Vinnan við skráningu líktist vertíð

Við skráningu HB Granda á aðalmarkað Kauphallarinnar í morgun. Vilhjálmur …
Við skráningu HB Granda á aðalmarkað Kauphallarinnar í morgun. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri fyrirtækisins, hringir viðskipti dagsins inn. Mynd/Þórður Þórðarson

Með skráningu HB Granda á aðalmarkað fæst gott tækifæri til að fjölga í hluthafahóp félagsins, en nokkuð fáir eigendur hafa verið á bakvið það síðustu ár. Félagið er ekki alveg nýtt á hlutabréfamarkaði, heldur hefur það verið skráð í um 20 ár, en fyrir átta árum færði það sig niður á First North markaðinn í stað þess að vera á aðalmarkaði. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, segir að ekki sé horft til þess að auka hlutafé eða ráðast í fjárfestingar með nýju hlutafé, enda telji þeir lánsfé vera hagstæðara en að auka hlutafé.

Vinna við skráningu líktist vertíð

Vilhjálmur segir að skráningin hafi verið til umræðu í langan tíma, en svo hafi málið verið keyrt í gegn þegar niðurstaða var komin. „Þegar ákvörðunin lá fyrir var hún einföld, þetta var búið að vera í umræðunni í langan tíma en ákvörðunin var tekin í haust og síðan þá hefur þetta gengið hratt fyrir sig,“ segir Vilhjálmur. Við skráninguna sagði hann að vinna síðustu mánaða hefði verið eins og vertíð og mikið púður farið í að undirbúa hana.

Lánsfé ódýrara en aukið hlutafé

Félagið hefur verið á markaði síðustu 20 árin, fyrst á aðalmarkaði en fór niður á First North markaðinn árið 2006 þegar yfirtökuskylda var að myndast á meirihlutaeigendur. Vilhjálmur segir góðan tímapunkt núna að færa sig upp aftur. „Nú er álitið gott tækifæri til að koma félaginu á fleiri eigendur,“ segir hann. 

Aðalástæðan fyrir skráningunni er dreifing eignarhalds að hans sögn, en Arion banki vildi selja um 20% af hlut sínum í félaginu. „Þetta er eingöngu til að dreifa eignarhaldinu og það er ekki verið að horfa til hlutafjáraukningar. Við teljum, eins og staðan er í dag, að lánsfé sé ódýrari kostur fyrir félagið en aukið hlutafé og þá er eiginfjárstaðan líka sterk,“ segir Vilhjálmur.

Á réttri leið með veiðigjaldið

Í vikunni var lagt fram frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á lögum um veiðigjöld. Vilhjálmur segir þróunina vera í rétta átt, bæði varðandi tilhögun veiðigjalda og fiskveiðifrumvarpsins. „Það verður aldrei sátt um upphæðina, en aðferðin sem notuð er núna hefur tekið stórstígum framförum og er stórt skref í rétta átt miðað við það sem áður var. Að henda burt þessum þorskígildisstuðlum og fara inn í afkomu einstakra tegunda, við teljum það vera mikið framfaraskref sem kemur mun sanngjarnara út,“ segir Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK