allar peningafærslur eru því opnar fyrir alla að sjá, en á móti kemur að nafnleynd er á því hver hvaða notandi er. Þannig er komið í veg fyrir að hægt sé að rekja færslur til ákveðins einstaklings.

Til að byggja upp verðmæti gjaldmiðilsins þarf að vera eftirspurn og einhver eign eða fjármunir á bakvið miðilinn. Þetta vandamál var leyst með því að gera notendum kleift að leysa erfið dulkóðunarvandamál og fá að launum ákveðið magn myntar. Þetta kallast að stunda námugröft (e. mining), en einnig er hægt að tala um að einstaklingar stundi myntvinnslu.

Byggja upp sjálfbært kerfi

Hægt er að gera breytingar á kerfi rafmynta, en til að koma í veg fyrir að hægt sé að misnota kerfið þarf meirihluti þeirra sem stunda myntvinnslu að samþykkja breytingarnar. Hjá bitcoin er hægt að koma með breytingatillögu sem fer fyrir þróunarteymi og svo þurfa eigendur þeirra tölvuþjóna sem tengjast netinu að samþykkja breytinguna. Það er því mjög ólíklegt að stórvægilegar breytingar verði á kerfinu eða að einhver einn taki það yfir, því að þeir sem hafa fjárfest í tölvubúnaði til að taka þátt í myntvinnslu hafa hagsmuni af því að kerfið sé traust og að ekki séu gerðar breytingar sem geta komið sér illa. Þannig nær kerfið að vera sjálfbært.

Nokkur fjöldi aukamynta sem byggja á svipuðum grunni og bitcoin hafa litið dagsins ljós. Stærst er myntin litecoin, en helsti munur myntanna tveggja er að notaður er annar algórithmi hjá litecoin en hjá bitcoin. Hann gerir myntvinnslu erfiðari fyrir ofurtölvur, en auðveldari fyrir þá sem notast við minni tölvubúnað.

Dulnefni á bakvið íslensku auroracoin-myntina

En aftur að nýju rafmyntinni auroracoin. Ekki er vitað hver stendur á bakvið verkefnið, en Baldur Friggjar Óðinsson er skráður undir fréttatilkynningar. Enginn með því nafni er skráður í þjóðskrá, en þarna er sjálfsagt verið að vitna til norrænu ásatrúarinnar.  Þá er heimasíða myntarinnar skráð í Panama, en erfitt getur verið að rekja hver raunverulegur eigandi er af síðum sem eru skráðar þar. Mbl.is hafði samband við þennan aðila gegnum tölvupóst, en hann vildi ekki gefa upp raunverulegt nafn og því verður notast við Baldur hér á eftir.

Tækifæri fyrir Íslendinga að taka þátt í rafmyntarbyltingunni

Baldur segir að hann hafi fylgst með bitcoin í á annað ár og að sér þyki miður að Íslendingar geti ekki tekið þátt í rafmyntarbyltingunni vegna gjaldeyrishafta. Hann segir að Íslendingar megi stunda myntvinnslu, en þeim sé samkvæmt reglum Seðlabanka Íslands bannað að kaupa bitcoin af erlendum aðilum. „Þannig er ekki raunhæft fyrir okkur að taka þátt í bitcoin með umheiminum eins og sakir standa,“ segir Baldur.

Hugmyndin að auroracoin kom þegar Baldur fór að velta fyrir sér hvað gæti kveikt neistann hjá þjóðinni fyrir rafmynt. Þannig hafi honum komið til hugar að ef allir ættu smá-rafmynt myndi ef til vill myndast verð á gjaldmiðilinn. Hann segir að með því að taka á móti gjöf sé fólk ekki að brjóta nein lög og því hafi verið ákveðið að gera þessa nýju mynt og gefa strax í upphafi 50% af heildarpeningamagninu. Það gera 31,8 auroracoin á hvern Íslending, en heildarmagn myntarinnar verður 21 milljón. Baldur segir að nú sé verið að vinna í því að byggja upp kerfi til að koma gjöfinni nafnlaust til allra Íslendinga og verða frekari upplýsingar gefnar upp þegar nær dregur útgáfudeginum, 25. mars. 

Bitcoin er vinsælasta rafmyntin í dag. Forsvarsmaður auroracoin vonast til …
Bitcoin er vinsælasta rafmyntin í dag. Forsvarsmaður auroracoin vonast til þess að Íslendingar noti myntina þar sem gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir að þeir geti keypt Bitcoin. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK