Leitun að betri stað til að byrja á

Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga, tók við Nýsköpunarverðlaunum Íslands á fimmtudaginn.
Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga, tók við Nýsköpunarverðlaunum Íslands á fimmtudaginn. Mynd/Þorsteinn Ásgrímsson

Á fimmtudaginn hlaut íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga Nýsköpunarverðlaun Íslands, en fyrirtækið var stofnað fyrir fimm árum og hefur á þeim tíma náð að verða leiðandi á sviði heimilisfjármálahugbúnaðar í Evrópu. Samkvæmt nýlegri fjárfestingu í fyrirtækinu er það metið á um 2,6 milljarða, en velta þess var 730 milljónir í fyrra og starfsmenn eru um 80 á þremur stöðum í heiminum.

Skrykkjótt vegferð

Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga, segir í samtali við mbl.is að vegferðin að stofna fyrirtæki sé alltaf skrykkjótt og að því fylgi mikil barátta. Þótt það sé rosalega gaman og gefandi segir hann að því fylgi mikið álag og þess vegna séu verðlaun sem þessi mikilvæg til að fá endurgjöf á eigin verk. „Þegar einhver tekur eftir því sem maður er að gera og veitir manni verðlaun og hvatningu, það er eitt af því sem heldur manni gangandi í þessari baráttu,“ segir Georg.

Í dag starfar Meniga í Stokkhólmi, London og Reykjavík, en um 60 manns vinna hjá fyrirtækinu hér á landi. Þá eru flestir viðskiptavinir erlendis og segir Georg að 95% af tekjum fyrirtækisins komi að utan og muni bara fara vaxandi á komandi árum. Hann telur fyrirtækið eiga inni mikinn vöxt í framtíðinni, enda sé mikil þróun framundan á þessu sviði. „Heimilisfjármálahugbúnaður fyrir netbanka er einn af hornsteinum fyrir næstu kynslóð netbanka. Hann er samt enn skammt á veg kominn, en flestir netbankar eru enn eins og þeir voru fyrir tíu árum,“ segir Georg. Hann telur að bankar muni í auknum mæli horfa til þess að víkka út þessa starfsemi og hjálpa fólki að skilja og skipuleggja fjármál sín.

Engin plön um flutninga

Á Nýsköpunarþinginu var mikið rætt um stöðu frumkvöðlafyrirtækja á Íslandi og áhrif haftanna á þau. Sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, meðal annars að hlúa þyrfti betur að þessum geira og vildi hún styrkja sjóði og annað umhverfi þeirra. Aðspurður út í hvort fyrirtæki eins og Meniga eigi sér einhverja framtíð á Íslandi, eða hvort fyrirtækið verði flutt út á næstunni, segir Georg að þeir vilji vera hér áfram og engin plön séu um flutninga. Aftur á móti tekur hann fram að ef til sölu komi eða ef setja ætti fyrirtækið á markað, þá vissulega myndu höftin hafa áhrif.

Leitun að betri stað til að byrja á

Georg tekur samt fram að það að stofna fyrirtæki hér á landi hafi verið mjög gott og tímasetningin fyrir Meniga verið góð. „Það eru ýmsir kostir að vera hér og það að taka fyrstu skrefin hér var frábært. Það er vandleitað að betri stað til að stofna fyrirtæki,“ segir hann. Þá hafi hrunið hjálpað þeim töluvert og bendir hann á að margir starfsmenn bankanna sem voru með reynslu af hugbúnaðargerð hafi misst vinnuna og þannig boðist þeim á sínum tíma. Þá hafi bankarnir verið að leita að lausnum fyrir viðskiptavini til að halda betur utan um útgjöld og þannig hafi Íslandsbanki til dæmis orðið annar bankinn í Evrópu sem tók upp kerfi eins og það sem Meniga býður upp á.

Fyrir mánuði fékk Meniga einnar milljónar evru fjármögnun frá hollenskum fjárfesti, en Georg segir að það sýni fram á að það sé ekki ómögulegt að fá erlenda fjárfestingu. „Það truflar þó vissulega,“ segir hann. Hann segir ekki einfalt að flytja fyrirtæki alveg út og að stjórnendur séu ekki að skoða slíkt í dag. Hann útilokar þó ekki að það verði skoðað síðar, en í dag segir hann engin plön um að flytja. Höftin skapa þó fjárhagsleg vandamál í vissum aðstæðum, t.d. ef ætti að selja fyrirtækið, og segir Georg að eigendur myndu þá auðvitað horfa út. „Það yrði alltaf einhver afsláttur af verðinu meðan höfuðstöðvarnar eru hér,“ segir Georg.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK