Ísland hættir að vera grænt

Þótt Íslendingar telji orkuframleiðslu landsins vera græna er ekki víst …
Þótt Íslendingar telji orkuframleiðslu landsins vera græna er ekki víst að hún komi þannig út í orkubókhaldi landsins. Þannig er aðeins um helmingur af framleiddu rafmagni gert á endurnýjanlegan hátt meðan kjarnorka og jarðefnaeldsneyti telja fyrir um helming. Ómar Óskarsson

Á síðustu árum hafa íslensk orkufyrirtæki í auknum mæli selt upprunavottorð fyrir endurnýjanlega orku úr landi og það stefnir í að viðskiptalegur uppruni slíkrar orku hér á landi fyrir síðasta ár verði innan við 50%. Á tveimur árum hefur þetta hlutfall lækkað úr 88%. Fyrirtæki sem hingað koma í þeim tilgangi að fá hreina endurnýjanlega orku gætu því í raun verið að kaupa orku sem skráð er sem jarðefnaeldsneyti eða kjarnorka.

Græn orkuframleiðsla er ekki alltaf græn orkuframleiðsla

Ákveðins tvískinnungs gætir þegar horft er á græn orkumál hér á landi. Með því að selja auðlind, sem er talin verðmæt erlendis og fá þannig gjaldeyristekjur og styrkja rekstur orkufyrirtækjanna, þá hækkar hlutfall óendurnýtanlegrar orku í raforkuframleiðslu hér á landi. Auðvitað er mest öll orkan í raun framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, en það breytir því ekki að á pappír þá hækkar hlutfallið. Á sama tíma auglýsa orkufyrirtækin Ísland sem ákjósanlegan stað fyrir fyrirtæki að byggja upp vinnslu sem er græn. Þannig var til dæmis tilkynnt í vikunni um nýja byggingu gagnavers Advania, en áhersla var sett á græna orku þar. Þessi sala gæti því til lengri tíma búið til neikvæða ímynd af því sem við teljum vera hreina orku hér á landi.

Síðustu ár hefur Landsvirkjun í auknum mæli horft til þess að geta selt raforku á hærra verði en gert hefur verið til núverandi stóriðju, meðal annars með að fá fjölbreyttari hóp fyrirtækja hingað til lands. Í því samhengi hefur meðal annars verið rætt um gagnaver, kísilverksmiðjur o.fl.  Í ljósi þess sem kemur fram í árskýrslu Landsvirkjunar um endurnýjanlega orku er því áhugavert að sjá að fyrirtækið selji græn upprunavottorð, en í skýrslunni er ítrekað að hér sé í boði hrein orka. „Meginskilaboð Landsvirkjunar til áhugasamra viðskiptavina eru að Landsvirkjun býður orkusamninga á markaðsforsendum þar sem lögð er áhersla á eftirfarandi þætti: Samkeppnishæfasta raforkuverð í Evrópu, 100% endurnýjanleg orka, Áreiðanlegir orkusamningar til langs tíma.“

Afskiptaleysi býr til hvata til að selja vottorðin úr landi

Sú hugsun að hér á landi telji menn alla orku vera græna býr til hvata til að selja græn upprunavottorð úr landi. Þótt að hlutfall endurnýjanlegrar orku lækki ár frá ári, þá voru allir viðmælendur mbl.is sammála því að bæði einstaklingar og fyrirtæki hugsuðu ekki mikið um það. Stafar það af því að allir vita að í raun er orkan græn, hvað sem bókhaldið segir. Þar sem enginn hefur verið tilbúinn að setja verðmiða á þennan græna stimpil og fáir gagnrýna það að græn orka er á miklu undanhaldi í bókhaldinu, þá hafa orkufyrirtækin séð sér leik á borði og hafið markaðsstarf um að selja græn orkuskírteini úr landi.

Fyrirtæki ekki sýnt vottunum áhuga

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri Markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, segir í samtali við mbl.is að með þessu sé fyrirtækið einfaldlega að búa til tekjur úr auðlind sem ekki hafi verið talin til tekna hér áður. Segir hann að fyrirtækjum bjóðist að kaupa umrædd skírteini af fyrirtækinu ef þau vilji og þá geti þau gefið sig út fyrir að vera með upprunavottaða endurnýjanlega orku. Raunin hafi aftur á móti verið sú að eftirspurn eftir slíku hafi verið lítil sem engin, enda telji allir notendur hér sig vissa um að þeir fái græna orku og þá séu þeir ekki að flækja málið með þessum upprunaskírteinum. Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, tekur í sama streng og segir að fyrirtæki hafi ekki sýnt þessu máli mikinn áhuga.

380 milljónir fyrir öll skírteinin

Verð á grænum skírteinum sveiflast nokkuð, en samkvæmt upplýsingum mbl.is er meðalverð á bilinu 8 til 20 evrusent á megavattstund. Raforkuvinnsla á Íslandi var árið 2012 um 17,5 teravattstundir, en það þýðir að  hægt væri að fá um 380 milljónir króna á ári ef skírteini fyrir alla þá framleiðslu væru seld. Þess ber að geta að skírteinin eru seld miðað við framleiðslu og almennt til eins eða tveggja ára. Ekki er því um varanlega sölu að ræða.

Hlutfallið á leið undir 50%

Stærstu raforkuframleiðendur á Íslandi eru Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur. Bæði fyrirtækin hafa aukið sölu grænna skírteina milli ára, en samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun stefnir í að salan hafi aukist um 40% frá 2012 til 2013. Verið er að leggja lokahönd á að birta gögn um síðasta ár, en Sigurður H. Magnússon, sérfræðingur hjá Orkustofnun, segir að það gæti stefnt í að hlutfall endurnýjanlegri orku verði undir 50%. Er það lækkun upp á um 16 prósentustig frá fyrra ári þegar hlutfallið var 66%. Árið 2011 var það 88% og því er ljóst að sala skírteinanna er að aukast ár frá ári. Í staðin fyrir endurnýjanlega orku mun bókhaldsleg orkuframleiðsla hér á landi því innihalda kjarnorku og jarðeldsneyti, en í fyrra var skráð hlutfall þeirra 15% og 19%. Ljóst er að það mun aukast í tölum ársins 2013.

Fá í raun ekkert fyrir að flytja starfsemina til Íslands

„Það er aukning milli ára í sölu upprunaábyrgða og við förum því alltaf að líkjast evrópsku skiptingunni meira og meira,“ segir Sigurður, en hann tekur þó fram að bilið sé enn töluvert á milli Íslands og Evrópu. Þar hafi hlutfall endurnýjanlegrar raforkuframleiðslu í fyrra aðeins verið 10,9%. Aðspurður hvort að fyrirtæki geti sótt um vottun þar sem komi fram að þau nýti aðeins endurnýjanlega orku segir Sigurður að það sé ekki hægt. Aftur á móti geti fyrirtæki fjárfest í vottorðum eins og seld eru úr landi. Þegar hann er spurður hvort að fyrirtæki græði þá eitthvað á að koma til Íslands og reisa starfstöð til að fá 100% græna orku segir Sigurður svo í raun ekki vera. Ímyndin bjóði upp á það, en á pappír séu fyrirtækin oftast að fá orku sem sé blanda af kjarnorku, jarðefnaeldsneyti og endurnýjanlegri orku.

Hann segir að hér og í Noregi sé sé þetta ekki mikið til umræðu þar sem fólk viti að orkan sé mestöll gerð með endurnýjanlegri orku „Það eru engir viðskiptalegir hagsmunir hjá fyrirtækjum að geta gefið það út að þau séu aðeins að nota endurnýjanlega orku, því það vita allir að orkan er endurnýjanleg,“ segir hann.

Gæti skemmt ímynd landsins

Í raun má segja að íslensk orkufyrirtæki sitji á auðlind sem þeim bjóðist nú að nýta eftir að vottorðakerfinu var komið á fyrir nokkrum árum. Fyrirtæki erlendis vilja í auknum mæli segja að þau noti bara endurnýjanlega orku og með því að kaupa svona skírteini geta þau það. Á móti kemur að hér á landi telja allir orkuna græna og því geta fyrirtæki í krafti ímyndar landsins kynnt sig sem græn, þótt orkubókhald segi aðra sögu. Þetta leiðir til þess að til verða verðmæti hér á landi út á framleiðsluaðferðina. Um leið segja opinberar tölur að rafmagnsframleiðsla hér á landi sé ekki græn og það gæti til lengri tíma skemmt ímynd landsins og hrakið væntanlega viðskiptavini í burtu sem leita að grænni orku.

Orkufyrirtækin fá inn tugi, jafnvel hundruði milljóna með að selja …
Orkufyrirtækin fá inn tugi, jafnvel hundruði milljóna með að selja upprunavottorð til erlendra fyrirtækja. Sigurður Bogi Sævarsson
Blöndustöð Landsvirkjunar. Ef miðað er við landsmeðaltal er aðeins helmingur …
Blöndustöð Landsvirkjunar. Ef miðað er við landsmeðaltal er aðeins helmingur þeirrar raforku sem kemur frá Blönduvirkjun framleiddur með endurnýjanlegum hætti.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK