Golfarar hyggja á landvinninga

Daði Janusson, Daníel Rúnarsson og Andri Janusson, stofnendur GolfPro Assistant.
Daði Janusson, Daníel Rúnarsson og Andri Janusson, stofnendur GolfPro Assistant.

„Þetta er mikill heiður,“ segir Daði Janusson, framkvæmdastjóri og einn stofnenda sprotafyrirtækisins GolfPro Assistant. Fyrirtækið hefur verið valið úr hópi íslenskra sprotafyrirtækja sem fulltrúi landsins í frumkvöðlasamkeppninni Battle of the Vikings í Kaupmannahöfn næstkomandi föstudag.

Samkeppnin er hluti af Nordic Startup Conference, stórri nýsköpunarráðstefnu í höfuðborg Danmerkur, en tilgangur hennar er að leiða saman frumkvöðla, fjárfesta og aðra aðila í sprotaumhverfinu.

GolfPro Assistant vinnur að gerð vefhugbúnaðar fyrir golfkennara sem aðstoðar þá við alla þætti golfkennslunnar og einfaldar sem og heldur utan um samskipti þeirra við nemendur sína.

Ákváðu að slá til

Fyrirtækið stofnuðu þeir Daníel Rúnarsson og bræðurnir Andri og Daði Janussynir. „Við erum allir heilmiklir golfarar og höfðum gengið með þessa hugmynd í maganum í meira en ár,“ segir Daði í samtali við mbl.is.

„Svo þegar við sáum að það var verið að auglýsa eftir umsóknum í Startup Reykjavík í fyrra ákváðum við að slá til og sækja um.“ Þeir félagar komust inn og við tók tíu vikna ferli, sem Daði segir að hafi verið alveg ómetanlegt.

Til útskýringar er Startup Reykjavík svokallaður viðskiptahraðall (e. business accelerator) sem fjárfestir árlega í tíu hugmyndum. Markmiðið er að skapa umgjörð þar sem þátttakendur njóta ráðgjafar og leiðsagnar reyndra aðila, svo sem úr atvinnu-, viðskipta- eða háskólalífinu, í þeim tilgangi að ýta úr vör nýjum viðskiptatækifærum.

Bjóða upp á heildarlausn

Hver sem er getur sótt um, hvort sem það eru einstaklingar eða fyrirtæki, og eru loks tíu fyrirtæki valin úr hópi umsækjenda. Um er að ræða samstarfsverkefni Arion banka og Klak Innovit frumkvöðlaseturs og mun bankinn fjárfesta í hverju fyrirtækjanna fyrir tvær milljónir króna gegn 6% eignarhlut.

Daði segir að vef- og snjallsímabúnaðinn, sem þeir eru að þróa, sé til margs nýtilegur. „Hann auðveldar nemendum að finna golfkennarann sinn, bóka tíma hjá honum og greiða fyrir tímann og þá auðveldar hann jafnframt golfkennaranum að halda utan um sinn rekstur og öll samskipti milli kennara og nemenda milli tíma,“ útskýrir hann.

„Þetta er í raun heildarlausn í kringum golfkennslu.“

Varan á markað í sumar

Þeir hafa hannað hugbúnaðinn í samstarfi við PGA á Íslandi, sem eru samtök golfkennara, og stefna þeir að því að gefa vöruna út nú í sumar.

Fyrir jól hlutum við verkefnastyrk úr Tækniþróunarsjóði og er það í raun hann sem gerir okkur kleift að einblína á verkefnið. Við gætum ekki gert þetta af fullum krafti án Tækniþróunarsjóðs,“ segir Daði.

Eins og áður sagði verður fyrirtækið fulltrúi Íslands á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn um helgina. Hvert Norðurlandanna fimm hefur valið sinn fulltrúa til þátttöku en fyrirtækin fá alls fimm mínútur til að kynna sig fyrir framan 400 áhorfendur. Fimm manna dómnefnd velur síðan í framhaldinu sigurvegara.

mbl.is/Kristinn
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir