Fyrsti fjöldaframleiddi íslenski bíllinn

Útlitsmynd af TorVeg bílnum.
Útlitsmynd af TorVeg bílnum. Mynd/Jakar ehf.

Á miðvikudaginn verður stórt skref stigið í íslenskri bílasögu, en þá verður skrifað undir samning um kaup á þremur fyrstu bílunum sem framleiddir verða undir merkjum Ísar. Þetta verða þar með fyrstu fjöldaframleiddu bílarnir á Íslandi. Það er Ari Arnórsson sem stendur á bakvið þetta verkefni, en hann hefur undanfarna áratugi unnið að hugmyndavinnu og við útfærslu á fjórum gerðum bíla undir þessu nafni.

Limmósínu jeppi

Fyrstu bílarnir verða stórir fjallabílar, en Ari játar því að um sé að ræða einskonar limmósínu jeppa. Hann tekur þó fram að ekki sé um rútu að ræða. Hugmyndin kom upphaflega eftir að hafa fylgst með þörfum á íslenskum ferðamarkaði og segir Ari að hér á landi þurfi ferðaþjónustuaðilar bíla sem hafi einhverja af eiginleikum rútu og svo eiginleika jeppa með að komast á staði sem séu utan alfaraleiðar. Þessi fyrsta gerð bílanna mun heita TorVeg, en hún verður fáanleg í 7 til 20 manna útgáfu. Verða bílarnir framleiddir með fjórum, sex eða átta dyrum. 

Ari segir að bílnum sé ætlað að leysa af hólmi Ford Econoline og aðra sendibíla með sætum, auk lengdra Ford Excursion. Segir hann að þetta sé í fyrsta skiptið, svo vitað sé til, að götuskráð fólksbifreið sé hönnuð og smíðuð frá grunni fyrir 46-48 tommu dekk. TorVeg er gerður eftir gildandi Evrópureglum og því hægt að selja þessa bíla hvert sem er í heimi, hvort sem er nýja eða notaða. Meðal annars er undirvagninn og yfirbyggingin alfarið íslensk smíði. Þá er bíllinn um 1.000 til 1.300 kílóum léttari en núverandi breyttir Econoline og verður þyngd hans í tómavigt fyrir 11 manns um þrjú tonn.

Ari segir að með því að hanna bílinn frá grunni með þetta hlutverk, þá áætli þeir að geta náð sætiskílómetrakostnaði á hvern farþega niður um 40% miðað við kostnað af svipuðum bílum í dag. Þannig sé hægt að gera ofur-jeppa ferðaþjónustu hagkvæmari og skila meiru til þeirra sem sjái um hana. Bendir hann á að ferðamenn séu almennt tilbúnir til að borga þrisvar sinnum meira fyrir jeppaferðir en ferðir í rútum og með því að sameina kosti við stórar bifreiðar og jeppa geti komið til aukinnar hagkvæmni.

Hugmyndin kom fyrst árið 1996

Ari segist hafa gengið með hugmyndina lengi í kollinum, en árið 1996 hafi hann svo byrjað á breytingum á Hummerbifreiðum í samstarfi við samnefnt umboð. Þau mál hafi aftur á móti endað með hremmingum og það hafi tekið hann tíu ár að vinna sig út úr þeim málum. Árið 2005 fullhannaði hann svo hópferðabíl sem hann hefur notað allar götur síðar í ferðaþjónustu. Fjármögnun á slíkum bílum hafi aftur á móti ekki gengið sem skyldi og því hafi hann einnig farið að skoða smíði á jeppum. 

Með aukningu í ferðaþjónustu og áhuga á ofurjeppum hefur áhugi innlendra aðila vaxið og nokkur fyrirtæki í jeppaferðum sýndu verkefninu áhuga og ákváðu að setja peninga í það. Í vikunni verður það samstarf svo handsalað með undirritun um kaup á þremur bifreiðum.

Bílaverksmiðja á mörgum stöðum

Framleiðslan verður með óhefðbundnu sniði, en Ari segir að hún verði byggð upp sem klasasamstarf. Hann verður eini fastlaunaði starfsmaðurinn til að byrja með, en önnur vinna og þjónusta aðkeypt. „Þetta verður heil bílaverksmiðja á mörgum stöðum í staðin fyrir að búa til stórt hús og ráða mikið af starfsfólki á föstum launum og fara svo á hausinn með miklum tilþrifum,“ segir hann.

Hugmyndin er að fyrirtækið sé fyrst og fremst þekkingarfyrirtæki að sögn Ara, en hann segir að ef þetta sé miðað við bygginariðnaðinn, þá sé Ísar arkitekta og verkfræðifyrirtæki, meðan aðkeypt þjónusta séu verktakar og vélaleigur.

Stefna á 20 milljóna verðmiða

Með þessu móti segir hann að auðvelt verði að bregðast við sveiflum á markaði, en hann vonast til þess að byggja fyrirtækið mikið upp á komandi árum. Segist hann meðal annars hafa það langtímamarkmið að fyrirtækið verði „í Marel-stærð,“ með útflutning til allra heimsálfa. Aðspurður um mögulega eftirspurn segist hann gera ráð fyrir hundruð upp í þúsund bílum árlega, en ekki mikið meira. Segir hann bílana ekki vera ódýra, en á móti hagkvæma í rekstri og bjóða upp á aðra upplifun og mikinn lúxus. Þannig stefni þeir á að fullkláraður bíll verði í kringum 20 milljónir, en það sé þó ekki orðið niðurneglt enn.

Passar fyrir björgunarsveitir

Ari horfir þó ekki aðeins til ferðaþjónustunnar og erlendra aðila, heldur segir hann að bifreiðarnar gætu orðið vinsælar meðal björgunarsveita hér á landi og annarra viðbragðsaðila. 

Ari hefur ekki einn staðið í þessu verkefni, því ásamt honum hafa margir lagt hönd á plóg. Þar á meðal eru Helgi Geirharðsson, verkfræðingur, Guðmundur Jónsson, véliðnfræðingur, Bjarni Hjartarson, hönnuður og nemi í bílahönnun, Garðar Ketilson, héraðsdómslögmaður, Ívan Mladenovic, rafhönnuður, Helgi Harðarson, Björn og Gestur Magnússynir, allir bifreiðasmíðameistarar, Halldór og Linda Eyjólfsbörn, grafískir hönnuðir og starfsmenn ReonTech sem sáu um útlitslíkan.

Kynning á bílunum mun fara fram næstkomandi miðvikudag í Túrbínusal Toppstöðvarinnar í Elliðaárdal klukkan 10:30. Það verður verkefnið kynnt í fyrsta skipti fyrir fjölmiðlum og almenningi. Frekari upplýsingar má finna á Facebook síðu Ísar. 

Ari Arnórsson, stofnandi Jakar ehf., framleiðanda Ísar bílanna.
Ari Arnórsson, stofnandi Jakar ehf., framleiðanda Ísar bílanna. KRISTINN INGVARSSON
Útlitslíkan af bílnum.
Útlitslíkan af bílnum. Mynd/Jakar ehf.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK