Fjórðungsaukning flugferða

EasyJet hefur stóraukið flugferðir sínar til Íslands, en þær eru ...
EasyJet hefur stóraukið flugferðir sínar til Íslands, en þær eru nú fleiri en WOW bauð upp á í fyrra. WOW hefur á sama tíma fjölgað ferðum sínum mikið og stóð fyrir rúmlega 100 ferðum í mars.

Flugferðir voru að jafnaði 25 á dag frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði, en það er aukning um fimm daglegar ferðir frá sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í tölum sem vefsíðan Túristi tekur saman. Icelandair er enn með stærsta hluta ferðanna, en WOW air og EasyJet hafa stóraukið framboð ferða sinna milli ára.

Á morgun hefst áætlunarflug easyJet til Basel í Sviss og flýgur félagið þá til fimm borga frá Íslandi. Samkvæmt tölum Túrista stóð breska félagið fyrir 29 ferðum héðan til Bretlands í mars í fyrra, en núna voru þær 68. Til samanburðar þá flaug Wow Air 64 ferðir í mars á síðasta ári og Iceland Express fór 48 ferðir í mars árið 2012. Framboðið hjá easyJet er því meira en íslensku lággjaldafélögin buðu uppá í marsmánuði síðustu tvö ár. Wow Air hefur einnig stóraukið umsvif sín og voru 107 brottfarir á vegum félagsins í síðasta mánuði sem er viðbót um 67 prósent frá sama tíma í fyrra.

Hlutdeild Icelandair í brottförum í marsmánuði var 71,8%, en næst þar á eftir kom Wow air með 13,9%. EasyJet er með 8,8% en SAS og Norwegian mun minna.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir