Stöðvar ólögleg gjaldeyrisviðskipti

Ásdís Ásgeirsdóttir

Seðlabanki Íslands mun í vikunni tilkynna umboðsaðilum erlendra tryggingafélaga hérlendis að gjaldeyrisviðskipti þeirra á grundvelli samninga um meðal annars viðbótartryggingavernd, söfnunartryggingar og sparnað verði stöðvuð. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Morgunblaðsins hefur rannsókn Seðlabankans leitt í ljós að starfsemi félaganna og sala á sparnaðarafurðum til einstaklinga hér á landi brjóti gegn lögum um gjaldeyrismál.

Aðgerðir Seðlabankans snerta tugi þúsunda einstaklinga sem hafa gert slíka samninga, en umboðsaðilar erlendu tryggingafélaganna sem um ræðir eru fyrst og fremst Allianz á Íslandi, Sparnaður og Tryggingamiðlun Íslands.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins verður reynt að lágmarka tjón þeirra einstaklinga sem eru í viðskiptum við tryggingafélögin. Til stendur að gera þeim kleift að standa við gerða samninga með því að skilmálabreyta þeim í íslenskar krónur. Sömuleiðis verður veitt undanþága fyrir þá sem gert hafa samninga um líf- og sjúkdómatryggingar þannig að þeir geti efnt þá samninga í erlendum gjaldeyri.

Að óbreyttu munu aðgerðir Seðlabankans hafa gríðarleg áhrif á gjaldeyrisútflæði frá landinu. Á þessu ári er áætlað að útflæðið vegna iðgjaldagreiðslna á grundvelli samninga einstaklinga við tryggingafélögin verði um 10 milljarðar króna. Frá setningu hafta árið 2008 nemur heildarútflæðið um 40 milljörðum.

Seðlabankinn áformar jafnframt að veita erlendu tryggingafélögunum sérstaka undanþáguheimild til að fjárfesta í fasteignum og verðbréfum útgefnum í krónum hérlendis. Þannig verði tryggt að þau hafi sömu fjárfestingarheimildir og íslenskir lífeyrissjóðir.

Ítarlega er fjallað um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir