Hafa trú á Suðurlandsbraut og Skeifunni

Eignir Eikar við Suðurlandsbraut, í Skeifunni og í Múlunum. Garðar …
Eignir Eikar við Suðurlandsbraut, í Skeifunni og í Múlunum. Garðar Friðjónsson, forstjóri félagsins, segist hafa mikla trú á svæðinu. Mynd/mbl.is

Á síðustu árum hefur Suðurlandsbrautin ásamt nærliggjandi svæðum gengið í gegnum endurnýjun lífdaga og miklar endurbætur átt sér stað þar. Húsnæði hefur ýmist verið endurgert eða jafnvel endurbyggt og hefur bætt ásýnd svæðisins gert svæðið eftirsóknaverðara í útleigu en áður. Eik fasteignafélag hf. er meðal þeirra sem hafa sýnt þessu svæði áhuga og á fjölmargar eignir þar. Í samtali við mbl.is segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri félagsins, að hann hafi mikla trú á svæðinu og að líklegt sé að menn muni í auknum mæli horfa til endurbóta í Múlahverfinu á komandi árum.

Trú á svæðinu

Garðar segir að eins og stendur sé félagið ekki að horfa til frekari kaupa á svæðinu heldur einbeitir það sér að uppbyggingu og endurbótum á Suðurlandsbraut 6, 8 og 10, en Eik á þær eignir að hluta til eða fullu. Hann tekur þó ekki fyrir að fjölgað verði í eignasafninu ef réttar eignir bjóðist á góðu verði.

„Við höfum trú á svæðinu,“ segir Garðar og bætir við að það sé mjög miðsvæðis, stutt sé í Borgartúnið og miðbæinn. Hann bendir á að þrátt fyrir að Eik hafi fjárfest töluvert í húsnæði í Skeifunni, Múlanum og á Suðurlandsbraut eigi það aðeins brotabrot af öllum eignum á svæðinu. Á næstunni gæti þó fjölgað formlega í eignasafninu, en með samruna Eikar og Landfesta, sem Samkeppniseftirlitið á enn eftir að samþykkja, bætast meðal annars við nokkrar stórar eignir í Ármúla.

„Fyrir þá sem vilja vera miðsvæðis en ekki borga hæstu leiguna er þetta frábært svæði til að vera á,“ segir Garðar, en aðspurður hvort þetta verði næsti heiti reiturinn í Reykjavík segir Garðar að hann sé það að nokkru leyti. Þó verði að horfa til þess að ólíkir viðskiptavinahópar sæki í mismunandi staðsetningu, en ljóst sé að miðsvæðið, sem nái frá miðbænum að Skeifunni, sé mjög vinsælt í heild. Garðar kallar það miðsvæði viðskipta (e. central business district), en 70-80% af eignum Eikar eru þar.

Skrifstofugeirinn enn að þéttast

Á Suðurlandsbraut á Eik að hluta eða í heild húsnæði númer 6, 8, 10, 20, 32 og 48. Garðar segir að framkvæmdir á 6 séu á lokastigi en mikil vinna sé enn eftir með Suðurlandsbraut 8 og 10. Aðrar eignir þeirra og reyndar flestar eignir við götuna séu í góðu ásigkomulagi og segir Garðar að það styttist í að menn fari að færa sig upp í Múlana með endurnýjun. Töluverður munur sé á verðmæti og leigu þar, en að til framtíðar sé líklegt að það komi til uppbyggingar og endurnýjunar austan við Hallarmúlann. Þar sé töluvert um bakhús sem eru mun ódýrari í dag en annað á svæðinu og líklegt að horft verði til þegar verð á atvinnuhúsnæði hækki í framtíðinni.

Hann segist þó ekki eiga von á að núverandi hús verði strax rifin, heldur muni menn horfa til þess að byggja ofan á núverandi húsnæði, enda bjóði burðarvirki margra húsa þarna upp á það. Það sé enn eitthvað í að glænýtt skrifstofuhúsnæði rísi í stað eldra á sama stað. „Það er eitthvað lengra í að markaðurinn komist á þann punkt, þótt það styttist jafnt og þétt í það. Íbúðageirinn er klárlega kominn af stað og sama á við um hótelgeirann. Skrifstofugeirinn er ennþá að þéttast og þá hækkar leiguverð, sem í framhaldi mun leiða af sér tækifæri til nýbygginga og þá eru Suðurlandsbraut og Ármúli fínir staðir,“ segir Garðar.

Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar.
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar. Ómar Óskarsson
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK