Ferðaþjónustan stærst og fer stækkandi

Vöxtur ferðaþjónustu mun samkvæmt spám Landsbankans standa undir 2,3% af …
Vöxtur ferðaþjónustu mun samkvæmt spám Landsbankans standa undir 2,3% af hagvexti næstu árin. Ómar Óskarsson

Viðbótargjaldeyristekjur vegna vaxtar í ferðaþjónustu á síðustu árum jafnast á við heildarútflutningstekjur á öllum þorski sem veiddur er við Ísland. Gangi spá um vöxt næstu þrjú árin eftir mun aukningin ein og sér á þessum árum verða meira en 50% af útflutningstekjum áls. Þetta segir Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, en bankinn gaf út skýrslu sína um ferðaþjónustu í dag. Þar er því meðal annars spáð að ferðamenn verði í fyrsta skipti fleiri en ein milljón á næsta ári, en þá eru ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum ekki taldir með.

Ferðaþjónustan orðin stærst

Heildarútflutningstekjur ferðaþjónustunnar námu um 275 milljörðum á síðasta ári og var greinin í fyrsta skipti efst yfir gjaldeyrisskapandi greinar hér á landi. Sjávarútvegurinn kemur í öðru sæti með 272,5 milljarða, en í kynningu skýrslunnar var tekið fram að stórir liðir eins og veitingaþjónusta væru ekki teknir með í tölum um ferðaþjónustu. Raunverulegar gjaldeyristekjur greinarinnar eru því væntanlega nokkru meiri.

Áfram mikill vöxtur

Hagfræðideildin spáir því að á þessu ári muni ferðamönnum fjölga um 18% og árið 2015 um 15%. Eftir það muni fjölgunin leita í langtímameðaltal og vera í kringum 9%. Gangi þessi spá eftir má gera ráð fyrir því að útflutningstekjur greinarinnar árið 2016 hafi hækkað um 220 milljarða á ári miðað við árið 2010. Það er aðeins meira en heildarútflutningur síðasta árs hjá álfyrirtækjunum, eða sem nemur aukningu í þorskveiðum upp á 560þ tonn. Þá mun aukning næstu þriggja ára ein og sér telja fyrir um 130 milljörðum á ári, en það er um 60% af útflutningstekjum áls.

Gústaf segir í samtali við mbl.is að þessi aukning geti farið langt með að leysa efnahagsvanda þjóðarinnar og muni hjálpa til við afnám hafta og greiðslu skulda þjóðarbúsins. Hann bendir á að gangi spáin eftir muni hún hafa 2,3% áhrif árlega á hagvöxt, þótt allt annað standi í stað. Því sé um gríðarlegar upphæðir að ræða. Á ráðstefnunni í morgun var bent á að þrátt fyrir þennan mikla vöxt væri aðeins um 1% af rannsóknarfé ríkisins varið í rannsóknir á ferðaþjónustu og var sagt að það skyti skökku við meðan greinin væri að verða svona mikilvæg.

Hverjir eru bestu ferðamennirnir?

Ferðamenn eyða misháum upphæðum þegar þeir koma til landsins, en Gústaf segir að það fari eftir því hvaða mælikvarða menn miði við hvaða þjóðir séu þær best borgandi og skili mestu. Þannig sé minni árstíðarsveifla á komum Breta en annarra þjóða, en þeir eyði aftur á móti aðeins miðlungsupphæð meðan á dvöl þeirra stendur. Bandaríkjamenn og Norðmenn eyða aftur á móti mun meiru, en árstíðarsveifla þeirra sé mun meiri.

Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans.
Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans.
Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar hafa vaxið mikið undanfarin ár og er greinin …
Útflutningstekjur ferðaþjónustunnar hafa vaxið mikið undanfarin ár og er greinin nú orðin sú stærsta hér á landi. Miðað við spá til næstu ára mun greinin halda áfram að stækka með miklum hraða. Mynd/Landsbankinn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK