IFS spáir óbreyttum stýrivöxtum

IFS greining spáir því að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum …
IFS greining spáir því að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum. mbl.is/Ómar Óskarsson

IFS greining spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands (SÍ) haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunardegi, þann 12. febrúar næstkomandi.

IFS segir að við ákvörðun stýrivaxtaspár verði litið til verðbólguþróunar síðustu mánaða ásamt verðbólguhorfum næstu mánaða og annarra atriða sem peningastefnunefndin leggur áherslu á.

Krónan hafi styrkst um 3,0% frá síðasta fundi og sé inngripastefna SÍ að hafa áhrif á stöðugra gengi, en bankinn hefur selt krónur fyrir tæpa 16 milljarða króna á síðastliðnum tveimur mánuðum.

Þrátt fyrir að nýir kjarasamningar hafi verið samþykktir af um helmingi félagsmanna ASÍ þá sé enn óvissa hvað varðar kjarasamninga þeirra aðildarfélaga ASÍ sem samþykktu ekki kjarasamninginn frá því í desember. Nefndin muni því bíða átekta eftir niðurstöðum úr þeim.

„Búast má við því að SÍ verði búinn að leggja mat á hugsanleg áhrif „Leiðréttingarinnar“ á hagvöxt og verðlag í Peningamálum 2014/1. Að mati IFS munu tillögurnar leiða til aukinnar neyslu og aukins verðbólguþrýstings á seinni hluta þessa árs og á næstu árum,“ segir IFS.

Bíða eftir niðurstöðum kjarasamninga

IFS telur jafnframt að peningastefnunefndin vilji bíða eftir að „Leiðréttingin“ hafi farið í gegnum Alþingi áður en hún ákveði hvort hún muni bregðast við þeim þar sem þær geta tekið breytingum í meðferð þingsins. Einnig muni hún bíða eftir niðurstöðum kjarasamninga þeirra aðildarfélaga ASÍ sem samþykktu ekki samninginn frá því í desember. Ríkisstjórnin framlengdi einnig heimildir til úttektar á séreignasparnaði út þetta ár sem auki eftirspurn að einhverju leyti.

IFS bendir á að verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hafi lækkað um rúma 92 punkta á meðaltíma RB19 vegna kjarasamninganna, styrkingu krónunnar, mikillar verðhjöðnunar í janúar og væntingar um lága verðbólgu til skamms tíma. Í síðustu yfirlýsingu og fundargerð peningastefnunefndar hafi tónninn verið harðari meðal annars vegna áhrifa „Leiðréttingarinnar“ og kröftugri bata á vinnumarkaði, og höfðu líkur á stýrivaxtahækkunum aukist.

„Miðað við þá þróun sem verið hefur hvað varðar kjarasamninga, styrkingu krónunnar, verðbólguvæntinga til skamms tíma og væntanlegri sölu SÍ á skuldabréfum eru auknar líkur á því að stýrivextir SÍ verða óbreyttir á næstu níu til tólf mánuðum,“ segir í greiningu IFS.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK