Samþykktar kröfur á Baug 100 milljarðar

Höfuðstöðvar Baugs voru til langs tíma við Túngötu í Reykjavík.
Höfuðstöðvar Baugs voru til langs tíma við Túngötu í Reykjavík. Árni Sæberg

Heimtur í þrotabú Baugs Group hf. eru nú í kringum 1%, en gætu farið upp í 16% gangi tvö riftunarmál eftir og greiðslur berist vegna þeirra. Enn á eftir að dæma í stærstu riftunarmálunum, en þau voru höfðuð gegn Kaupþingi og Banque Havilland. Óvíst er hvað gæti fengist til baka vinnist málið, en um er að ræða rúmlega 15 milljarða greiðslur sem runnu til bankanna.

Samþykktar kröfur 100 milljarðar

Samþykktar kröfur í þrotabú Baugs nema nú rúmlega 100 milljörðum, en Erlendur Gíslason, skiptastjóri þess, segir að tæplega 400 milljarða kröfum hafi í heild verið lýst í búið. Þar af var tæplega 70 milljarða krafa sem barst frá BG Holding, en þá var frestur til slíks útrunninn og fékkst krafan því ekki samþykkt. Í heild voru kröfurnar um 160, en aðeins á eftir að taka afstöðu til fimm minniháttar krafna að sögn Erlendar. Skiptafundur verður haldinn seinna í mánuðinum þar sem farið verður yfir stöðu dómsmálanna og endurheimtur í búið.

Félög eigenda fengu greiðslurnar

Í fyrra rifti héraðsdómur greiðslum Baugs Group frá 11. júlí 2008 til Fjárfestingarfélagsins Gaums, Gaums Holding S.A. og Eignarhaldsfélagsins ISP. Einnig greiðslu Baugs Group frá 14. júlí 2008 til Bague S.A. Heildarfjárhæð greiðslanna nam um 15 milljörðum, en þær voru notaðar til að greiða niður skuldir félaganna hjá Kaupþingi og Kaupthing Bank Luxembourg, sem seinna varð Banque Havilland. 

Á umræddum tíma voru Fjárfestingafélagið Gaumur ehf. og Gaumur Holding S.A. stærstu eigendur Baugs. Átti fyrrgreinda félagið 38,3% í Baugi og síðargreinda félagið 27,74%. Þá liggur fyrir að Gaumur hafi átt allt hlutafé í Gaumi Holding.

Eigendur Gaums voru Jón Ásgeir Jóhannesson, sem átti 45% hlut í félaginu, Ása Ásgeirsdóttir og Jóhannes Jónsson, sem áttu hvort um sig 22,5% í félaginu, og Kristín Jóhannesdóttir, sem átti 10% í félaginu. Auk framangreindra eigenda Baugs átti Eignarhaldsfélagið ISP ehf. 7,12% í félaginu og Bague S.A. (Bague) 7,09% í því. Ingibjörg Pálmadóttir var eini eigandi ISP.

Riftunarmálið ekki enn útkljáð

Erlendur segir að í málinu frá í fyrra hafi unnist mál gegn hluthöfunum, en enn eigi eftir að vinna málin gegn Kaupþingi og Banque Havilland, þar sem fjármunirnir hafi endað. Banque Havilland var sýknað í héraði, en málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og bíður þess að flutningur geti hafist. Kaupþingsmálið bíður úrskurðar, en Erlendur segir að meira en fjórar vikur séu liðnar frá flutningi þess.

Aðeins einn milljarður í hendi

Í dag er um einn milljarður laus til skipta í búinu, en Erlendur segir að til viðbótar við málaferlin, sem séu langstærsti einstaki liður uppgjörsins, þá sé helst horft til sölu á hlut í breska smásölufyrirtækinu Matthew Williamson Ltd. Hann segir að vonir hafi staðið til að fá um eina milljón sterlingspunda fyrir hlutinn, en að það hafi ekki gengið eftir. Hann vonist þó til þess að hægt verði að selja hlutinn fyrir rúmlega 100 milljónir króna. Að öðru leyti sé ekki mikið um aðrar eignir.

Stærstu hagsmunir þrotabús Baugs liggja í riftunarmáli vegna greiðslna sem …
Stærstu hagsmunir þrotabús Baugs liggja í riftunarmáli vegna greiðslna sem fóru frá Baugi til félaga í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans og var að lokum greidd til Kaupþings og Kaupthing Bank í Lúxemborg. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK