Fjölskyldufyrirtæki sem greinir mengun

Kristján Hall, starfsmaður ARK og Þorsteinn Svanur Jónsson, einn stofnenda …
Kristján Hall, starfsmaður ARK og Þorsteinn Svanur Jónsson, einn stofnenda fyrirtækisins á Nýsköpunartorgi í HR. Árni Sæberg

Hægt verður að fylgjast með mengun skipa víðsvegar um heiminn og vörukaupendur geta aukið samfélagslega ábyrgð sína með að velja grænustu skipin. Þá munu hafnir geta boðið skipum sem huga að umhverfisvernd upp á hagstæðari hafnargjöld og komið þannig í veg fyrir að umhverfissóðar leggi leið sína á ákveðna staði. Þetta á nýtt kerfi, sem fyrirtækið ARK vinnur að, að geta ýtt undir. Þetta segir Þorsteinn Svanur Jónsson, einn stofnandi félagsins í samtali við mbl.is, en hann segir að eftirspurn sé eftir svona kerfi þar sem stóru skipafélögin séu orðin þreytt á því að mengunarlöggjöf refsi þeim sem eru ábyrgir en verðlauni sóðana.

Fjölskyldufyrirtæki út frá Marorku

ARK var stofnað í lok síðasta árs af Þorsteini, Sigrúnu Jónsdóttur, systur hans og Jóni Ágústi Þorsteinssyni, föður þeirra og aðalmanninum á bakvið fyrirtækið Marorku. Það hefur þegar fengið styrki frá Tækniþróunarsjóði og starfa í dag átta manns hjá fyrirtækinu og stefnt er á frekari uppbyggingu á næstunni. Þorsteinn hafði sjálfur unnið í fjögur ár sem lögfræðingur hjá Marorku og segir að þar hafi hann skoðað alþjóðalög og komist að því að hægt væri að nýta tækni og upplýsingar Marorku á víðari grundvelli.

Marorka býr til orkustjórnunarkerfi fyrir skip og er með mörg af stærri skipafyrirtækjum heims í viðskiptum. Þá eru settir upp hundruð mæla sem mæla vélabúnað, álag á skrúfu, veðurfar og strauma. Þetta skilar sér í upplýsingum fyrir eigendur hvernig best sé að keyra skipin á sem skilvirkastan hátt og spara þar með olíu, en Þorsteinn segir að það geti numið allt að 15%.

Nota upplýsingar til að greina mengun

„Við komust að því að við gætum notað þessar upplýsingar til þess að reikna og mæla hversu mikil losun er á ýmsum mengunartegundum,“ segir Þorsteinn, en kerfi ARK mun mæla umhverfisfótspor skipa. Hugmyndin er enn á frumstigi, en Þorsteinn segir að stefnan sé á að fyrsta útgáfa muni koma út í haust. Í kerfinu er gert ráð fyrir að geta fylgst með skipaferðum á heimskorti og hvaða skip menga minnst og hver mest.

Umhverfislöggjöf nú þegar til staðar

Aðspurður hvort þetta letji ekki umhverfissóða til þátttöku segir Þorsteinn að svo geti verið, en að nú þegar sé umhverfislöggjöf í gangi varðandi mengun skipa, en því miður sé ekki nein tækni sem geri það mögulegt að fylgjast með því hvort skipafélög brjóti hana eða ekki. Þannig mega skip til dæmis ekki nota annað en hreina olíu og setja ákveðið mikið álag á vélina svo köfnunarefni fari ekki yfir viss mörk. Þá mega skipin heldur ekki framleiða nema ákveðið magn af sóti.

„Ábyrgir aðilar og stærstu félögin í heiminum eru að taka sig saman og krefja stjórnvöld um lausn í þessum málum,“ segir Þorsteinn og bætir við að þau séu ekki sátt með að núverandi staða skekki markaðinn og eyðileggi fyrir þeim sem eru ábyrgir, en verðlauni þá sem eru óábyrgir.

Fleiri mögulegir viðskiptavinir

Þorsteinn segir að einnig sé hægt að selja þessar upplýsingar til hafnayfirvalda sem oft gefi umhverfisvænum fyrirtækjum afslátt af hafnagjöldum. Þá hafi stórfyrirtæki lengi sýnt því áhuga að geta valið sér umhverfisvænsta kostinn í framleiðslu og flutningi á vörum. Flutningur á sjó hafi aftur á móti lengi verið óbrúað bil, en nú sé þar breyting á.

„Næsta skref okkar er svo að sækja út á við og fara til þessa hóps skipafyrirtækja sem eru að kalla eftir lausninni,“ segir Þorsteinn, en meðal þeirra fyrirtækja eru Maersk, Wilhelmsen og grísk skipafyrirtæki. Segir hann að mál muni skýrast á seinni hluta ársins, en hann vonast til að ARK verði þá með eitthvað almennilegt að sýna í þessari fyrstu kynslóð mengunareftirlitshugbúnaðar fyrir skip.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK