Trúir á tvöföldun í orkuiðnaði

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að orkugeirinn eigi inni mikla ...
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að orkugeirinn eigi inni mikla verðmætaaukningu á næstu árum.

Orkuiðnaðurinn á inni svipaða verðmætaaukningu og sjávarútvegurinn, en á síðustu 25 árum hefur verðmæti aflans aukist til muna og í dag er markmið sjávarklasans að auka verðmæti þorskflaka um allt að 150%. Þetta er álit Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, en fyrirtækið er eitt þeirra sem standa á bakvið frumkvöðlakeppnina Startup Energy Reykjavík. Hann segir mikil tækifæri í að nýta betur orku hér á landi og þá séu vandamál dagsins í dag tækifæri framtíðarinnar.

Komið að verðmætaaukningu

„Við teljum nauðsynlegt fyrir allar greinar að huga að nýsköpun og verðmætasköpun. Þetta er ákveðið forgangsatriði í orkuiðnaðinum núna. Það hefur verið mikill uppbyggingartími, þar sem mikið hefur verið byggt upp af virkjunum, en við sjáum framundan að þetta eru takmarkaðar auðlindir og þá þarf að huga betur að nýtingu og aukinni verðmætasköpun á því sem við höfum,“ segir Hörður.

Staðan í orkugeiranum í dag er svipuð og hún var fyrir 25 árum í sjávarútveginum að sögn Harðar. „Sjávarútvegurinn var mjög magndrifinn þangað til fyrir 25 til 30 árum síðan. Þá var afkastagetan í iðnaðinum mun meiri heldur en auðlindin,“ segir Hörður, en í framhaldinu varð mikil þróun á vöruframboði og aukning í vinnslu. Hörður segir mörg öflug fyrirtæki tengd sjávarútveginum hafa orðið til á þessum tíma, en nærtækasta dæmið er Marel, sem Hörður þekkir sjálfur vel, enda var hann forstjóri fyrirtækisins í 10 ár og starfaði þar í 25 ár.

Orkunýting og nýting afurða

Þegar hann er spurður út í það hverskonar fyrirtæki gætu risið upp í kringum orkuiðnaðinn segir Hörður að enn sem komið er sé ekki hægt að segja til um það. Þannig hafi þetta líka verið árið 1985 þegar Marel var að byggjast upp „Við vissum þá ekki nákvæmlega hvað við ætluðum að gera hjá Marel og væntingar sem menn höfðu voru aðeins örlítið brot af þeim árangri sem menn hafa náð í dag.“

Hann segir mikil tækifæri vera í betri nýtingu orkuauðlinda. „Við teljum mikil tækifæri kringum jarðvarmann. Það eru margskonar afurðir sem koma úr jarðhitanum sem við erum ekki að nýta og svo falla til allskonar efni sem eru vandamál og við skilgreinum sem mengun," segir Hörður. Hann segir að þessi vandamál geti orðið verðmæt tækifæri í framtíðinni.

Trúir á tvöföldun í orkuiðnaði

Sjávarklasinn hefur sett sér mjög háleit markmið varðandi að auka verðmæti þorskflaka um 150% á komandi árum. Aðspurður hvort orkuiðnaðurinn eigi inni álíka verðmætaaukningu segir Hörður að engin slík markmið hafi verið sett í tengslum við orkuna. Hann segist aftur á móti telja að orkuiðnaðurinn eigi inni svipaða og jafnvel meiri aukningu en það, þótt erfitt sé að setja nákvæma tímasetningu á hvenær og hvernig sú verðmætaaukning eigi sér stað.

Landsvirkjun er einn af bakhjörlum frumkvöðlakeppninnar Startup Energy Reykjavík sem kynnt var á þessu ári. Umsóknafrestur í keppnina rennur út um helgina, en hverju af þeim sjö fyrirtækjum sem verða valin til þátttöku fá fimm milljónir til þess að vinna að hugmyndum sínum næstu tíu vikurnar. Hörður segir þetta umhverfi mun hagstæðara fyrir sprotafyrirtæki en þegar Marel var að byggjast upp á sínum tíma og vonast hann til að það leiði af sér ný og spennandi fyrirtæki í orkuiðnaðinum.

Eftir mikla uppbyggingu á síðustu árum og áratugum segir Hörður ...
Eftir mikla uppbyggingu á síðustu árum og áratugum segir Hörður nauðsynlegt að horfa í auknum mæli á verðmætaaukningu. mbl.is/Gúna
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir