Ísland verði alþjóðleg fjármálamiðstöð

Frá morgunverðarfundi Norsk-íslenska viðskiptaráðsins í dag.
Frá morgunverðarfundi Norsk-íslenska viðskiptaráðsins í dag. mbl.is/Þórður

Aldo Musacchio, prófessor við Harvard Business School, segir að Ísland ætti að reyna að feta í fótspor ríkja á borð við Hong Kong og Singapúr. Það sé kjörið að nýta þá reynslu og þekkingu sem við höfum öðlast á sviði fjármála eftir hrun bankanna haustið 2008 til að opna landið fyrir erlendum fjárfestum og gera það að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Musacchio hélt erindi á morgunverðarfundi Norsk-íslenska viðskiptaráðsins á Hilton Nordica Hótel í morgun.

Hugmyndir um að Ísland verði alþjóðleg fjármálamiðstöð eru ekki nýjar af nálinni. Í ræðu á Viðskiptaþingi Verslunarráðs Íslands árið 2005 sagðist Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, eiga sér þann draum að Ísland verði í framtíðinni þekkt sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. „Ég er þeirrar skoðunar að með samstilltu átaki getum við gert þann draum að veruleika,“ sagði hann.

Skömmu síðar skipaði hann nefnd sem skilaði loks af sér skýrslu um möguleika Íslands í þessum efnum. Málið fór hins vegar ekki lengra en það.

Hann sagði að það mætti ekki hugsa sem svo að ekkert væri að marka árin í bólunni, áður en hrunið loks skall á. Íslendingar hefðu lært margt og mikið á þeim tíma og öðlast færni í fjármálum, fasteignaviðskiptum, stjórnun og svo framvegis.

Máli sínu til stuðnings vísaði Musacchio til hinnar margfrægu skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey, en þar kemur fram að framleiðnistigið sé með hæsta móti í fjármála- og fasteignageiranum. Sagði hann mikil vaxtartækifæri vera til staðar í þeim atvinnugreinum.

En hvað er til bragðs að taka?

Mikil tækifæri til staðar

Musacchio lagði til að við fetuðum í fótspor ríkja á borð við Singapúr, Hong Kong og, eftir atvikum, Panama. Hagkerfi þessara ríkja væri tiltölulega opið og frjálst. Þau væru öll stórar alþjóðlegar fjármálamiðstöðvar. Þar mætti einnig finna stóra flugvelli og hafnir. Auðvelt væri að eiga viðskipti í ríkjunum, allt stofnanaumhverfi væri til fyrirmyndar, bankakerfin stór, fasteignamarkaðurinn líflegur og svo framvegis.

Ýmislegt þyrfti hins vegar að koma til hér á landi. Musacchio benti meðal annars á að skuldir ríkisins, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, væru mun hærri hér á landi en í þeim löndum sem hann vill að við berum okkur saman við.

Þá væri íslenski hlutabréfamarkaðurinn jafnframt ekki eins stór og virkur og í hinum ríkjunum. Til marks um það sagði hann að markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöllinni hefði verið um fimmtán prósent af vergri landsframleiðslu árið 2011. Hlutfallið hefði hins vegar verið 397% í Hong Kong og 145% í Singapúr.

Musacchio tók þó fram að ekki væru til neinar töfralausnir. Um væri að ræða verkefni til langs tíma og árangurinn myndi ekki skila sér alveg í bráð. Þolinmæði væri dyggð.

„Það eru mikil og stór tækifæri til staðar, en það þarf að stórauka traust fjárfesta á landinu,“ sagði hann að lokum.

Frétt mbl.is: Bjart­ari tím­ar framund­an

Frétt mbl.is: Íslensku bank­arn­ir vel fjár­magnaðir

Frétt mbl.is: Væntingar kröfuhafanna of miklar

Aldo Musacchio, prófessor við Harvard Business School.
Aldo Musacchio, prófessor við Harvard Business School.
mbl.is

Bloggað um fréttina

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK