Öllum starfsmönnum sagt upp

Hlynur Sigurðsson, Edda Hermannsdóttir og Sigmar Vilhjálmsson störfuðu hjá Konunglega …
Hlynur Sigurðsson, Edda Hermannsdóttir og Sigmar Vilhjálmsson störfuðu hjá Konunglega kvikmyndafélaginu.

Konunglega kvikmyndafélagið, sem rekur fjölmiðlana Bravó og Miklagarð, leitar nú að nýju hlutafé til að styrkja rekstur félagsins. Af þeim sökum hefur öllu starfsfólki verið sagt upp störfum og voru starfsfólki kynntar þessar aðgerðir á starfsmannafundi sem fram fór fyrr í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Konunglega kvikmyndafélagið segir upp 11 fastráðnum starfsmönnum, þar á meðal fjármálastjóra og framkvæmdastjóra félagsins, sem og verktökum sem sinnt hafa störfum fyrir félagið. „Vonir standa til að með öflun nýs hlutafjár verði hægt að ráða þá alla aftur. Gert er ráð fyrir óbreyttri dagskrá áfram og áhorfendur munu ekki finna fyrir þessum aðgerðum að svo komnu máli,“ segir í tilkynningunni.

Endurskipulagning nauðsynleg 

Konunglega kvikmyndafélagið hefur unnið að undirbúningi Bravó og Miklagarðs í tæpt ár og fóru miðlarnir í loftið í byrjun marsmánaðar. Í fréttatilkynningu kemur fram að kostnaður við uppsetningu reyndist meiri en áætlað var auk þess sem frestun á opnun stöðvanna setti strik í reikninginn.

„Áætlanir stjórnenda gera ráð fyrir frekari sókn í kjölfarið á væntanlegri innkomu nýs hlutafjár,“ segir í tilkynningunni. 

„Stofnkostnaðurinn reyndist töluvert hærri en við gerðum ráð fyrir,“ er haft eftir Sigmari Vilhjálmssyni, stofnanda Konunglega kvikmyndafélagsins í fréttatilkynningu.

„Við reiknuðum með því að fara í hlutafjáraukningu á þessu ári en áttum ekki von á því að þurfa að fara í hana svo snemma. Hins vegar erum við full bjartsýni um að það takist að fá nýja hluthafa að félaginu. Flestir núverandi hluthafar hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt í komandi hlutafjáraukningu en það er ljóst að við erum með henni að leitast við að tryggja fjárhagslegan grunn félagsins til framtíðar.“

Sigmar segir mjög spennandi tíma framundan á fjölmiðlamarkaði og að félagið hafi fullan hug á því að vera virkir þátttakendur í þeim breytingum sem framundan eru.

„ Við höfum fjárfest í öllum þeim tæknibúnaði sem þarf til að reka nútíma sjónvarpsstöðvar sem ná til áhorfenda óháð áhorfstækjum eða tíma. Framtíðarsýn okkar á þessa miðla er mjög skýr og við trúum því að þeir eigi fullt erindi. Báðar stöðvarnar eru afar tæknilega fullkomnar og hefur útsending þeirra gengið snurðulaust frá því að þær fóru í loftið. Uppsagnir eru alltaf sársaukafullar en þær eru því miður nauðsynlegar til að liðka fyrir endurskipulagningu á rekstri félagsins, þeir hafi unnið ötult og óeigingjarnt starf undanfarna mánuð, fyrir það erum við gríðarlega þakklátir. Með öflun nýs hlutafjár eigum við þess vonandi kost að ráða allt þetta hæfileikaríka fólk aftur. Við erum bjartsýnir á framhaldið.“

Frétt mbl.is: „Viljum ekki skuldsetja félagið“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK