Margir sprotasjóðir í startholunum

Altalað er að frumkvöðlastarf sé í miklum vexti á Íslandi …
Altalað er að frumkvöðlastarf sé í miklum vexti á Íslandi þessi misserin. Ríkisstjórnin hefur lofað auknum framlögum í Tækniþróunarsjóð og nokkur fyrirtæki hafa skilað sér í efstu deild. Enn virðist þó vanta nauðsynlega fjármagn á fyrri stigum uppbyggingar.

Eitt af aðal vandamálum frumkvöðlaiðnaðarins hér á landi er vöntun á fjármagni. Í skýrslu McKinsey var meðal annars talað um að nýsköpunarfjárfestingar þyrftu að vera um þrír milljarðar árlega til að vera á svipuðum stað og Bandaríkin, en ljóst er að fjármögnunin er aðeins lítill hluti af því. Upp á síðkastið hefur þó orðið nokkur vakning í þessum málefnum og þegar ríkisstjórnin tilkynnti um hækkun framlags í samkeppnissjóði var einnig ákveðið að fara í vinnu við að bæta aðgengi nýsköpunarfyrirtækja að framtaksfjármagni, þar sem lífeyrissjóðir landsins eru stærstu fjárfestarnir.

Fjórir sjóðir í uppbyggingu

Í heild eru fjórir aðilar að skoða stofnun sprotasjóða, en heildarumfang þeirra yrði vel á annan tug milljarða ef allt genger eftir. Rétt er þó að taka fram að enginn hefur enn lokið fjármögnunin og ekkert er í hendi fyrr en gengið er frá öllum samningum. Þá eru fyrir á markaðinum nokkrir sjóðir hafa annað hvort lokið fjárfestingartímabili sínu eða eru enn í fjárfestingastarfsemi. Heildarumfang fjárfestinga árlega hjá þeim hefur aftur á móti verið takmarkað við nokkur hundruð milljónir árlega.

Tveir sjóðir þegar kynntir

Nýlega kynntu Íslandssjóðir að þeir væru að vinna að stofnun sjóðs í samstarfi við fjárfestinn Bala Kamallakharan, en áætlað er að sjóðurinn verði um fjórir milljarðar og að fjárfest verði í þekkingarfyrirtækjum. Unnið er að því að fjármagna sjóðinn gegnum lífeyrissjóði, en einnig hafa erlendir fjárfestar sýnt verkefninu áhuga.

Í lok síðasta árs sögðu Landsbréf frá því að í vinnslu væri að koma á fót sjóði með nafnið Brunnur I, en sá sjóður átti að sérhæfa sig í fjárfestingu í sprotafyrirtækjum á Íslandi þar sem líkur eru á miklum vexti, fremur en að sérhæfa sig í tilteknum atvinnugreinum. Haft var eftir Sigurþóri Jónssyni, framkvæmdastjóra félagsins, að hér á landi væri ekki nægjanlega sterk hefð fyrir því að framtakssjóðir fjárfesti í fyrirtækjum á uppbyggingarstigi, en að vilji væri til þess að breyta því.

Framtak og Frumtak í vinnslu

Félagið SA framtak hefur á síðustu misserum einnig unnið að því að koma svona framtakssjóði á koppinn. Á bakvið félagið eru þeir Árni Blöndal og Sigurður Arnljótsson. Árni var áður framkvæmdastjóri áhættufjárfestingasjóðsins Uppspretta Venture Capital frá 2001 til 2006. Sigurður var meðstofnandi og forstjóri CCP í kringum aldarmótin síðustu. Í samtali við mbl.is staðfestir Árni að vinna sé í gangi við svona sjóð, „við erum komnir býsna langt,“ segir hann. Upplegg sjóðsins er að setja verulegt fjármagn í hverja fjárfestingu, eða að lágmarki 100 milljónir. „Við útilokum ekki klakstig, en horfum á fjárfestingar á fyrri stigum,“ segir Árni.

Að lokum hefur Frumtak unnið að því stofna framtakssjóð fyrir fyrirtæki á fyrri stigum uppbyggingar.  Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks, segir í samtali við mbl.is að ekkert sé klárt fyrr en það sé að fullu komið, en að vinnan sé á lokastigi. Frumtak var stofnað árið 2008 með fjármagni frá ríkinu, lífeyrissjóðum og viðskiptabönkunum. Fjárfestingatímabil hans var frá 2009 til 2013, en Eggert segir að í raun séu fáir sem engir, utan Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, að fjárfesta á þessum fyrstu stigum í dag. Aðeins sé um að ræða englafjárfesta og vini og vandamenn. Stóru upphæðirnar vanti hins vegar á þetta bil, eða þangað til aðrir framtakssjóðir taki við á seinni stigum.

Banki og önnur félög þreifa fyrir sér

Til viðbótar við fyrrnefnda sjóði hefur Arion banki fjárfest í fjölda fyrirtækja síðustu ár gegnum Startup Reykjavík, en í samstarfi við Klak Innovit hafa 10 sprotafyrirtæki verið valin undanfarin ár og hvert og eitt látið hafa tvær milljónir til að vinna úr hugmyndum. Í staðin hefur Arion banki fengið 7% hlut í fyrirtækjunum og því rétt að horfa á þetta sem ákveðna frumfjárfestingu á klakstigi.

Þá hefur Eyrir Sprotar, dótturfélag Eyrir Invest, fjárfest í félögunum Remake Electric og Saga Medica og samkvæmt heimildum mbl.is er verið að skoða stækkunarmöguleika þess sjóðs. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hefur einnig fjárfest í fjölda frumkvöðlafyrirtækja síðustu árin, en sjóðurinn er bundinn af því að fá engin aukin fjárframlög, heldur þarf að fjármagna nýjar fjárfestingar með sölu á eldri eignum. Fjárfestingafélagið Investa hefur verið nefnt á nafn þegar kemur að uppbyggingu á sprotasjóðum, en Haraldur Þorkelsson, einn eigenda félagsins, segir í samtali við mbl.is að slíkt hafi verið skoðað fyrir nokkru síðan, en hafi verið lagt á hilluna. Ekki séu í dag uppi nein áform um slíkan sjóð.

Haukur Skúlason, forstöðumaður framtaksfjárfestinga Íslandssjóða og Bala Kamallakharan, fjárfestir og …
Haukur Skúlason, forstöðumaður framtaksfjárfestinga Íslandssjóða og Bala Kamallakharan, fjárfestir og athafnamaður. Þeir eru meðal þeirra sem vinna að stofnun sjóðs sem myndi fjárfesta í fyrirtækjum á fyrstu stigum uppbyggingar. KRISTINN INGVARSSON
Meniga er meðal þeirra fyrirtækja sem hafa náð að fjármagna …
Meniga er meðal þeirra fyrirtækja sem hafa náð að fjármagna sig að mestu hér á landi síðustu ár. Í fyrra skrifaði fyrirtækið undir fjármögnunarsamning við Frumtak, Kjölfestu og erlenda fjárfesta.
Þorsteinn B. Friðriksson hjá Plain Vanilla. Erlendir fjárfestar settu 2,5 …
Þorsteinn B. Friðriksson hjá Plain Vanilla. Erlendir fjárfestar settu 2,5 milljarð í félagið á síðasta ári, en engir innlendir fjárfestingasjóðir fjárfestu í Plain Vanilla. mbl.is/Ómar Óskarsson
Mikið af frumkvöðlastarfi fer fram í tölvum í dag, en …
Mikið af frumkvöðlastarfi fer fram í tölvum í dag, en mörg íslensk fyrirtæki hafa náð árangri á þeim vettvangi. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK