Dregið úr fjármagnshöftunum

AFP

Stjórnvöld á Kýpur felldu í dag úr gildi hluta fjármagnshaftanna sem komið var á í landinu fyrir rúmu ári. Kýpverjar geta fyrir vikið tekið út fé sitt úr bönkum án takmarkana en síðan fjármagnshöft voru tekin upp hafa þeir ekki getað tekið út meira en 300 evrur á dag eða sem nemur tæplega 47 þúsund krónum. 

Haft er eftir Haris Georgiades, fjármálaráðherra Kýpur, í frétt AFP að samhliða auknum stöðugleika í fjármálakerfi landsins og auknu trausti á því kunni að verða mögulegt að draga enn frekar úr fjármagnshöftunum. Takmarkanirnar á úttektir úr bönkum voru mikilvægur hluti af höftunum á Kýpur segir í fréttinni. Kýpverjar geti hins vegar áfram ekki innleyst ávísanir og mega ekki taka meira en þrjú þúsund evrur með sér úr landi.

Ákvörðun stjórnvalda í dag þýðir einnig að dregið verður úr takmörkunum á millifærslu fjármagns innanlands og undir ákveðnum skilyrðum mega Kýpverjar núna opna nýja bankareikninga í bönkum sem þeir eru ekki þegar í viðskiptum við. Hins vegar verður að vera um að ræða bundna reikninga með yfir fimm þúsund evra innistæður.

Stjórnvöld á Kýpur vonast til að geta afnumið öll fjármagnshöftin í lok þessa árs takist að semja við alþjóðlega lánveitendur og endurheimta að fullu traust fjárfesta. Áður höfðu þarlendir ráðamenn stefnt að því afnema höftin að fullu í janúar síðastliðnum.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir