Hér er opið, en Ísland er ekki til sölu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á Viðskiptaþingi 2014.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, á Viðskiptaþingi 2014. Mynd/Árni Sæberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að Ísland sé ekki á leið í Evrópusambandið og að skrítið sé að atvinnurekendur telji það æskilegt eða yfirhöfuð framkvæmanlegt í ljósi þess að utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar sé því mótfallin. Þetta kom fram í erindi hans á Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands í dag. Sigmundur gagnrýndi í ræðu sinni bæði Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins, en hann sagði furðulegt að samtökin væru að styðja við átakið „veljum íslenskt“ og á sama tíma að ráðast í herferð gegn innlendum framleiðendum sem séu að reyna að efla innlenda framleiðslu. Sigmundur svaraði svo yfirskrift fundarins um hvort Ísland væri opið fyrir viðskiptum á þann veg að Ísland væri opið, en ekki til sölu.

Eftir margra ára þrautagöngu í kjölfar hrunsins sagði Sigmundur að nú virtust menn vera að öðlast trú á framtíðinni og fjárfestingar upp á síðkastið væru að taka við sér. Sagði hann að það valdi sér nokkrum áhyggjum að nú á sama tíma virðist uppsöfnuð gremja margra atvinnurekenda síðustu ár vera að brjótast út og að nú væri tíminn til að bæta fyrir tapaðan tíma. Sagði hann að atvinnulífið hefði meðal annars skipað sér á bekk með pólitískum krossförum úr háskólasamfélaginu eða sérfræðingum á internetinu.

„Ég veit að menn töldu rétt að sýna þolinmæði á síðasta kjörtímabili og þorðu jafnvel ekki að gagnrýna stjórnvöld af ótta við að lenda á svörtum lista, en það gagnar ekki að fá útrás fyrir það núna þegar losnar um og komin er ríkisstjórn sem skilur þarfir atvinnulífs og hefur sýnt að hún er tilbúin til að taka slagi og fá yfir sig nokkrar gusur til að rétta stöðu atvinnulífsins,“ sagði Sigmundur og bætti við að það væri ósk ríkisstjórnarinnar að atvinnulífinu vegni sem best.

Sigmundur beindi svo orðum sínum að Samtökum atvinnulífsins og sagði að í kjölfar þess að hann hefði bent á að innlend fjárfesting hefði ákveðna kosti framyfir þá erlendu, þá hefði forstöðumaður úr samtökunum gagnrýnt þá hugmynd og unnið gegn hagsmunum lands og þjóðar. Sagði hann þetta mjög skaðlegt út á við og sagði að samtökin ættu að skoða það að nýta fjármagn sitt betur til uppbyggilegra ábendinga eða spara félagsmönnum sínum fé og setja á fót bloggsíðu í stað þess að halda úti fullu starfi.

Staða lífeyrissjóðanna í íslensku efnahagslífi voru einnig ofarlega í huga Sigmundar, en hann sagði sjóðina þurfa að taka sig á á sviði nýsköpunar. Sagði hann að breyta þyrfti löggjöfinni kringum sjóðina og láta þá taka virkan þátt í þeirri uppbyggingu sem tengist frumkvöðlastarfsemi. „Ef menn trúa því raunverulega að fjármagn sem rennur til nýsköpunar skili sér margfalt til baka, eins og flestir hér telja væntanlega að sé raunin, þá hljótum við líka að trúa því að fjárfesting lífeyrissjóða í nýsköpun, meðal annars með lánveitingum, skili þeim verulegum ávinningi,“ sagði Sigmundur.

Hann sagði öðru máli gegna um yfirráð sjóðanna í íslensku atvinnulífi, en þeir eru stórir hluthafar í flestum skráðum félögum og fjárfestingasjóðum. Sagðist hann hafa efasemdir um ágæti þess þegar hópur lífeyrissjóða stofnar sérstakt fyrirtæki til að taka stórar stöður í öðrum fyrirtækjum. Sagði hann að forsvarsmenn atvinnulífsins, sem jafnframt sitja í stjórnum lífeyrissjóða, ættu að spyrja sig hvort það sé sú gerð af kapítalisma sem henti atvinnulífinu best.

Í lok erindisins fór Sigmundur yfir stefnu stjórnvalda varðandi Evrópusambandsaðild og sagði að Ísland væri ekki á leið í sambandið og að vonir manna til þess að viðræður ættu sér stað í alvöru meðan utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar væri andsnúin aðild væru ekki raunsæjar.

Yfirskrift Viðskiptaþings þetta árið var opið fyrir viðskipti? (e. Open for business?) og sagði Sigmundur að þeirri spurningu væri auðvelt að svara. Sagði hann að Ísland væri sannarlega opið fyrir viðskipti, en að búðin væri ekki til sölu. (e. Yes, Iceland is open for business, but the store is not for sale.)

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK